„Taktu stökkið!“ – Viðtal við Sigríði Halldóru Pálsdóttur, nýjan eTwinning sendiherra við Tækniskólann

18.2.2025

Sigríður Halldóra Pálsdóttir hefur kennt við Tækniskólann frá árinu 2010 og er nýr eTwinning sendiherra á Íslandi. Hún er menntaður enskukennari en hefur frá árinu 2020 starfað sem brautarstjóri K2 Tækni- og vísindaleiðar skólans. Þar kennir hún einnig frumkvöðlafræði, lokaverkefni og valáfanga um notkun gervigreindar í skólastarfi. Í viðtalinu segir hún frá reynslu sinni af eTwinning, áhrifum alþjóðlegs samstarfs á skólastarf og markmiðum sínum sem sendiherra.

Að tengja skólastarf við umheiminn

Frá upphafi starfsferils síns hefur Sigríður litið á alþjóðlegt samstarf sem dýrmætt tækifæri fyrir bæði kennara og nemendur. Í gegnum árin hefur hún myndað tengsl við kennara í ólíkum löndum og fengið innblástur til að flétta alþjóðleg verkefni inn í kennsluna.

Hún hefur séð hvernig þessi nálgun getur aukið skilning nemenda á samfélagslegum viðfangsefnum, bætt tungumálakunnáttu og hvatt til gagnrýnnar hugsunar. Hún segir að það sé ómetanlegt að sjá nemendur tengjast jafnöldrum í öðrum löndum og fá nýja sýn á eigin menningu og samfélag.

Spennandi verkefni sem vekja áhuga

Í gegnum eTwinning hefur Sigríður komið að fjölmörgum verkefnum sem hafa gert kennsluna lifandi og veitt nemendum ný tækifæri til að tengjast umheiminum.

Eitt eftirminnilegasta verkefnið sem hún tók þátt í snerist um bandarísk stjórnmál í aðdraganda forsetakosninga. Þar unnu íslenskir og norskir nemendur saman að því að bera saman stjórnmálakerfi landanna. Verkefnið vakti mikinn áhuga og jók skilning nemenda á lýðræði og virkri þátttöku þeirra í samfélaginu.

Hún hefur einnig lagt áherslu á verkefni tengd umhverfismálum og sjálfbærni, þar sem nemendur fá tækifæri til að skoða hvernig ákvarðanir þeirra geta haft áhrif til góðs. Hún telur að alþjóðleg verkefni af þessu tagi séu sérstaklega góð leið til að tengja námið við raunverulegar áskoranir samtímans.

Að vera eTwinning sendiherra

Í nýja hlutverki sínu sem eTwinning sendiherra vill Sigríður styðja kennara sem eru að stíga sín fyrstu skref í eTwinning. Hún vill veita þeim hagnýtar leiðbeiningar og deila góðum dæmum um árangursrík verkefni. Sérstaklega leggur hún áherslu á að sýna hvernig hægt er að samþætta eTwinning við námskrána án þess að bæta við vinnuálagi kennara.


Hún sér einnig mikil tækifæri til að efla umfjöllun um sjálfbærni og umhverfismál í eTwinning verkefnum og vill hvetja fleiri kennara til að nýta sér þessa leið til alþjóðlegs samstarfs í skólastarfi.

Ráð til kennara sem vilja prófa eTwinning

Að hennar mati ættu kennarar ekki að hika við að prófa sig áfram með eTwinning, því vettvangurinn býður upp á fjölbreyttar leiðir til að auðga skólastarfið með nýjum verkefnum.

„Ekki vera hrædd við að byrja – þetta er vettvangur sem gefur svo margfalt til baka, bæði fyrir kennara og nemendur"  

Sigríður leggur áherslu á að með eTwinning geta kennarar skapað lifandi og skapandi námsumhverfi sem tengir saman nemendur og kennara um alla Evrópu.

Með hlutverki sínu sem sendiherra vonast Sigríður til að hvetja fleiri kennara til þátttöku og styðja þá í að þróa árangursrík alþjóðleg samstarfsverkefni. Við hlökkum til að sjá hvernig eTwinning heldur áfram að vaxa og þróast með hennar stuðningi!

Kynntu þér eTwinning skólasamstarfið!








Þetta vefsvæði byggir á Eplica