Loftslagsbreytingar eru á allra vörum og ljóst er að við þurfum að taka stór skref til að sporna við þeim saman, og það hratt. Á sama tíma er alþjóðasamstarf í örum vexti, og áætlanir eins og Erasmus+ og European Solidarity Corps leggja áherslu á að veita betri og fleiri tækifæri fyrir Evrópubúa að fara á milli landa til að efla færni sína og byggja brýr milli þjóða og menningarheima.
Það er mikilvægt að finna leiðir til að taka þátt í alþjóðasamstarf í sátt við umhverfi og loftslag, því samvinna þjóða er lykillinn að því að árangur náist í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þess vegna höfum við tekið saman ýmsar leiðir fyrir stofnanir, samtök og einstaklinga til að gera þátttöku sína í Erasmus+ eins vistvæna og kostur er.
Ertu með græna hugmynd fyrir framkvæmd verkefna í Erasmus+? Sendu okkur póst!
Einstaklingar sem taka þátt í Erasmus+ verkefnum geta látið gott af sér leiða gagnvart umhverfinu. Ferðalög milli landa hafa óhjákvæmilega í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda, ekki síst þegar eyjur eins og Ísland eiga í hlut. Það má draga úr áhrifum ferða á loftslagið með því að kynna sér kolefnissporið sem ólíkar ferðavenjur skilja eftir. Er nauðsynlegt að taka tvö flug til að komast á áfangastað? Kannaðu möguleika á að taka lest hluta leiðarinnar. Erasmus+ veitir viðbótarstyrk og sveigjanleika til að verja lengri tíma til ferðalagsins þegar lengstur hluti ferðar getur talist vistvænn.
Meðan á dvöl erlendis stendur er ýmislegt hægt að hafa í huga, svo sem vatns- og rafmagnsnotkun og val á gististöðum sem leggja áherslu á græna starfsemi. Nú er tækifærið til að nýta sér almenningssamgöngur og tileinka sér grænan lífsstíl. Lærðir þú nýjar og vistvænar aðferðir í námi, lífi og starfi? Taktu þær með þér heim og deildu með okkur hinum!
Hvert skref í Erasmus+ verkefnum má útfæra á grænan máta. Sem dæmi má nefna verkefnisviðburði. Hægt er að takmarka vistspor þeirra til muna með því að stilla pappírsnotkun í hóf sem og framleiðslu á ýmsum varningi í tengslum við verkefnið. Er hann örugglega nytsamlegur – og ef svo er – er hann vistvænn? Standi til að bjóða upp á veitingar á viðburðum hvetjum við til þess að hugað sé að vistspori matvæla, og einnota borðbúnaður er ekki til fyrirmyndar.
Alþjóðlegir fundir sem leiða saman fólk augliti til auglitis stuðla að mikilvægum tengslum og góðri samvinnu. Sumir þessara funda geti átt sér stað með hjálp tækninnar. Umsækjendur eru hvattir til að setja sér stefnu og viðmið í loftslagsmálum, t.d. að hafa að minnsta kosti einn verkefnisfund á netinu. Fyrir fundi sem fela í sér ferðalög milli landa geta skipuleggjendur vakið athygli á grænum leiðum til að komast á áfangastað. Einnig má nýta fundi til að vekja athygli á hlýnun jarðar. Hægt er að skipuleggja skemmtilegar samverustundir til að þjappa hópnum saman – planta trjám, plokka eða fá fræðslu um loftslagsmál. Séu veitingar í boði á fundum eða viðburðum er tilvalið að fara með afganga í nálæga frískápa til að sporna gegn matarsóun.
Erasmus+ 2021-27 leggur mikla áherslu á loftslagsmál og vistvæna nálgun. Við mat á umsóknum er tekið sérstakt tillit til verkefnishugmynda sem takast á við hlýnun jarðar, efla vistvænan lífstíl og styðja fólk og stofnanir í að taka græn skref. Þetta gildir um alla verkefnaflokka.
Ein af nýjungum áætlunarinnar felur í sér að bæði er viðbótarstyrkur veittur sem og sveigjanleiki til að verja lengri tíma til ferðalagsins þegar lengstur hluti ferðar getur talist vistvænn. Með þessum hætti sýnir Erasmus+ að það að nota umhverfisvænni ferðamáta á aldrei að vera hindrun fyrir þátttöku eða gera hana kostnaðarsamari fyrir einstaklinginn.
Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi tekur þátt í langtímaverkefni um Grænni Erasmus sem leitt er af Landskrifstofu Erasmus+ í Þýskalandi. Þátttaka í þessu verkefni tryggir aðgengi íslenskra þátttakenda að ýmsum viðburðum sem tengjast sjálfbærni og grænni verkefnum í Erasmus+. Viðburðirnir eru auglýstir á síðu Erasmus+ hér og sótt er um í gegnum Salto.
Nánari upplýsingar um langtímaverkefnið Grænni Erasmus+ eru hér.
Hér er spilunarlisti fyrir kynningarmyndbönd á sex grænum verkefnum á Íslandi sem notið hafa stuðnings Erasmus+ og ESC. Smellið á ☰ merkið efst hægra megin í spilaranum til að velja myndband.