Stuðningur vegna stríðsins í Úkraínu
Erasmus+ og European Solidarity Corps (ESC) leggja allt kapp á að styðja við fólk frá Úkraínu og öðrum stríðshrjáðum svæðum á þessum erfiðu tímum. Evrópusamstarf hefur í áraraðir unnið að auknum skilningi og samstöðu þvert á landamæri og bakgrunn fólks. Þessi gildi eru mikilvægari en nokkru sinni fyrr og ber að halda á lofti. Erasmus+ og ESC samfélögin teygja anga sína vítt og breytt um samfélagið: til skóla, háskóla, ungmennafélaga, yfirvalda og svo áfram mætti telja. Víða eru þessir aðilar nú þegar farnir að leggjast út í aðgerðir til stuðnings Úkraínu og gætu nýtt sér þau tækifæri sem Evrópusambandið býður upp á.
Við á Landskrifstofunni höfum hér tekið saman svör við þeim spurningum sem upp kunna að koma meðal umsækjenda og styrkhafa í tengslum við stríðið í Úkraínu. Markmiðið er að koma á framfæri leiðum til að nýta áætlanirnar tvær sem stuðning við nemendur, ungmenni, kennara og aðra sem stríðið hefur haft áhrif á. Síðan verður uppfærð reglulega um leið og nýjar upplýsingar berast frá framkvæmdastjórn ESB.
Ég er með verkefni í gangi sem er styrkt af Erasmus+ eða ESC. Hvernig get ég hjálpað?
Í fyrsta lagi biðjum við þig að láta okkur vita ef þátttakendur frá Úkraínu eru staddir á Íslandi á vegum verkefnisins og kanna möguleikana á því að framlengja dvöl þeirra hér á landi. Einnig hvetjum við þig til að hafa samband ef þátttakendur á vegum verkefnisins eru staddir á svæðum í nágrenni við Úkraínu þar sem öryggi er ógnað. Við munum leita allra leiða til að koma til móts við aukalegan kostnað sem hlýst af heimkomu ef við á.
Í öðru lagi bendum við á að Erasmus+ og ESC verkefni eru sveigjanleg í eðli sínu og það getur vel verið að verkefnið þitt geti lagt sitt af mörkum. Ef þú ert með verkefni í gangi og átt eftir að hrinda einhverjum ferðum eða viðburðum í framkvæmd gætirðu kannað hvaða svigrúm þú hefur til að breyta þeim eða móta á þann hátt sem styður betur við fólk í stríði og á flótta. Breytingin þarf þó alltaf að samræmast upphaflegum markmiðum verkefnisins og reglum áætlananna. Ef breytingin hefur mikil áhrif á verkefnið og umfang þess gæti þurft samningsbreytingu, en hún getur þó ekki leitt til hækkunar á heildarstyrk. Hafðu samband við okkur til að fá nánari leiðbeiningar. Við vekjum sérstaka athygli á tækifærum í menntahluta til að bjóða sérfræðingum að utan til að koma hingað til lands og styðja við móttöku flóttafólks. Evrópusambandið er að vinna í að koma upp vettvangi þar sem stofnanir og landskrifstofur geta fengið upplýsingar um sérfræðinga á þessu sviði og við deilum með ykkur nánari upplýsingum þegar þær berast.
Ég ætla að sækja um styrk fyrir Erasmus+ eða ESC á þessu ári. Hvernig get ég hjálpað?
Við hvetjum til umsókna sem beina sjónum sínum að stríðshrjáðum svæðum og afleiðingum átaka á borð við þau sem við sjáum nú í Úkraínu. Þær geta falið í sér þætti sem tengjast móttöku og aðlögun flóttafólks, baráttunni gegn falsfréttum og stuðningi við samevrópsk gildi. Slík efnistök falla afar vel að markmiðum Erasmus+ og ESC, svo sem inngildingu og fjölbreytileika, samstöðu og virkri samfélagslegri þátttöku.
Eru áætlanirnar að gera eitthvað fleira til að leggja hönd á plóg?
Já, það er verið að leita allra leiða til að nýta Erasmus+ og ESC í þágu fólks sem stríðið hefur áhrif á. Hér eru talin upp atriði sem okkur á Landskrifstofu hefur verið gert kunnugt um og við bætum við hann jafnóðum:
- Í háskólahluta Erasmus+ hefur verið opnað fyrir þátttöku fólks frá Úkraínu í hefðbundum tækifærum til náms- og þjálfunar, svo sem skiptinámi, starfsþjálfun og starfsmannaskiptum. Þetta þýðir að nemandi sem var skráður í háskólanám þegar hann flúði landið vegna innrásar Rússlands getur tekið þátt í skiptinámi eða starfsþjálfun við íslenskan háskóla – eða hvers konar stofnun í tilfelli starfsþjálfunar. Brautskráður nemandi getur einnig tekið þátt í starfsþjálfun ef brautskráningin átti sér stað innan 12 mánaða áður en hann flúði landið vegna innrásarinnar. Fólk sem var starfandi við úkraínska háskóla þegar það flúði vegna innrásarinnar getur einnig tekið þátt í kennara- og starfsmannaskiptum við íslenska háskóla. Samkvæmt úkraínskum lögum þarf samstarfssamningur að vera til staðar svo hægt sé að meta nám og þjálfun þátttakenda við heimkomu, sjá nánar hér. Háskólar eru hvattir til að einfalda umsóknarferlið eins og mögulegt er og hafa allar upplýsingar aðgengilegar. Styrkfé fólks frá Úkraínu er greitt af KA131-verkefnum íslensku háskólanna og miðast upphæðir við verkefni alþjóðavíddarinnar (KA171). Nemendur fá einnig viðbótarstyrk vegna færri tækifæra.
- Á sambærilegan hátt hefur verið opnað fyrir þátttöku fólks frá Úkraínu í skólahluta, starfsmenntun og fullorðinsfræðslu Erasmus+. Fólk sem stundaði nám eða starfaði við stofnanir á þessum sviðum í Úkraínu þegar innrásin átti sér stað, eða býr yfir viðeigandi hæfni eða menntun, getur þannig tekið þátt í námi og þjálfun hjá íslenskum samtökum og stofnunum. Ekki er nauðsynlegt að fá undirritað samþykki frá sendistofnuninni í Úkraínu.
- Í æskulýðshluta Erasmus+ geta þátttakendur frá Úkraínu nú þegar tekið þátt. Þegar aðstæður krefjast geta móttökusamtökin hér á landi tekið yfir þau hlutverk sem yfirleitt falla í skaut sendisamtakanna, eins og að fara yfir gögn og kanna formkröfur. Fólk sem hefur flúið Úkraínu vegna átakanna telst til þátttakenda frá Úkraínu þótt búsetan sé tímabundið í öðru Evrópulandi.
- Í alþjóðavídd Erasmus+ á háskólastigi er hægt að nýta fjármagn til landa í Austur-Evrópu og Rússlands fyrir þátttakendur frá úkraínskum háskólum (og öðrum háskólum í Austur-Evrópu).
- Í ESC hefur verið opnað fyrir sjálfboðaliðastörf fólks frá Úkraínu án þess að það sé sent af samtökum/stofnunum þar í landi. Þátttakandi frá Úkraínu sem þegar hefur tekið þátt í sjálfboðaliðastörfum til lengri eða skemmri tíma getur bætt við sig öðru tímabili svo lengi sem heildartíminn fer ekki umfram 14 mánuði. Þegar aðstæður krefjast skulu móttökusamtökin hér á landi takayfir þau hlutverk sem yfirleitt falla í skaut sendisamtakanna, eins og að fara yfir gögn og kanna formkröfur. Fólk sem hefur flúið Úkraínu vegna átakanna telst til þátttakenda frá Úkraínu þótt búsetan sé tímabundið í öðru Evrópulandi.
- Sjálfboðaliðar á vegum ESC sem verða fyrir áhrifum af völdum stríðsins, sem og þeirra aðstandendur, geta hvenær sem er sólarhringsins nýtt sér hjálparlínu CIGNA. Þau eru beðin um að senda línu til support@resourcesforyourlife.com ef þau vilja að haft sé samband við þau símleiðis. Í neyðartilfellum er hægt að hringja í +44 20 8987 6273 og óska eftir símtali.
- Landskrifstofur hafa tækifæri til að starfa saman gegnum svokallaða TCA/NET verkefnaflokka. Íslenska landskrifstofan leggur áherslu á að nýta þau tækifæri sem þessir flokkar bjóða upp á til að taka þátt í viðburðum sem styðja við málefni tengd friði og fólki á flótta.
- Tungumálastuðningur Erasmus+ og ESC er opinn þátttakendum frá Úkraínu til að læra ensku, frönsku, þýsku, spænsku og ítölsku, þeim að kostnaðarlausu.
Hvernig
fer með þátttöku rússneskra aðila í Erasmus+ og ESC?
- Hér er greint á milli verkefna
sem snúast um ferðir einstaklinga (Erasmus+ KA1 og sjálfboðastarfa í ESC)
annars vegar og samstarfsverkefna (Erasmus+ KA2 og samfélagsverkefna í ESC)
hins vegar.
- Verkefni
sem snúast um ferðir einstaklinga geta haldið áfram óbreytt. Þetta er undantekning frá almennri nálgun
Evrópusambandsins því ávinningurinn af þátttökunni fyrir fólkið sem ferðast er
talinn óvéfengjanlegur. Landskrifstofur og styrkhafar eru beðin um að fylgjast
vel með því að einstaklingar sem beittir eru refsiaðgerðum fái ekki styrk úr
áætlunum. Hafið samband við verkefnistjóra íslensku Landskrifstofunnar til að fá lista
yfir einstaklinga sem ekki má styrkja. Styrkhafar hér á landi eru beðnir um að
sýna ítrustu varkárni þegar þátttakendur fara til Rússlands og fylgja
ferðaráðum borgaraþjónustunnar.
- Um samstarfsverkefni
(Strategic Partnerships og Partnerships for Cooperation) gilda aðrar reglur. Ef
um er að ræða lögaðila í Rússlandi sem býður upp á formlegt, óformlegt eða
formlaust nám á sviði mennta- og æskulýðsmála eða íþrótta telst hún vera undir rússneskri stjórn. Þessum aðilum er ekki heimil þátttaka í Erasmus+ og ESC. Ef rússneskur lögaðili
er nú þegar samstarfsaðili í verkefni þarf hann að draga sig úr verkefninu með
samningsbreytingu og og ekki hægt að skrá
kostnað á hann frá og með 8. apríl 2022. Eina undantekningin frá þessu er ef
rússneski lögaðilinn getur fært sönnur á að hann sé ekki í rúmlega helmingseign
rússneska ríkisins. Sé rússneski aðilinn hvorki í opinberri eigu né í rúmlega
helmingseigu ríkisins og veitir ekki nám af neinum toga, má hann halda áfram í
verkefninu.
Vert er að taka fram að átök af þessu tagi geta endurvakið vanlíðan fyrri áfalla. Fólk flýr nú ekki einungis frá Úkraínu heldur einnig Rússlandi vegna andstöðu við stjórnvöld. Einnig eru önnur átök sem eiga sér stað í heiminum og leggur Landskrifstofa áherslu á að bjóða öll velkomin.Að lokum vill Landskrifstofa minna á að þó að staðan hafi áhrif á stóran hluta Íslendinga þurfum við að huga að andlegri líðan okkar svo við getum stutt við þá sem þurfa. Við bendum þeim sem glíma við geðrænar áskoranir á borð við kvíða og streitu að fara á vefsíðu Landlæknis sem veitir góð ráð á álagstímum.
Við hvetjum þig að hafa samband ef þig vantar nánari upplýsingar um ofangreind atriði og við finnum út úr þeim saman.
Nánari upplýsingar