Framkvæmdastjórn ESB styður við ýmis verkefni sem ætlað er að styðja við evrópskt samstarf á sviði menntunar. Rannís hefur umsjón með nokkrum þeirra!
EPALE er vefsvæði þar sem fagfólk í fullorðinsfræðslu getur bloggað, deilt fréttum og auglýsingum um viðburði og sótt efni í gagnabanka.
EPALE vefgáttin veitir aðgang að lokuðum, gagnvirkum vefsvæðum þar sem hægt er að láta álit sitt í ljós, taka þátt í umræðum og eiga frumkvæði að umræðu um ýmis viðfangsefni.
Evrópsku einingakerfi fyrir starfsmenntun (ECVET - European Credit System for Vocational Education and Training) er ætlað að auðvelda nemendum í starfsmenntun að fá metið það nám sem þeir hafa lokið í öðrum skólum, sérstaklega ef þeir hafa stundað nám utan heimalands síns. Þetta kerfi, sem notað er í flestum löndum Evrópu, einfaldar leiðina til að nýta sér styrki til starfsþjálfunar og menntunar sem veittir eru af Erasmus+ áætluninni. Skólar í mörgum Evrópulöndum vinna saman að slíkum nemendaskiptum og hafa þau farið vaxandi á undanförnum árum.
Europass er safnheiti yfir staðlaða menntunar- og starfshæfnimöppu. Meginmarkmiðið er að auðvelda gegnsæi menntunar og starfsreynslu, bæði heima og að heiman. Europass er einnig ætlað að auðvelda samhæfingu prófskírteina og viðurkenninga. Skjölin eru fimm: Europass ferilskrá, Europass tungumálapassi, Europass starfsmenntavegabréf, mat og viðurkenning á starfsmenntun og viðauki með prófskírteini. Í skjalamöppunni Europass færnipassi er hægt að vista öll þessi skjöl ásamt viðeigandi fylgiskjölum.
Evrópumiðstöð náms- og starfsráðgjafar hefur þann megintilgang að miðla evrópskri vídd í náms og starfsráðgjöf og undirstrika mikilvægi hennar. Í þessi samhengi er litið á náms- og starfsráðgjöf sem tæki til að auka möguleika fólks til að læra og vinna innan allra landa Evrópu og að fá hvarvetna metna reynslu sína og hæfni. Sambærilegar Evrópumiðstöðvarnar eru starfræktar í öllum ríkjum evrópska efnahagssvæðisins og mynda samstarfsnetið Euroguidance sem heldur úti upplýsingavef þar sem finna má t.d. yfirlit yfir náms- og starfsráðgjöf í flestum löndum Evrópu og rafrænt fréttabréf um nýjungar á sviði náms- og starfsráðgjafar.
ReferNet er samstarfsnet sem hefur það markmið að auka upplýsingasöfnun og miðlun upplýsinga um starfsmenntun í Evrópu. Öll lönd Evrópska efnahagssvæðisins taka þátt í þessu samstarfi og hafa tengiliðir í hverju landi það hlutverk að afla upplýsinga um nýjungar í samstarfsmenntun í sínu land og að koma þeim til Cedefop, miðstöð Evrópusambandsins um þróun starfsmenntunar. Stofnunin skrifar síðan heildarskýrslur um stöðu starfsmenntunar innan Evrópu og stefnumótun sem tengist starfmenntun á beinan eða óbeinan hátt. Skýrslur hvers lands eru einnig birtar á vef stofnunarinnar og á þessum vef eru allar íslensku skýrslurnar.