Stapaskóli á eTwinning verkefni mánaðarins

25.3.2025

  • Stapaskoli-6

Í mars 2025 er það litríkt og áhrifaríkt verkefni Stapaskóla sem hlýtur nafnbótina eTwinning verkefni mánaðarins. Verkefnið, sem bar heitið Ink of Unity – Celebrating our true colors, var samstarf fjögurra skóla frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi.

Landskrifstofa eTwinning er farin aftur af stað með að birta mánaðarlega frétt um eTwinning verkefni mánaðarins, þar sem við vekjum athygli á áhugaverðum, skapandi og áhrifaríkum verkefnum sem íslenskir kennarar taka þátt í. Fyrsta verkefnið sem við völdum árið 2025 er Ink of Unity – Celebrating our true colors – öflugt alþjóðlegt samstarfsverkefni þar sem sjálfsmynd, fjölbreytileiki og virðing voru í forgrunni.

Kennararnir Hólmfríður Rún Guðmundsdóttir og Selma Ruth Iqbal tóku þátt í eTwinning ráðstefnu í Finnlandi um and-rasisma vorið 2024 og sú ferð varð kveikjan að þessu verkefni sem miðaði að því að efla sjálfsþekkingu, virðingu og fjölbreytileikaskilning nemenda á aldrinum 10–16 ára. Hólmfríður og Selma sögðu okkur aðeins frá verkefninu en afraksturinn má sjá núna á sýningu sem hangir í Stapasafni, bókasafni skólans.

Fjölþætt markmið og sterk félagsleg tenging

Verkefnið byggði á þríþættu markmiði:

  1. Að skoða og vinna með raunverulega húðliti fólks sem hluta af litrófi mannkynsins – í stað þess að flokka fólk í einfalda liti tengda kynþáttum.

  2. Að brjóta niður staðalmyndir um tengsl þjóðernis og húðlitar.

  3. Að styrkja sjálfsmynd nemenda og draga fram það sem þau eiga sameiginlegt með öðrum.

Verkefnið var innblásið af listakonunni Angelicu Dass sem hefur myndað fólk um allan heim í þeim tilgangi að sýna fjölbreytni húðlita.

Frá hugmynd að framkvæmd

Stapaskoli-7

Upphaf verkefnisins má rekja, eins og áður sagði, til ráðstefnu um and-rasisma í skólum sem haldin var í Finnlandi vorið 2024. Þar þróuðu kennarar hugmyndina í sameiningu og fundu áhugasama samstarfsaðila. Verkefnið féll vel að stefnu Stapaskóla þar sem virðing og fjölbreytileiki eru í öndvegi. Einnig studdist verkefnið við hugmyndafræði Heillaspora, sem snýr að inngildingu og uppbyggingu jákvæðrar sjálfsmyndar.

Nemendur kynntu skólana sína með myndböndum á eTwinning-vettvanginum, tóku þátt í sjálfsmyndarvinnu og bjuggu til listaverk og bókaljóð sem endurspegluðu þeirra eigin sjálfsmynd. Nemendur blönduðu vatnsliti til að ná sem nákvæmustum húðlit sínum og sköpuðu myndir sem síðan voru deildar á sameiginlegum Padlet-vegg þar sem þau gáfu hvert öðru uppbyggilega endurgjöf.

Djúpar samræður og aukin meðvitund

Verkefnið skapaði dýrmæt samtöl umfjölbreytileika og sjálfsmynd, bæði meðal nemenda og kennara. Nemendur sýndu mikla einbeitingu og þrautseigju í skapandi ferlinu og fengu aukinn skilning á því að við erum öll ólík – en eigum samt margt sameiginlegt. Kennarar lýsa því hvernig samræðurnar urðu dýpri og persónulegri en hefðbundin tímaverk.

Áskoranir og niðurstöður

Stapaskoli-5

Sameiginleg skipulagning milli landa reyndist krefjandi og þurfti aðlögun að mismunandi aðstæðum.

 Með sveigjanlegum skilatímum og öðrum samskiptaleiðum tókst vel til. Þó tveir skólar drógu sig úr verkefninu vegna tímaleysis héldu hinir fjórir áfram með góðum árangri.

Útkoman verður að rafbók sem inniheldur öll listaverk og ljóð og verður birt opinberlega. Verkefnið hafði jákvæð áhrif á bæði nám, skólabrag og alþjóðlegt tengslanet Stapaskóla.

Ábending til annarra kennara:

„Bara kýlið á það!“ segja Hólmfríður og Selma. „Það er einfalt að hefja verkefni í eTwinning og þar er að finna fjölmargar hugmyndir sem auðvelt er að tengja við námskrá.“

Stapaskoli-4








Þetta vefsvæði byggir á Eplica