Erasmus+ starfsþjálfun

Leiðbeiningar fyrir fyrirtæki og stofnanir á Íslandi

Hvað er Erasmus+ starfsþjálfun?

Erasmus+ starfsþjálfun gefur nemendum í háskólum og starfsmenntaskólum tækifæri til að öðlast alþjóðlega og hagnýta starfsreynslu erlendis. Stofnanir, fyrirtæki og samtök á Íslandi geta hýst Erasmus+ starfsnema í samstarfi við íslenska háskóla og starfsmenntaskóla, en nemendur geta einnig farið á eigin vegum í starfsþjálfun. Erasmus+ starfsnemar sem koma í starfsþjálfun til Íslands eru nemar í löndum sem taka þátt í Erasmus+ áætluninni (27 aðildarríkjum Evrópusambandsins (ESB) og Liechtenstein, Norður-Makedóníu, Noregi, Serbíu og Tyrklandi)*.

Hver er ávinningurinn?

  • Fyrir starfsnema: Starfsþjálfun hjálpar nemendum að stíga inn á vinnumarkaðinn með því að þróa dýrmæta hæfni, víkka sjóndeildarhringinn og öðlast nýja þekkingu á sínu sviði.
  • Fyrir móttökustofnanir: Að taka á móti starfsnemum getur fært ferskar hugmyndir, ný sjónarmið og aðra færni inn í stofnunina. Það styrkir einnig tengsl milli menntunar og atvinnulífs.

Hversu lengi varir starfsþjálfun og hvernig er hún fjármögnuð?

  • Lengd á háskólastigi:
    • Lengri starfsþjálfun: 2–12 mánuðir.
    • Styttri blönduð starfsþjálfun (samsett af starfsþjálfun á staðnum og í gegnum netið): 5–30 dagar.
    • Styttri starfsþjálfun fyrir doktorsnema: 5-30 dagar.
  • Lengd í starfsmenntahluta (VET):
    • Styttri starfsþjálfun: 10 – 89 dagar.
    • Lengri starfsþjálfun: 90 – 365 dagar.
  • Allar tegundir starfsþjálfunar geta verið blandaðar, með þjálfun á staðnum og gegnum netið, bæði í starfsmennta- og háskólahluta. 
  • Fjármögnun og laun:
    • Starfsnemar geta fengið Erasmus+ styrk frá heimaskóla sínum til að standa straum af kostnaði á meðan á dvölinni stendur. Upphæð styrksins fer eftir heimalandi skólans og lengd starfsnámsins.
    • Móttökuaðilar geta einnig veitt laun eða önnur hlunnindi (t.d. húsnæði, fæði, vinnufatnað). Vinnuveitandi og starfsnemi þurfa að semja um þessi atriði fyrirfram.

Inngilding og aðgengi

Erasmus+ áætlunin leggur mikla áherslu á inngildingu (e. inclusion). Með inngildingu tökum við tillit til fjölbreytileikans og berum virðingu fyrir honum. Með inngildingu virkjum við allt fólk, bæði til að taka ákvarðanir og til að taka þátt í öllum þeim tækifærum sem Erasmus+ býður upp á, þar á meðal starfsþjálfun. Því er mikilvægt að þau sem taka á móti starfsnemum (og þau sem senda þá) hafi inngildingu í huga í öllu ferlinu; í umsókn, undirbúningi, framkvæmd og eftirfylgni starfsþjálfunar. Nemar geta sótt um inngildingarstyrk, ef þeir uppfylla skilyrði. Þeir geta til dæmis sótt um styrk til þess að taka með sér aðstoðarmanneskju, fyrir táknmálstúlkun og fleira. Nemandinn fær nánari upplýsingar um inngildingarstyrki hjá sínum heimaskóla og hér eru nánari upplýsingar um inngildingu í Erasmus+.

Nauðsynlegir samningar

Öll Erasmus+ starfsþjálfun byggir á starfsþjálfunarsamningi, sem er undirritaður af starfsnema, heimaskóla hans og móttökustofnuninni. Í samningnum er kveðið á um eftirfarandi:

  • Upphafs- og lokadagsetningu starfsþjálfunarinnar.
  • Skýr verkefni og þá hæfni sem starfsneminn á að þróa.
  • Eftirfylgni og stuðning á meðan á starfsnáminu stendur.
  • Fjárhagslegan stuðning og tryggingar.
  • Hver er leiðbeinandi starfsnemans innan stofnunarinnar.

Neminn fær upplýsingar og eyðublöð hjá sínum heimaskóla, en hér eru sniðmát og leiðbeiningar til upplýsingar:

 

Hagnýt atriði fyrir móttökustofnanir

Ef starfsneminn kemur í gegnum íslenskan skóla, getur skólinn veitt aðstoð við þessi atriði.

  • Húsnæði: Æskilegt er að móttökustofnanir hjálpi starfsnemum við að finna húsnæði.
  • Tryggingar
    • Móttökustofnunin þarf að tryggja starfsnemann gegn slysum á vinnutíma og hafa ábyrgðartryggingu. 
    • Starfsneminn ber ábyrgð á eigin sjúkratryggingum, en margir geta notað evrópskt sjúkratryggingakort til að fá aðgang að heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
  • Dvalarleyfi og vegabréfsáritanir:
    • Ríkisborgarar ESB/EES og Sviss: Þurfa ekki dvalarleyfi eða vegabréfsáritun fyrir dvöl undir 3–4 mánuðum. Fyrir lengri dvöl þarf að skrá sig hjá Þjóðskrá sem nemanda.
    • Ríkisborgarar utan ESB/EES: Verða að sækja um vegabréfsáritun og dvalarleyfi áður en þeir koma til landsins.
    • Nánari upplýsingar um dvalarleyfi og skráningar má finna á island.is.
  • Skattamál og ráðningarsamningar:
    • Ef starfsneminn fær greidd laun, þarf hann að fá íslenska kennitölu og skila skattframtali á Íslandi. 
    • Það er mælt með því að móttökustofnun og starfsnemi undirriti, auk námssamningsins, ráðningarsamning sem inniheldur atriði eins og vinnutíma, laun og orlof.

Hvernig finn ég starfsnema?

Vinnuveitendur geta auglýst eftir starfsnema á ErasmusIntern.org, þar sem starfsnemar óska einnig eftir starfsnámi. Einnig er hægt að kanna áhuga á samstarfi hjá íslenskum háskólum eða starfsmenntaskólum.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um Erasmus+ starfsþjálfun er að finna á hér á vefsíðu Erasmus+. Ef þú hefur einhverjar spurningar er velkomið að hafa samband við Landskrifstofu Erasmus+ (erasmusplus@rannis.is).


* Í undantekningartilfellum geta nemar komið í starfsþjálfun frá öðrum löndum en þessum, í gegnum Alþjóðavídd Erasmus+ á háskólastigi (KA171).

 

 








Þetta vefsvæði byggir á Eplica