Gæðaviðurkenning Landskrifstofu 2015

Gæðaviðurkenningar Landskrifstofu fyrir framúrskarandi Evrópuverkefni voru veittar á verðlaunahátíð í Ásmundasafni 10. desember 2015. 


Leik-, grunn- og framhaldsskólastig 


Sveitarfélagið Skagafjörður. 
Titill verkefnis: Að byggja brú milli leik- og grunnskóla.
Sækja einblöðung

Sveitarfélagið Skagafjörður fær viðurkenningu fyrir að stýra velheppnuðu svæðasamstarfi þar sem sérstök  áhersla var lögð á aðferðir til að tryggja að skilin á milli tveggja skólastiga, leik- og grunnskóla, verði sem minnst. Niðurstöður verkefnisins nýtast áfram innan sveitarfélagsins og hafa m.a. verið birtar í Nordic Educational Magazine í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Höfundur myndverks, Arnar Steinn Pálsson, lýsir verkinu svo:  „Drangarnir túlka fólkið sem vinnur að uppbyggingu, viðhaldi og verndun skapandi umhverfis fyrir börn á öllum aldri. Börnin eru í öruggu skjóli þar sem þau vinna og leika saman í hlýju og nærandi umhverfi.“ 

Lundarskóli á Akureyri.
Titill verkefnis: Sterkari saman.
Sækja einblöðung

Verkefnið fær viðurkenningu fyrir frumkvæði og  jákvæð áhrif á skólastarf.  Í verkefninu var stærðfræði sett í skemmtilegan búning og nýstárleg nálgun verkefnisins við kennslu hefur reynst sérstaklega gagnleg fyrir nemendur með námsörðugleika.  Sett var upp heimasíða þar sem afrakstur nemenda og samskipti við nemendur í öðrum þátttökulöndum var kynnt. Síðan er uppfærð reglulega  og verkefninu þannig viðhaldið.

Höfundur myndverks, Hlíf Una Bárudóttir, lýsir verkinu svo:  „Hugmyndin var að vinna út frá framtíðarsýn Comeníusar að allir ættu að geta menntað sig.  Hann lagði mikla áherslu á að kennslubækur væru myndskreyttar og ekki eingöngu á Latínu heldur einnig á móðurmáli nemenda“.

Að auki hlutu eftirtaldar stofnanir og verkefni þann heiður að vera tilnefnd til gæðaviðurkenninga á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi:

Menntaskólinn á Egilsstöðum með verkefnið „Sjálfbær nýting þjóðgarða – við leitum nýrra leiða“

Nemendur skráðu GPS slóðir áhugaverðra gönguleiða við Vatnajökul. Tvær námsbrautir voru skapaðar sem urðu hluti af námskrá í samstarfi ME og samstarfsskóla í Þýskalandi auk þess sem Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu tók einnig þátt í samstarfinu. Verkefnið var tilnefnt vegna þess að það var sérlega gefandi fyrir nemendur og skólasamfélagið á Austurlandi.

Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða með verkefnið „EYRA“
Í þessu tveggja landa verkefni var markmiðið að deila reynslu og vinna saman að bættri þjónustu við heyrnarskerta nemendur, heyrnarlausa og nemendur með kuðungaígræðslur. Verkefnið var tilnefnt af því það hafði mjög jákvæð áhrif á einstaklinga og stofnanir sem að því komu.

Starfsmenntun


Iðan fræðslusetur.
Titill verkefnis: Íslenskir iðnnemar í vinnustaðanámi í Evrópu.
Sækja einblöðung

Verkefnið fær viðurkenningu fyrir stjórnun og ávinning. Einstaklega vel  var staðið að framkvæmd verkefnisins og sérstök áhersla lögð á gæði og viðurkenningu starfsþjálfunarinnar. Ávinningur einstakra þátttakenda og íslensks atvinnulífs er mikill því með verkefninu var stigið stórt skref í þá átt að gera starfsþjálfun nema  í löggiltum iðngreinum á erlendum vettvangi að  raunverulegum möguleika.

Höfundur myndverks, Karítas Gunnarsdóttir, segir um verk sitt:  „Kveikjan að myndinni eru nemendurnir sem fóru til útlanda í starfsnám. Áherslan er á fjölbreytileika og að hver iðn fái að njóta sín. Nemendurnir kanna óþekkt lönd og stunda iðn sína.“

                                        Verkmenntaskólinn á Akureyri. 
  Titill verkefnis: Starfsfóstri.  Sækja einblöðung

Starfsfóstri var samstarfsverkefni fimm landa um þróun handbókar og þjálfun fyrir starfsfóstra í fyrirtækjum sem taka nema í starfsþjálfun. Brennandi áhugi og mikill metnaður einkenndi framkvæmd verkefnisins, því var vel stýrt og verkefnishópurinn sterkur. Afurðir verkefnis – handbók og vinnusmiðjur fyrir starfsfóstra – eru enn í notkun í 4 löndum, hafa hlotið sérstaka viðurkenningu Evrópusambandsins sem gæðaverkefni  og hluti samstarfshópsins vinnur að áframhaldandi þróun afurðanna. Sá ávinningur verkefnisins sem mestu máli skiptir er hins vegar aukinn stuðningur við nemendur sem eru í hættu að hverfa frá námi og aukin þjálfun fyrir starfsfóstra á vinnustað.

Höfundar myndverks, Guðbrandur Magnússon og Guðný Hannesdóttir lýsa verkinu svo:  „Ætlunin var að láta verkefnið endurspegla þá hugsjón VMA að sameina nemendur og starfsfóstra, byggja þá upp og leggja grunn að bjartari framtíð.“

Að auki hlutu eftirtaldar stofnanir og verkefni þann heiður að vera tilnefnd til gæðaviðurkenninga á sviði starfsmenntunar:

Framhaldsskólinn á Suðurnesjum.
Titill verkefnis: Verklegt nám nemenda á starfsbrautum.

Með verkefninu fengu 11 nemar á starfsbraut einstakt tækifæri til þátttöku í evrópsku samstarfi með tveggja vikna námsdvöl í Finnlandi, þar sem viðfangsefni tóku mið af þörfum og áhuga hvers og eins. Verkefnið var tilnefnt fyrir gott skipulag og fyrir að mæta þörfum þátttakenda sérlega vel.

Landspítali – eldhús. 
Titill verkefnis:
Gratin.

Samstarfsverkefni þessu var ætlað að bæta næringu og lífsgæði eldra fólks sem þarf að dvelja á sjúkrastofnunum. Verkefnið hlaut viðurkenningu fyrir góða framkvæmd og fyrir að hafa langvarandi áhrif á þær stofnanir sem tóku þátt í því. Verkefnið hlaut einnig sérstaka viðurkenningu fyrir framkvæmd í Danmörku.

Slysavarnaskóli sjómanna. 
Titill verkefnis:
Þjálfun í öryggi sjófarenda.

Verkefnið snerist um öryggi sjófarenda og þjálfun leiðbeinenda Slysavarnaskólans sem síðan annast þjálfun sjómanna um allt land. Verkefnið var tilnefnt vegna þess að framkvæmd var til fyrirmyndar og þátttakendur öðluðust dýrmæta reynslu sem þegar hefur nýst til þjálfunar annarra leiðbeinanda um allt land. 

Landsbúnaðarháskólinn á Hvanneyri. 
Titill verkefnis:
Skógarafl.

Markmið verkefnisins var að ná til áhugafólks um skógrækt á Íslandi og bjóða þeim almenna fræðslu, og kennsluefni í gegnum vefsíðuna  http://www.skogarbondi.is/ ,  endurmenntun í kennslustofum, á netinu og ekki síst á skógræktarsvæðum. Einnig var þýdd bók um efnið úr sænsku. Verkefnið var tilnefnt fyrir góðan afrakstur, árangursríkt samstarf og jákvæð áhrif á skógrækt hér á landi.

Brunamálaskólinn  – Mannvirkjastofnun
Titill verkefnis: Víkkaðu sjóndeildarhringinn – kennsla í áfallastjórnun.

Fimm leiðbeinendur slökkviliðsmanna sóttu námskeið í þjálfun slökkviliða í öðrum löndum Undirbúningur og framkvæmd verkefnis var til fyrirmyndar, mætti þörfum þeirra sem fengu þjálfun og sýndi að námsferðir sem þessar nýtast smærri stofnunum mjög vel.

Háskóli Íslands.
Titill verkefnis: 
Evrópsk vatnsrækt.

Skýr markmið og góður árangur einkenndu þetta fjögurra landa samstarfsverkefni þar sem unnið var að starfsmenntaverkefni sem snerist um samspil fiskeldis og garðyrkju þar sem næringarefni úr skólpi í fiskeldi voru nýtt til að rækta plöntur. Verkefnið var tilnefnt fyrir nýbreytni og góða alhliða framkvæmd.

Háskólastig


Listaháskóli Íslands.
Titill verkefnis: Erasmus stúdenta- og starfsmannaskipti.
Sækja einblöðung

Framkvæmd stúdenta- og starfsmannaskipta við Listaháskóla Íslands hefur verið framúrskarandi góð undanfarin ár og þátttaka hlutfallslega mest miðað við aðra íslenska háskóla. Skiptinám stúdenta er mjög vel kynnt og telst sjálfsagður hluti af öllum námsleiðum og stór hluti þess metinn á móti skyldunámi. Gestakennsla og þjálfun starfsmanna er nýtt með markvissum hætti og til fyrirmyndar hvernig reynslu þeirra sem fara út á vegum Erasmus+ er miðlað að dvöl lokinni. Listaháskólinn hefur einnig verið í fararbroddi varðandi nýtingu möguleika eins og starfsnáms að lokinni útskrift.

Höfundur myndverks, Elín Elísabet Einarsdóttir, lýsir verkinu svo: „Hugmyndin er að blanda Evrópukorti við upplifanir þeirra sem  tóku þátt í verkefninu. Landið á kortinu er byggt upp með hlutum sem koma við sögu í hversdagslegu lífi þeirra og hafið er gert úr tilvísunum fyrrverandi Erasmus skiptinema um reynslu sína.“

Háskóli Íslands.  
Titill verkefnis: Sumarskóli Rannsóknarseturs um smáríki
Háskóli Íslands.
Sækja einblöðung

Sumarskóli Rannsóknarseturs um smáríki byggist á nánu langtímasamstarfi háskóla í Evrópu og er því með mjög sterkar faglegar rætur. Skólinn er mjög vel skipulagður og framkvæmd hans til fyrirmyndar. Hann hefur enn fremur orðið til þess að efla og dýpka faglegt samstarf háskólanna. Mörg dæmi eru um að sumarskólinn hafi orðið til þess að nemendur í meistaranámi hafi tengt lokaverkefni sín við smáríkjafræðina og þau umfjöllunarefni sem tekin voru fyrir í sumarskólanum. 

Höfundar myndverks, Kristjana E Sigurðardóttir og Valgerður Sigurðardóttir lýsa verkinu svo: „Aðaláherslan sem við unnum útfrá var tengingin og samvinnan milli landanna sem tóku þátt í verkefninu.“

Að auki hlaut eftirtalin stofnun og verkefni þann heiður að vera tilnefnt til gæðaviðurkenningar á háskólastigi:

Háskóli Íslands
Titill verkefnis: Erasmus+ Stúdenta og starfsmannaskipti

Fullorðinsfræðsla


Þingborg ullarvinnsla. 
Titill verkefnis: Fegurð hannyrðanna.
Sækja einblöðung

Hér er um að ræða einstaklega áhugaverkt verkefni sem snérist um að kenna þekktar, þjóðlegar textílaðferðir á mismunandi landsvæðum í því skyni að halda lífi í gömlum hefðum. Árangursríkar vinnustofur voru  haldnar  í samstarfslöndunum og áhersla lögð á að vekja áhuga ungs fólks á hefðbundnum textíl, og yfirfæra þekkingu á milli kynslóða. Óvæntar upplifanir þátttakenda í heimsóknum erlendis stuðluðu að óvæntum auknum ávinningi.

Höfundur myndverks, Anna Karen Vilhjálmsdóttir, lýsir verkinu svo:  „Kveikjan að verkinu var samvinna milli þjóða og kynslóða til að virkja þá menningararfðleið sem handverið er. Myndinn er  unnin í klippimyndastíl til að ná þeirri áferð sem handverk hefur.“

Sólheimar. 
Titill verkefnis: Art-is.

Sækja einblöðung

Þetta er einstaklega skemmtilegt og árangursríkt samstarfsverkefni 9 evrópskra samtaka sem vinna með einstaklingum með sérþarfir.  Verkefnið var áskorun en um leið einstakt tækifæri til að efla einstaklinga með sérþarfir í listrænni sköpun og styðja þá til að sýna eigin list í alþjóðlegu umhverfi. Í verkefninu fengu þátttakendur tækifæri til að taka þátt í alþjóðlegum menningarviðburðum og þannig gera líf sitt sýnilegt og þroskast.

Höfundar myndverks, Högni Guðlaugur Jónsson Sigmar Örn Sveinsson lýsa verkinu svo: „Kveikjan að myndinni var sú gleði sem ríkti í heimsóknum hóps frá Sólheimum til annarra landa, innrammað í táknmyndir sviðslistanna og merki Sólheima, sól í húsi.“

Að auki hlaut eftirtalin stofnun og verkefni þann heiður að vera tilnefnt til gæðaviðurkenningar á sviði fullorðinsfræðslu:

Jafnréttishús.
Titill verkefnis: 
Einu sinni var.. í Evrópu.  

Markmið þessa fjölþjóðlega verkefnis var að skapa vettvang til að efla grunnfærni innflytjendakvenna á Íslandi með BOHM-samræðutækni. Verkefnið var tilnefnt af því að með því var brugðist við þörfum innflytjenda í nýju samfélagi.

Hönnun gæðaviðurkenninga Erasmus+ árið 2015

Gæðaviðurkenningar Erasmus+ árið 2015 eru myndverk hönnuð af 15 nemendum á öðru ári í teiknideild í Myndlistaskóla Reykjavíkur. Verkefnið gaf nemendum tækifæri til að glíma við raunverulegt verkefni á sömu forsendum og fagmaður, sem er í senn krefjandi og mikilvægt fyrir nemendur í sérhæfðu námi. 

Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur verið duglegur að nýta sér tækifærin Menntaáætlunar Evrópusambandsins og hefur m.a stýrt tveimur og samstarfsverkefnum sem sem leiddu til stofnunar tveggja ára diplómabrauta í keramik, teikningu og textíl. Einn áfangi á öllum þessum námsbrautum er námsferð til Evrópu sem farin er með styrk frá Erasmus+. Fyrir slíkt verkefni hlaut skólinn gæðaviðurkenningu árið 2010.

Bæði nemendur og kennarar Myndlistaskólans tóku þátt í verkefninu við hönnun og gerð myndverkanna.  Leiðbeinendur voru Anna Cynthia Leplar, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Linda Ólafsdóttir.

Höfundar myndverka:

  • Ólafur Rúnar Sigurmundsson: Hönnun veggspjalda  
  • Karítas Gunnarsdóttir, myndverk Iðunnar fræðsluseturs vegna verkefnisins  Íslenskir iðnnemar í vinnustaðanámi í Evrópu.
  • Guðbrandur Magnússon og Guðný Hannesdóttir, myndverk Verkmenntaskólans á Akureyri vegna verkefnisins Starfsfóstri.
  • Elín Elísabet Einarsdóttir, myndverk Listaháskóla Íslands vegna verkefnisins Erasmus stúdenta og starfsmanna- skipti.
  • Kristjana E Sigurðardóttir og Valgerður Sigurðardóttir, myndverk Háskóla Íslands vegna verkefnisins Sumarskóli Rannsóknarseturs um smáríki.
  • Hlíf Una Bárudóttir, myndverk Lundarskóla vegna verkefnisins Sterkari saman
  • Arnar Steinn Pálsson, myndverk sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna verkefnisins Að byggja brú milli leik- og grunnskóla.
  • Anna Karen Vilhjálmsdóttir, myndverk Ullarvinnslunar Þingborgar vegna verkefnisins Fegurð hannyrðanna
  • Högni Guðlaugur Jónsson og Sigmar Örn Sveinsson, myndverk Sólheima vegna verkefnisins ART-IS
  • Haraldur Pétursson, myndverk Leikskólans Holts vegna verkefnisins Lesum heiminn
  • Auður Ómarsdóttir og Myrra Mjöll Daðadóttir, myndverk Leiksólans Holts vegna verkefnisins Lesum heiminn.







Þetta vefsvæði byggir á Eplica