Fimm íslenskir skólar hljóta viðurkenningu sem eTwinning-skólar 2025–2026

27.3.2025

Skólar í Reykjavík, Kópavogi og Vogum fá viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf í alþjóðlegu skólasamstarfi, stafrænum hæfniþáttum og þátttöku nemenda.

Fimm skólar á Íslandi hafa verið útnefndir eTwinning-skólar fyrir tímabilið 2025–2026. Viðurkenningin er veitt þeim skólum sem skara fram úr í eTwinning-verkefnum og vinna markvisst að því að efla alþjóðlegt samstarf, stafræna færni, öryggi á netinu og faglega þróun starfsfólks – með virka þátttöku nemenda að leiðarljósi.

Skólarnir sem hljóta viðurkenninguna að þessu sinni eru:

  • Stóru-Vogaskóli (Sveitarfélagið Vogar)

  • Tækniskólinn (Reykjavík)

  • Selásskóli (Reykjavík)

  • Ingunnarskóli (Reykjavík)

  • Leikskólinn Lækur (Kópavogur)

Þetta eru einu skólarnir á Íslandi sem hljóta viðurkenninguna fyrir þetta tímabil, og sýnir það vel hversu markvisst og metnaðarfullt starf á sviði eTwinning fer þar fram. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá fjölbreytta flóru skólastiga, frá leikskóla upp í framhaldsskóla.

Hvað er eTwinning School Label?

eTwinning School Label er ekki aðeins viðurkenning til einstakra kennara heldur til heilla skólasamfélaga sem hafa innleitt gildi eTwinning í daglegt starf. Slíkir skólar eru leiðandi í notkun stafrænnar tækni, alþjóðlegu samstarfi, fagmennsku og lýðræðislegri þátttöku innan skólakerfisins. Þeir gegna einnig mikilvægu hlutverki í að miðla reynslu sinni til annarra skóla og styðja við þróun á landsvísu.

Til hamingju með árangurinn!

Við óskum þessum fimm skólum innilega til hamingju með árangurinn og hlökkum til að fylgjast með þeirra áframhaldandi þátttöku í eTwinning og Erasmus+ verkefnum. Með þessari viðurkenningu eru þeir í fararbroddi þróunar í evrópsku skólasamfélagi.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica