Hagnýtar upplýsingar fyrir náms- og starfsráðgjafa

Hér má finna ýmsar upplýsingar og efni sem gagnast getur náms- og starfsráðgjöfum sem aðstoða fólk sem vill flytjast á milli landa.


Þeir sem fara og þeir sem koma

Þeir sem fara til annarra landa til þess að mennta sig eða öðlast meiri starfsþjálfun velja sér margvíslegar leiðir enda eru ástæðurnar margar. Leiðirnar hafa áhrif á þá ráðgjöf sem þeir þurfa á að halda. Lengd dvalarinnar getur verið mismunandi sem og form þess náms sem stundað er og á meðan sumir nemar sjá algerlega um skipulag fyrirhugaðs náms sjálfir, fara aðrir í mannaskiptaverkefni þar sem búið er að skipuleggja meira og minna allt fyrir þá fyrir fram.

Þarfir þeirra sem fara héðan til náms eða starfsþjálfunar í öðru landi eru talsvert ólíkar þörfum þeirra sem hingað koma í sama tilgangi.

Þeir sem ætla að fara til útlanda í nám hafa hingað til verið sá hópur sem krefst mestrar leiðsagnar frá náms- og starfsráðgjöfum. En það getur einnig verið nemendur hafi samband meðan á dvölinni stendur og sumir þurfa aðstoð eftir að heim er komið. Einnig geta náms- og starfsráðgjafar þurft að aðstoða erlenda námsmenn hér á landi. 


Þeir sem fara

Ráðgjöf til ungs fólks sem hyggur á nám erlendis byggist nær eingöngu á ráðgjöf um val á námi, námið sjálft og praktísk atriði varðandi inngöngu í skólann. Alþjóðaskrifstofur verkmennta- og háskóla sjá yfirleitt um samskipti við erlendu aðilana og síðan eru það ábyrgðaraðilar á hverri námsbraut sem sjá um að erlent nám nemenda sé metið til eininga. Allir þessir aðilar þurfa því að eiga í góðu samstarfi. 

Náms- og starfsráðgjöf fyrir þá sem hyggjast á nám eða starf erlendis má skipta í þrennt:

  1. Ráðgjöf áður en haldið er af stað tekur til alls undirbúnings dvalarinnar og þess að gera sér grein fyrir til hvers hún á að leiða.
  2. Ráðgjöf meðan á dvöl stendur felst í að fylgjast með nemanum, hvernig honum gengur aðlögunin og námið og að búa til einhvers konar aðstoðaráætlun ef hann skyldi lenda í vanda.
  3. Ráðgjöf eftir að komið er heim felst í að farið er í gegnum það sem neminn lærði, hvort heldur er persónulega reynslu eða það sem í náminu fólst, og honum hjálpað að nýta sér það við frekara nám eða starf.

Leiðir út fyrir mismunandi hópa

  • Nám í framhaldsskóla: Nokkrir framhaldsskólar á Íslandi bjóða nemendum sínum að taka hluta af námi sínu erlendis. Skólinn sér þá oftast um að útvega þeim húsnæði, jafnvel hjá fjölskyldum sem selja þeim mat og annan viðurgjörning.
  • Háskólanám: Allir háskólarnir eru með samstarfssamninga við erlenda háskóla sem gera nemendum kleift að taka hluta af námi sínu erlendis. Vitaskuld getur svo fólk einnig farið í háskólanám í útlöndum að eigin frumkvæði. Þá er gott að beina þeim á vefinn FaraBara , sem inniheldur geysilegt magn upplýsinga um nám erlendis.
  • Starfsþjálfun erlendis: Nemar fá pláss á vinnustöðum sem geta verið hvort heldur er í einkageiranum eða á opinberum vinnustöðum. Námið er svo metið til eininga hér heima. Dvölin getur verið frá 2 vikum upp í 1 ár. Þung áhersla er innan Evrópusambandsins á að lengja dvöl starfsmenntanema erlendis og speglast hún í fjárveitingum til nemendaskipta.
  • Sjálfboðaliðastörf: Vaxandi fjöldi ungs fólks fer til útlanda sem sjálfboðaliðar. Yfirleitt er dvölin 2-6 vikur að sumri til og byggist á vinnu við fyrir fram ákveðin verkefni þar sem ungt fólk frá öðrum löndum tekur einnig þátt. Ungt fólk getur fengið styrk fyrir sjálfboðaliðastörfum í gegnum verkefni sem heitir European Solidarity Corps . Samtök og sveitarfélög geta sótt um styrki til að senda út eða taka á móti ungu fólki í 2 vikur til 2 mánuði.
  • Au pair: Ekkert gott íslenskt orð er til yfir svona dvöl sem yfirleitt felst í aðstoð við fjölskyldur (oft íslenskar) erlendis, t.d. barnagæslu og húsverkum. Oftast er dvalið erlendis í 8-12 mánuði.
  • Ungmennaskipti: Nokkur samtök bjóða ungmennum upp á vist erlendis þar sem dvölin felst í einhvers konar námi (þó oft utan hins hefðbundna skólakerfis) og jafnvel léttri vinnu.

Þeir sem koma

Hingað kemur sívaxandi fjöldi erlendra námsmanna til lengri og skemmri dvalar. Þetta á sérstaklega við um námsmenn á háskólastigi þó að eitthvað sé einnig um erlenda skiptinema í íslenskum framhaldsskólum.

Það eru einkum alþjóðaskrifstofur viðkomandi skóla sem sinna þessum nemum. Oftast felst aðstoðin í upplýsingagjöf um námið sjálft og hugsanlega einkalífið, sérstaklega ef vandi steðjar að. Þá þarf oft að bregðast skjótt við og vera búinn að undirbúa ýmis bjargráð.

Stundum leita erlendir nemendur einnig til náms- og starfsráðgjafa með ýmsar fyrirspurnir um nám eða starfsþjálfun. Vefurinn Study in Iceland getur verið góður upphafsreitur, þar eru greinargóðar upplýsingar um háskólanám á Íslandi. Best er að beina þeim sem spyrjast fyrir um störf á Íslandi á skrifstofur Evrópsku vinnumiðlunarinnar.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica