Hlíf Magnúsdóttir frá Hamraskóla hlaut European Quality Label verðlaun eTwinning árið 2021 fyrir My Virtual Trip Around Europe
Nemendur í 5. bekk í Hamraskóla tóku þátt í verkefninu með nemendum frá Grikklandi, Ítalíu, Króatíu og Belgíu, til að nefna nokkur lönd. Verkefnið sameinar margt af því helstu sem eTwinning snýst um, þar sem nemendur víðs vegar um Evrópu tóku þátt og unnu með upplýsingatækni til að sýna fram á siði og venjur í sínu landi. Hamraskóli hefur verið virkur þátttakandi í eTwinning síðan 2016 og hlaut nafnbótina eTwinning skóli árið 2019.
Við hjá eTwinning lögðum nokkrar spurningar fyrir Hlíf.
- Um hvað er verkefnið, í meginatriðum? Með hverjum unnuð þið?
Markmið verkefnisins var að nemendur kynntust nágrönnum sínum í Evrópu og fengju innsýn í menningu landanna og hefðir daglegs lífs hjá nemendum í nokkrum löndum Evrópu s.s. Grikklandi, Ítalíu, Tyrklandi og Lettlandi. Við skiptumst á upplýsingum um jólahefðir, gerðum kynningu á landi og þjóð, kynntum skólann okkar, fórum yfir netöryggi, sungum þjóðsönginn og lög úr helgileiknum ásamt fleiru. Afurðinar urðu síðan settar í Kahoot spurningar, stuttmyndir í iMovie, Google Slide, Blockposter, Mosaically, learnig apps, paddlettur og margt fleira.
- Hvaðan kom hugmyndin að verkefninu?
Okkur langaði að gera verkefni þar sem nemendur okkar gætu verið í samskiptum við aðra evrópska nemendur á svipuðum aldri. Þar sem þeir skiptust á upplýsingum um áhugamál, hefðir og land og þjóð. Við sáum verkefnið á eTwinning síðunni, leyst vel á það og óskuðum eftir aðild.
- Hverju vonuðust þið eftir að fá út úr verkefninu?
Fjölbreyttari kennsluhætti þar sem við gætum bætt einhverju við þekkingu okkar. Einnig að nemendur okkar öðluðust meira víðsýni. Heimurinn okkar er alltaf að minnka og mun auðveldara er að hafa samskipti heimshorna á milli með netinu. Svo gefur þetta gleði og sköpun inn í skólastarfið.
- Hvernig átti samvinnan sér stað, og hvernig gekk hún?
Við vorum 3 kennarar í Hamraskóla sem tókum þátt. Hlíf Magnúsdóttir (bókasafn og upplýsingamennt), Oddný Guðrún Guðmundsóttir (umsjónakennari 5. bekkjar) og Linda Birgisdóttir (enska og myndmennt). Samvinnan milli okkar gekk mjög vel þar sem Oddný vann oft grunninn að verkefnunum í bekkjartímum, en Linda tók við og snaraði yfir á ensku. Ég sá um upplýsingamenntina, verkstýrði og kom verkefnunum á netið.
Samvinnan við erlenda samstarfsaðila í verkefninu gekk vel og því var vel stýrt.
- Hver var ávinningurinn af verkefninu? (Hvað fengu kennarar, starfsfólk eða nemendur ykkar út úr því?)
Með þessari vinnu varð skólastarfið líflegra og nemendur voru áhugasamari en oft áður. Þetta eflir sköpunarþörfina og eykur sjálfstæði og sumum fannst þeir vera að skemmta sér en ekki læra. Verkefnið gaf okkur kennurum fábært tækifæri til að kynnast kennurum frá öðrum löndum og byggja upp samband sem endist. Einnig var þetta kjörið tækifæri fyrir kennara hér innan hús sem eru einir með bekk að komast í samvinnu við aðra. Þannig þróum við okkur í starfi og eflum félagsleg samskipti.
- Hver telurðu að sé ávinningurinn af eTwinning samstarfi yfir höfuð?
Aukin víðsýni, tækifæri til að sjá vinnu ólíkra hópa og sjá hvar okkar nemendur standa miðað við jafnaldra í öðrum löndum. Aukin ánægja í nemendahópnum og tækifæri til að tjá sig á enskri tungu á annan hátt en í hefðbundu námi.
- Hefur þú eða samkennarar þínir tekið þátt í eTwinning verkefni áður?
Ég hef verið þátttakandi í eTwinning síðan 2012 og tekið þátt í fjölda verkefna, bæði stór og lítil. Bæði Linda og Oddný eru að vinna fyrsta eTwinning verkefni.
- Telur þú að þú munir taka aftur þátt í eTwinning verkefni í framtíðinni? Hvort sem það er að setja sama verkefni af stað aftur, stofna nýtt eða ganga í önnur verkefni.
Já, það er ekki spurning ég mun halda áfram að vinna með eTwinning verkefni. Ég er nú þegar skráð með 2 verkefni og er Oddný þátttakandi í öðru þeirra.
- Hvernig heyrðir þú fyrst af eTwinning?
Mig minnir að það hafi verið samkennari minn sem bent mér á þetta á sínum tíma og síðan fór ég á námskeið sem boðið var upp á.
Þökkum Hlíf kærlega fyrir þetta, og hlökkum til að sjá meira frá Hamraskóla á komandi árum.