Árleg norræn ráðstefna eTwinning sendiherra var haldin í Reykjavík dagana 5.-7. nóvember 2024, þar sem 36 kennarar frá öllum Norðurlöndunum komu saman til að ræða borgaravitund og evrópsk gildi. Ráðstefnan innihélt fjölbreytt erindi, heimsókn í eTwinning skóla og umræðufundi um framtíð eTwinning, þar sem áhersla var lögð á samspil við Erasmus+ og þróun starfs sendiherranna.
Dagana 5.-7. nóvember 2024 var árleg ráðstefna Norrænna eTwinning Norrænna sendiherra haldin í Reykjavík. Ráðstefnuna sóttu 36 kennarar frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Þema ráðstefnunnar var „Borgaravitund og evrópsk gildi“ og var lögð áhersla á hvernig eTwinning getur stuðlað að alþjóðlegu samstarfi, aukinni þátttöku og þróun í skólastarfi á Norðurlöndunum.
Dr. Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, var aðalfyrirlesari ráðstefnunnar. Hann fjallaði um mikilvægi alþjóðavitundar og borgaravitundar í menntakerfinu, og hvatti kennara til að nýta eTwinning vettvanginn til að styrkja þessar hugmyndir í kennslu.
Eftir erindi Dr. Ólafs Páls deildu fjórir fyrirlesarar sínum sjónarmiðum um þema ráðstefnunnar. Minna Thunberg sérfræðingur frá Landskrifstofu Erasmus+ í Svíþjóð kynnti hvernig hægt er að nýta eTwinning verkefni í tengslum við Erasmus+ áætlunina og þau tækifæri sem standa tilboða hjá Salto Resource Center í Tallinn. Jenni Decandia frá Finnlandi sagði frá verkefninu „Young Reporters for the Environment“, þar sem unnið er með ungmenni til að efla umhverfisvitund og borgaralega þátttöku. Jón Svanur Jóhansson, sérfræðingur hjá Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi, flutti erindi um inngildingu í Erasmus+ áætlunina og hvernig eTwinning getur stuðlað að aukinni þátttöku allra nemenda. Patricia Segura Valdes eTwinning sendiherra á Íslandi ræddi svo hvernig evrópsk gildi eru innleidd í leikskólastarfi gegnum eTwinning verkefni hér á landi.
Í framhaldi af fyrirlestrunum var farið í námsheimsókn í Selásskóla í Reykjavík, sem er einn af íslensku eTwinning skólunum. Þar fengu þátttakendur að sjá hvernig eTwinning hefur verið innleitt í skólastarfið og hvernig það stuðlar að aukinni þátttöku nemenda í alþjóðlegum verkefnum, auk þess sem að hópurinn fékk að hitta íslenska kennara og kynnast þeirra starfsumhverfi.
Lokadagurinn innihélt kynningar á góðum starfsvenjum frá sendiherrum allra Norðurlandanna. Þessar „kveikjur“ veittu þátttakendum nýjar hugmyndir og hagnýt ráð til að nýta í sínu eigin starfi, sem mun nýtast í framtíðarverkefnum eTwinning.
Þátttakendur tóku einnig þátt í World Café umræðum þar sem framtíð eTwinning var rædd út frá þremur meginþemum:
Ráðstefnunni lauk með leiðsögn og vinnustofu í sjónrænu myndlæsi í Safnahúsinu í Reykjavík. Þátttakendur lærðu aðferðir til að nota sjónræna tjáningu í kennslu um borgaravitund og evrópsk gildi.
Ráðstefnan var afar vel heppnuð og þótti styrkja bæði íslenska eTwinning samfélagið og starf sendiherranna á Norðurlöndunum, sem gegna mikilvægu hlutverki í að þróa alþjóðlegt skólastarf í sinni heimabyggð.