Verkefni mánaðarins - The European Chain Reaction

2.3.2022

Keðjuverkandi verkefnið European Chain Reaction snýst um að nemendur keppa í gera myndband af keðjuverkandi röð sem nemendur framkvæma sjálfir. Kennarar og nemendur frá Selásskóla tóku þátt í þessu skemmtilega verkefni.

Þau Finnur Hrafnsson og Jónella Sigurjónsdóttir, kennarar við Selásskóla, tóku nýverið þátt í eTwinning verkefninu European Chain Reaction ásamt Rósu Harðardóttur skólastýru.

Chain-reaction

Selásskóli tók óvænt þátt í þessu keðjuverkandi verkefni í vetur, en þrettán skólar víðs vegar um Evrópu taka þátt (aðeins einn skóli frá hverju landi fær þátttökurétt). Hver skóli býr til sína myndbandskveðju og verkefninu líýkur með kosningu um bestu kveðjuna. Selásskóli hafnaði í 7. sæti í þetta sinn. Skólinn hefur verið virkur þátttakandi í eTwinning allt frá árinu 2015, en aukinn kraftur kom í starfið með komu Rósu árið 2018. Rósa er sömuleiðis eTwinning sendiherra fyrir höfuðborgarsvæðið. Þá fór Jónella Sigurjónsdóttir nýverið fyrir hönd íslenskra kennara á árlega eTwinning ráðstefnuna þar sem fjallað var um fjölmiðlalæsi og falsfréttir. Skólinn nýtir því vel þau tækifæri sem leynast í eTwinning.

- Um hvað er verkefnið, í meginatriðum? Með hverjum unnuð þið?

Verkefnið "Chain Reaction" fjallaði um keðjuverkun, bæði bókstaflega manngerða þar sem nemendur sjálfir gerðu keðjuverkun, og svo Rube Goldberg vél þar sem hugmyndaflug nemenda fékk að njóta sín. Auðvitað fólst alþjóðleg samvinna og samskipti líka í verkefninu sem var ekki síður mikilvægur eiginleiki þess.

- Hvaðan kom hugmyndin að verkefninu?

Nemendur sjálfir fengu tækifæri til þess að ákveða uppsetningu verkefnisins og komu með marga hluta þess að heiman, þar á meðal dansandi vélmenni!

Hér má sjá afraksturinn frá Selásskóla, en nemendur dönsuðu aðeins með vélmenninu: 

https://youtu.be/gETzxxc-zoI

- Hverju vonuðust þið eftir að fá út úr verkefninu?

Við vonuðumst eftir því að nemendur fengi tækifæri til að sýna og efla sköpunargáfu sína á sama tíma og samskipti við nemendur annarra landa yrði eflt og þekking þeirra á öðrum löndum og menningarheimum Evrópu myndi aukast.

- Hvernig átti samvinnan sér stað, og hvernig gekk hún?

 Samvinna nemenda innan bekksins fór fram í hópum í skólanum og gekk afar vel. Samvinna við erlenda nemendur og sérfræðinga fór fram í gegnum tölvupóst, með eTwinning live vefsíðunni og með athugasemdum inn á síðu ECR.

- Hver var ávinningurinn af verkefninu? (Hvað fengu kennarar, starfsfólk eða nemendur ykkar út úr því?)

Nemendur lærðu ýmislegt um önnur lönd Evrópu og þeirra menningu og áherslur. Einnig einbeittu nemendur okkar sér að samvinnu í þágu okkur allra og lærðu að nýta styrkleika hvers og eins nemenda í þágu heildarinnar. Kennararnir lærðu betur á eTwinning samfélagið og kynntust nýju samstarfsfólki víða að.

- Hver telurðu að sé ávinningurinn af eTwinning samstarfi yfir höfuð?

Alþjóðlegt samstarf í þágu nemenda hefur ótal marga kosti, ekki síst að efla sköpunargleði og forvitni nemenda og efla samstarfshæfni þeirra. Að tengjast nemendum og kennurum í alþjóðlegu umhverfi gefur tækifæri á frekara samstarfi og gefur starfi nemenda mikið vægi.

- Hefur þú eða samkennarar þínir tekið þátt í eTwinning verkefni áður?

Við höfum mjög takmarkaða reynslu af eTwinning en hlökkum til þess að taka þátt í fleiri verkefnum í náinni framtíð.

- Telur þú að þú munir taka aftur þátt í eTwinning verkefni í framtíðinni? Hvort sem það er að setja sama verkefni af stað aftur, stofna nýtt eða ganga í önnur verkefni.

Við erum nú þegar byrjuð að tala um næstu verkefni, enda var afar skemmtilegt og fræðandi að taka þátt í þessu verkefni.

- Hvernig heyrðir þú fyrst af eTwinning?

Við heyrðum fyrst af eTwinning frá skólastjóranum okkar, henni Rósu Harðardóttur.

- Eitthvað að lokum?

 Takk fyrir að leyfa okkur, og sérstaklega auðvitað nemendunum, að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni og við hlökkum til að taka þátt í næsta eTwinning verkefni!

Heimasíðu verkefnisins má finna hér: http://ecr2022.blogspot.com/

Svona verkefni er tilvalið eTwinning verkefni þar sem nemendur kynnast samnemendum sínum frá öðrum löndum, þurfa að hugsa upp á eigin spýtur og skólastarfið er brotið upp með skemmtilegum hætti. Þökkum kennurum Selásskóla kærlega fyrir þetta, og hlökkum til að sjá meira frá þeim á komandi árum!








Þetta vefsvæði byggir á Eplica