Áhrif inngildingar á þátttakendur

Til þess að inngilding hafi raunveruleg áhrif má hún ekki vera til skrauts

  • Marglit teiknimynd af hóp af fólki í ólíkum fötum, með ólíkt hár og litarhaft. Myndin sýnir fjóra standandi einstaklinga aftast, manneskju í hjólastól í miðju og þrjá einstaklinga fremst.
    Marglit teiknimynd af hóp af fólki með ólík útlit, hárgreiðslur og litarhaft. Myndin sýnir fjóra standandi einstaklinga aftast, manneskju í hjólastól í miðju og þrjá einstaklinga fremst. Á myndinni eru 8 litríkir hringir með texta: Landfræðilegar hindranir, veikindi, efnahagslegar hindranir, skerðingar, hindranir vegna mismununar, menningarmunur, félagslegar hindranir og hindranir tengda menntakerfinu.

Mikilvægt er að hugað sé að inngildingu í verkefnum Erasmus+ og European Solidarity Corps. Ekki nægir að taka fram að inngilding sé höfð að leiðarljósi, því raunveruleg inngilding næst einungis með virkri þátttöku þeirra sem hún á að efla. 

Markmið Erasmus+ og European Solidarity Corps (ESC) er að stuðla að þátttöku alls fólks með því að auðvelda aðgengi að áætlununum, óháð aðstæðum. 

Þetta er gert með sérstökum aukastyrkjum en lögð er áhersla á ákveðna forgangshópa í Erasmus+ og ESC og eiga þeir við um fólk sem vegna mismunandi aðstæðna í lífi sínu hafa ekki sömu tækifæri og aðrir, eða telja sig ekki hafa þau og sækjast síður eftir þeim. 

Hægt er að lesa nánar um inngildingu í áætlunum hér.

Hvað er inngildingarverkefni?

Hvatt er til þess að öll verkefni í Erasmus+ og ESC taki tillit til fjölbreytts hóps þátttakenda og þeirra þarfa. Þetta er gert til þess að efla þátttöku þeirra sem annars myndu síður nýta sér þau tækifæri sem Erasmus+ og ESC hafa upp á að bjóða. Verkefni sem snúa sérstaklega að einstaklingum sem búa við færri tækifæri eru verkefni sem taka tillit til þátttöku eins eða fleiri einstaklinga sem upplifir færri tækifæri á við meðborgara sína.

Í umsókninni verður að vera skýr lýsing á hvaða takmarkanir hafa áhrif á tækifæri einstaklingsins eða einstaklinganna til að taka þátt í verkefninu. Það verður einnig að vera lýsing á því hvernig valið er í verkefnið, hvernig náð er til þessa markhóps og á grundvelli hvaða skilgreininga einstaklingur hefur verið valinn í verkefnið.

Auk þess verður að koma skýrt fram hvernig verkefnið hyggst koma til móts við einstaklingana á bestan hátt miðað við aðstæður þeirra. Það gæti t.d. þýtt að manneskjan fái auka stuðning í formi leiðbeinanda eða aðstoðarmanns, tungumálastuðnings eða að framkvæmd verkefnisins er aðlöguð á einhvern annan hátt. 

Í inngildingarverkefnum er ekki nóg að sýna fram á að einstaklingar sem búa við færri tækifæri hafi tekið þátt í verkefninu, eða sé boðið að taka þátt í verkefninu, án þess að sýna fram á hvernig verkefnið stuðlar að virkri þátttöku þeirra til jafns við aðra þátttakendur.

Hvernig styður áætlunin við fólk með færri tækifæri? 

  • Fyrir stofnanir og samtök. Í Erasmus+ og European Solidarity Corps eru ólíkar leiðir til að auðvelda fólki þátttöku sem býr við færri tækifæri. Samtök og stofnanir sem skipuleggja verkefni og fá Erasmus+ styrk geta sótt um sérstaka aukastyrki eða fengið stuðning til þess að allir þátttakendur í verkefnunum geti verið með. Þetta getur t.d. verið auka styrkur fyrir flutningskostnaði hjálpartækja, styrkur fyrir túlkaþjónustu eða jafnvel styrkur fyrir útgjöldum sem efnaminni þátttakendur gætu átt erfitt með að uppfylla.
  • Fyrir einstaklinga. Einstaklingar sem taka þátt í námsdvöl erlendis á vegum Erasmus+ eða sjálfboðaliðastörfum hjá European Solidarity Corps geta sótt um aukalegan fjárhagslegan stuðning eða endurgreiðslu á kostnaði vegna heilsufarslegra (andlegra eða líkamlegra) ástæðna. Þetta getur t.d. verið aukinn kostnaður til að flytja hjálpartæki erlendis, s.s. hjólastóla, eða hafa meðferðis fylgdarmanneskju eða túlk. Raunkostnaður gæti t.d. verið í formi endurgreiðslu á kostnaði fyrir reglulega sálfræðiþjónustu eða nauðsynlega læknisþjónustu á meðan dvöl stendur. Auk þess getur verið komið til móts við efnaminni þátttakendur við útgjöld sem eru nauðsynleg til að taka þátt í verkefnum, en það er þá í hlut skipuleggjenda að sækja um aukið fjármagn fyrir þátttakendur.
  • Dæmisaga:

Hópur ungmenna frá Írlandi kom til Íslands í ungmennaskipti. Ungmennin komu úr efnaminni fjölskyldum og áttu flest ekki vegabréf. Sótt var um aukinn fjárhagsstyrk svo hægt væri að koma til móts við þátttakendur í kostnaði vegna vegabréfa, en einnig vegna útivistarfatnaðar sem þau áttu flest ekki – en ferðin til Íslands miðaði að því að þátttakendur væru mikið í útivist og ættu t.d. að hafa meðferðis fjallgönguskó. Án þessa stuðnings hefðu margir einstaklingar í hópnum líklega ekki tekið þátt.


 

Inngilding í European Solidarity Corps

European Solidarity Corps (ESC) er sjálfboðaliðaáætlun Evrópusambandsins sem gerir ungu fólki á aldrinum 18-30 ára* kleift að fara til Evrópu og gerast sjálfboðaliðar hjá vottuðum samtökum.

Verkefni í European Solidarity Corps eru yfirleitt 2-12 mánuðir, en ungt fólk sem telur sig ekki tilbúið til að fara í lengri verkefni vegna sinna aðstæðna, stendur til boða að taka þátt í styttri dvölum (allt frá 2 vikum til 2ja mánaða), með möguleikann á því að taka síðan þátt í lengra verkefni. Einstaklingar sem búa við færri tækifæri geta einnig valið að stunda sjálfboðaliðastörfin heima á Íslandi, t.d. í nágrannasveitarfélagi.

*Frá árinu 2022 getur ungt fólk allt að 35 ára tekið þátt í European Solidarity Corps áætluninni, í sérstökum sjálfboðaliðastörfum í mannúðaraðstoð.

Verkefni í bæði ESC og Erasmus+ geta sótt um aukinn styrk til að stuðla að þátttöku fólks með færri tækifæri. Fjármagninu er ætlað að standa straum af aukakostnaði fyrir þau sem þurfa sérstakan stuðning með ýmsum hætti.

Meðan á framkvæmd verkefnis í Erasmus+ og ESC stendur gefst einnig tækifæri til að sækja um raunkostnað fyrir fylgdarmanneskju handa einstaklingum sem búa við ákveðnar hindranir.

Innan Erasmus+ er einnig hægt að sækja um smærri samstarfsverkefni sem eru fyrst og fremst ætluð grasrótarsamtökum eða smærri stofnunum sem eru byrjendur í áætluninni. Smærri samstarfsverkefni eru ætluð samtökum sem hafa sérstök úrræði til að ná til fólks með færri tækifæri, t.d. vegna sérhæfingar sinnar.

Af hverju ætti fólk að sækja um inngildingarstyrki í Erasmus+ og ESC?

Þátttaka í verkefnum Erasmus+ og ESC er leið fyrir fólk til að öðlast nýja færni, læra nýtt tungumál og taka þátt í málefnavinnu sem skiptir máli. Fyrir ungt fólk getur það auk þess verið leið til að móta framtíðina og byggja upp ferilskrá. Alþjóðleg reynsla býður upp á tækifæri til að kynnast öðrum og skapa tengsl.

Að taka þátt í verkefnum ýtir undir sjálfstraust fólks og eykur færni þess. Allt þetta getur haft góð áhrif á náms- og starfstækifæri - eða starfsþróun - eftir verkefnin. Fyrir ungt fólk er þetta oft spurning um að njóta góðs af því að yfirgefa heimili sitt, prófa mismunandi starfssvið og standa á eigin fótum. Að auki gerir Erasmus+ og ESC ungu fólki kleift að uppgötva Evrópu, kynnast öðrum menningarheimum og stuðla að samstöðu, óháð efnahagsaðstæðum.

  • Ungir þátttakendur í áætlununum fá Youthpass sem er vottorð fyrir viðurkenningu á óformlegu námi.

Hvers vegna ættu samtök og sveitarfélög að sækja um verkefni í Erasmus+ og ESC?

Erasmus+ og ESC eru áætlanir sem hvetja fólk til að taka virkan þátt í lýðræðislegu samfélagi og stuðla að hreyfanleika þeirra um Evrópu. Með því að gera fólki kleift að taka þátt í tækifærum áætlunarinnar, er ekki einungis verið að efla starfsfærni þeirra að reynslunni lokinni, heldur verið að stuðla að samfélagslegri virkni þeirra. Verkefni áætlunarinnar veita samtökum einnig tækifæri til að skiptast á þekkingu við samtök erlendis, læra meira um ólíka starfsemi svipaðra stofnana og efla inngildingu.

Hvað segja rannsóknir um áhrifin af þátttöku ungs fólks í Erasmus+ og ESC?

Rannsóknarnetið RAY hefur rannsakað áhrif af þátttöku ungs fólks og verkefnisstjórum í verkefnum Erasmus+ og ESC. Í þátttökunni felst lykilfærni eins og að átta sig á ólíkum atvinnutækifærum, öðlast færni við að vinna í hópnum og að þróast sem einstaklingar. Þátttakendur bæta auka þess færni sína í að starfa með fólki sem talar önnur tungumál, að skilja fólk með annan menningarlegan bakgrunn og að takast á við áskoranir í sameiningu. Margt ungt fólk talar um að þau hafi tekið virkari þátt í samfélaginu eftir að hafa tekið þátt í verkefnum áætlunarinnar.

Gott að hafa í huga áður en sótt er um inngildingarverkefni í Erasmus+ og ESC

Það er gott að taka þátt í alþjóðlegum námskeiðum sem leggja áherslu á inngildingu og hægt er að fá styrk frá Landskrifstofu Erasmus+ til að taka þátt í þeim. Einnig er hægt að taka þátt í vefstofum og vinnustofum hér heima og erlendis til að læra meira um áætlanirnar eða lesa um tækifærin í fréttabréfinu okkar eða á vefnum.

Með því að taka þátt í inngildarverkefnum í Erasmus+ og ESC geta samtök fengið innblástur frá öðrum samtökum og stofnunum sem hafa reynslu af því að vinna með inngildingu. Auk þess geta þau veitt þátttakendum sínum tækifæri sem þau hefðu annars ekki.

Með því að komast að þörfum sinna þátttakenda er hægt að sækja sérstaklega um fjárhagslegan stuðning til að mæta þeirra þörfum. Fyrir meiri þekkingu og innblástur um inngildingu í European Solidarity Corps og Erasmus+ bendum við á handbækur áætlananna, evrópska stefnu um inngildingu og í ungmennastarfi er hægt að skoða bæklinga frá Salto. 

  • Inngilding A-Z https://www.salto-youth.net/rc/inclusion/inclusionpublications/inclusionatoz/
  • Finndu tengiliði í Evrópu sem vinna sérstaklega með inngildingu https://www.salto-youth.net/tools/otlas-partner-finding/







Þetta vefsvæði byggir á Eplica