Erasmus+ aðild

Erasmus+ aðild er hugsuð sem einfaldari leið að styrkjamöguleikum á sviði náms og þjálfunar. Hún á við um æskulýðsstarf, leik-, grunn- og framhaldsskóla, starfsmenntun og fullorðinsfræðslu. 

Með Erasmus+ aðild (e. accreditation) er staðfest að stofnun eða samtök hafi þróað vandaða áætlun um fjölþjóðlegt samstarf og ferðir til náms og þjálfunar (e. mobility). Einnig hefur stofnunin eða samtökin sýnt fram á að þessi áætlun sé hluti af framtíðarstefnu og reglulegri starfsemi og að þátttakan muni hafa áhrif á vettvanginn sem um ræðir.

Hægt er að sækja um aðild fyrir sína stofnun/samtök eða fyrir hönd samstarfsnets (e. consortium, á ekki við um æskulýðsstarf). Ekki er nauðsynlegt að hafa reynslu af Erasmus+ verkefnum til að geta sótt um.

Aðildin gildir fyrir núverandi tímabil Erasmus+ áætlunarinnar (2021-2027) og á því tímabili geta umsækjendur með aðild sótt um náms- og þjálfunarverkefni (KA1) með mun einfaldari hætti en aðrir. Þannig er aðgengið að fjármagni fyrir nám og þjálfun erlendis aukið til muna fyrir stofnanir og samtök með skýra sýn og verkferla í alþjóðamálum.

Landskrifstofa skilgreinir árlega ákveðið hlutfall af fjármagni fyrir náms- og þjálfunarverkefni sem rennur til þeirra umsækjanda sem hafa hlotið aðild. Miðað er við að eftirfarandi hlutfall í hverjum undirflokki sé úthlutað til umsækjenda með aðild:

  • 90% fjármagns fyrir KA1 í skólahluta

  • 80% fjármagns fyrir KA1 í starfsmenntahluta

  • 60% fjármagns fyrir KA1 í fullorðinsfræðslu

  • 20% fjármagns fyrir KA1 í æskulýðshluta

Upplýsingar um umsóknarfresti ársins má finna hér og umsóknir er hægt að nálgast á Erasmus+ torginu.

Nánari upplýsingar


Hér getur þú séð kynningu um aðild í menntahluta Erasmus+








Þetta vefsvæði byggir á Eplica