Íslenskir háskólar í evrópskum háskólanetum

Íslenskir háskólar í evrópskum háskólanetum (e. European Universities alliances) hafa í samstarfi við Landskrifstofu Erasmus+ stofnað samstarfsvettvang með stuðningi frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Eitt af hlutverkum samstarfsvettvangsins er að koma háskólanetunum á framfæri og á þessari síðu má finna upplýsingar um þau. Einnig er samstarfsvettvanginum ætlað að fjalla um sameiginleg tækifæri og áskoranir háskóla í evrópskum háskólanetum og stuðla að virku samtali við stjórnvöld um hvernig íslenskt lagaumhverfi getur stutt við markmið háskólanetanna og tryggt þátttöku Íslands í að móta og byggja upp evrópska háskólasvæðið. Íslenskir háskólar sem eru ekki í evrópskum háskólanetum eiga áheyrnafulltrúa á fundum samstarfsvettvangsins.

Háskólanetin veita háskólum gríðarleg tækifæri til að eiga í djúpu samstarfi við aðra háskóla í Evrópu þvert á fagsvið og verða þannig alþjóðlegri og samkeppnishæfari en nokkurn tíma áður. Þannig fá háskólar stuðning við að móta nám sitt og kennslu, starfsemi og stjórnsýslu þannig að nemendurnir við skólana séu betur í stakk búin til að vera skapandi í hugsun og takast á við samfélagslegar áskoranir, stafræna þróun og sjálfbærni.

Mikilvægt verkefni evrópsku háskólanetanna er að þróa sameiginleg, alþjóðleg námskeið og námsleiðir enda ber háskólanetunum að þróa og alþjóðavæða nám og kennslu. Með sameiginlegum námskeiðum og námsleiðum, svo sem örnámi, munu háskólarnir geta eflt alþjóðlegt námsframboð í takt við áherslur háskólanetanna. Þannig má laða að erlenda nemendur, veita kennurum tækifæri til að kenna í alþjóðlegum námskeiðum og styðja við frekari framþróun náms og kennslu sem eflir samkeppnisstöðu háskólanna.

Evrópsku háskólanetin sem íslenskir háskólar eru þátttakendur í:

Aurora er net níu rannsóknaháskóla með samfélagsleg áhrif kennslu og vísinda að leiðarljósi. Markmiðið er að samþætta samfélagslega nýsköpun og sjálfbærni inn í nám, kennslu og rannsóknir á áhrifaríkan hátt og gera nemendum kleift að öðlast þekkingu og færni til að takast á við helstu samfélagslegu áskoranir samtímans. Háskólarnir í Aurora þróa sameiginleg námskeið og námsleiðir, svo sem örnám, tengd einhverjum af eftirfarandi fimm áherslusviðum: Sjálfbærni og loftslagsbreytingar; heilsa og velferð; stafrænt samfélag og alþjóðleg borgaravitund; menning: fjölbreytni og sjálfsmyndir; samfélagsleg nýsköpun og frumkvöðlafræði. Háskóli Íslands leiðir Aurora. Nánari upplýsingar og fréttir á vef HÍ.

NeurotechEU-Logo-FullName-screen-rgb-ColourOnLightNeurotechEU er net átta háskóla sem einbeitir sér að menntun og rannsóknum í taugavísindum og tækni og mun móta næstu kynslóð þverfaglegra vísindamanna og frumkvöðla sem munu takast á við ýmsar áskoranir tengdar tækni og heilsu. NeurotechEU ýtir undir tæknilega og samfélagslega nýsköpun þar sem áhersla er lögð á þverfagleika og hreyfanleika í vísindastarfi og kennslu. Nánari upplýsingar og fréttir á vef HR.  

  • UNIgreen (Landbúnaðarháskóli Íslands)

Logo-UNIgreen-textoUNIgreen er net átta landbúnaðar og lífvísindaháskóla sem er ætlað að efla samvinnu um menntun, rannsóknir, nýsköpun og miðlun þekkingar á sviði landbúnaðar, lífvísinda og líftækni. UNIgreen stefnir að því að vera leiðandi í háskólamenntun á sviði sjálfbærs landbúnaðar, grænnar líftækni og umhverfis- og lífvísinda. Ýtt er undir að nemendur og allt fræðasamfélagið þrói gildi, viðhorf, þekkingu, færni og hæfni til að verða fulltrúar fyrir umskipti í átt að loftslagshlutlausu og auðlindahagkvæmu hagkerfi.

  • OpenEU (Háskólinn á Bifröst)

LOGO_OPENEU-HORIZONTAL-POSITIVEHáskólinn á Bifröst er þátttakandi í háskólanetinu OpenEU sem bætist þann 1. desember 2024 í hóp evrópskra háskólaneta. OpenEU er fyrsti samevrópski opni háskólinn sem tíu fjarnáms háskólar taka þátt í. Netið leggur áherslu á stafræna þróun og nýsköpun í háskólanámi með það að markmiði að gera háskólana opna, aðgengilega og sveigjanlega til að mæta þörfum ólíkra einstaklinga og stuðla að ævinámi. Til viðbótar við þróun fjarnáms og örnáms leggur netið áherslu á sjálfbærni, inngildingu og evrópsk gildi. 








Þetta vefsvæði byggir á Eplica