Stóru-Vogaskóli fær viðurkenningu fyrir eTwinning verkefni ársins 2024

18.12.2024

  • Geggjadur-blar-litur

Stóru-Vogaskóli hefur skarað fram úr með verkefninu „Basta Carbo!“ sem var valið besta eTwinning verkefni ársins 2024. Verkefnið, undir stjórn Marc Portal kennara, sameinaði íslenska nemendur og kennara við skóla í Ítalíu og Frakklandi til að vinna að sjálfbærni og umhverfisvitund.

Íslenskir kennarar og nemendur hafa ítrekað sýnt fram á gildi alþjóðlegs samstarfs í menntun, og verkefnið „Basta Carbo!“ er engin undantekning. Verkefnið var valið besta eTwinning verkefni ársins 2024 og hefur vakið mikla athygli fyrir einstaka nálgun á umhverfismál og sjálfbærni. Við ræddum við Marc Portal og Hannes Birgi Hjálmarsson, kennara við Stóru-Vogaskóla, sem leiddu verkefnið og eTwinning starf skólans.

Uppruni verkefnisins

Marc Portal útskýrir að verkefnið Basta Carbo!  sé hluti af stærra verkefni skólans þar sem lagt er áherslu á umhverfismál. "Við samþættum námskrána við verkefni sem snúa að sjálfbærni og kolefnisfótspori", segir hann. Skólinn sem er Grænfánaskóli, hefur lengi lagt áherslu á að tengja saman námsefni og umhverfisvernd. Í þeim anda eru eTwinning og Erasmus+ verkefni samþætt daglegri kennslu, þar sem tvær kennslustundir í viku eru sérstaklega tilkeinkaðir alþjóðasamstarfi. IMG_0621

Námsupplifun nemenda

Nemendur frá Íslandi, Ítalíu og Frakklandi tóku þátt í verkefninu, þar sem þeir greindu umhverfisáhrif matvæla og lærðu að líta á hlutina frá nýju sjónarhorni. „Þau áttuðu sig á að þrátt fyrir að Ísland sé lítið land með stuttar vegalengdir þarf mikið að flytja inn af matvælum,“ segir Hannes Birgir. Nemendur unnu einnig með fjölskyldum sínum til að skoða neysluvenjur og greina uppruna vara, sem jók umhverfisvitund þeirra og ýtti undir umræður um sjálfbæra neyslu.

 „Fjölskyldur fóru að endurskoða neysluvenjur sínar, til dæmis með því að kaupa staðbundin matvæli,“ útskýrir Hannes Birgir Hjálmarsson, kennari við skólann, sem var virkur þátttakandi í verkefninu.

IMG_3708

Jákvæð áhrif eTwinning á kennara og nemendur

Hannes og Marc eru sammála um að þátttaka í eTwinning hafi stuðlað að faglegri þróun þeirra. „Við lærum nýjar kennsluaðferðir og kynnumst nýjum tungumálum, sem heldur okkur ferskum í starfi,“ segir Hannes. Nemendur þróa einnig mikilvæga hæfni eins og samskiptahæfileika og víðsýni sem fylgir þeim áfram í lífinu.

Viðurkenning og framtíðarsýn

Verkefnið var valið besta eTwinning verkefni ársins 2024, viðurkenning sem Marc segir að hafi verið mikil hvatning. „Þetta undirstrikar mikilvægi verkefna sem tengja saman nemendur, kennara og samfélag,“ segir hann.

Hvað framtíðina varðar, vilja kennarar Stóru-Vogaskóla halda áfram að nýta íslenska náttúru og jarðfræði í fleiri eTwinning verkefni. „Við sjáum endalausa möguleika í að tengja menningu og náttúru við alþjóðlegt samstarf,“ segir Marc.

Vilt þú taka þátt í eTwinning? 
eTwinning skapar einstakt tækifæri fyrir kennara og nemendur til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og þróa nýjar aðferðir í kennslu. Byrjaðu einfalt og finndu trausta samstarfsaðila, ráðleggja Marc og Hannes.

Skráðu þig á www.etwinning.net  til að hefja ferðalag þitt með eTwinning!








Þetta vefsvæði byggir á Eplica