Erasmus+ er ætlað að ná til breiðari hóps fólks en áður, meðal annars með því að nýta tölvu- og upplýsingatækni og að blanda saman tækifærum til náms og þjálfunar erlendis við rafrænt nám og samvinnu á netinu. Áhersla á stafræn málefni snýst því að miklu leyti um aðgengi og að veita fólki jöfn tækifæri til að fóta sig í stafrænum heimi.
Heimsfaraldur Covid-19 varpaði ljósi á mikilvægi stafrænna starfshátta, ekki síst á sviði náms og kennslu. Í samræmi við evrópsku aðgerðaráætlunina Digital Education Action Plan (2021-2027) hvetur Erasmus+ nemendur, kennara, ungt fólk og stofnanir til að auka notkun tölvu- og upplýsingatækni í starfsemi sinni.
Hér finnur þú alls kyns nytsamlegt efni - svo sem stafræna pakka sem þú getur innleitt auk myndbands.
Dæmi um vel heppnuð evrópsk verkefni með stafrænar áherslur
Tíu vel heppnuð samstarfsverkefni hafa verið tekin saman fyrir alla samstarfsfleti Erasmus+ og European Solidarity Corps. Þar má finna dæmi um vel heppnuð evrópsk verkefni þar sem stafrænar áherslur eru í fyrirrúmi. Slóðin er hér að neðan en þar má finna góð dæmi um stafræna notkun í samstarfsverkefnum fyrir verkmenntaskóla, háskóla, leik- og grunnskóla auk æskulýðsverkefna og fullorðinsfræðslu.
Slóð: Tíu dæmi um verkefni með stafrænar áherslur
Þar má til dæmis finna tölvuleikinn Spirit of Europe þar sem nemendur fá tækifæri að kynnast mismunandi sögutímabilum í Evrópu. Verkefnið var leitt af rúmenskum kennurum í samstarfi við Grikki, Ítali og Spánverja.
Allt um það verkefni má finna hér.
Í verkefnapakkanum má einnig finna verkefni sem tengjast tækninotkun í leikskólastarfi, kennsluefni sem nýtist heilbrigðisstarfsfólki auk nýrra leiða til að viðurkenna ungt fólk fyrir góða frammistöðu í leik og starfi.
Styrkir til stafrænnar eflingar
Stofnanir og samtök á öllum sviðum mennta- og æskulýðsmála geta sótt um styrk til að efla nemendur sína og starfsfólk sitt á þessu sviði, til að mynda með námi og þjálfun erlendis. Hér skiptir máli að auka bæði grunnfærni og færni þeirra sem lengra eru komin. Auk þess er lögð áhersla á tölvulæsi, sem er mikilvægur þáttur í lýðræðisþjóðfélaginu sem við búum í.
Gefnar hafa verið út leiðbeiningar um innleiðingu stafrænna áherslna í Erasmus+ og European Solidarity Corps áætlununum. Leiðbeiningarnar styðja umsækjendur og styrkþega í mótun stafrænna lausna og markmiða í verkefnum.
Á vefsíðu SALTO má finna alls kyns aðgengileg tól og tæki sem ætluð eru að kynna stafræna möguleika fyrir umsækjendum og styrkþegum. Þar eru til að mynda hugmyndir um hvernig má koma stafrænum vinklum að í verkefnum, en einnig er að finna leiðir til að auka stafræna færni fólks í öllum samfélagskimum. Þar má sjá hvernig hægt er að nota og finna alls kyns stafræn tól sem eru praktískt og nýst geta á margvíslegan hátt.
Vefslóð á Salto Digital Resources
Digcomp ramminn snýst um að meta stafræna færni hópa. Þar sameinast þættir eins og lausnaleit, netöryggi, skapandi miðlanotkun, netlæsi og netsamkipti. Allt um þetta má lesa hér í eins blaðsíðu verkfærapakka. Hvernig getur þú notað Digcomp ramman í verkefnunum þínum?
European Digital Education Hub - eitt svæði fyrir allt sem er stafrænt
Opnað verður sérstakt vefsvæði (European Digital Education Hub) til þess að gera samræmingu, rannsóknir og deilingu niðurstaðna úr góðum verkefnum á þessu sviði auðveldari. Markmiðið með vefnum verður að auka samstarf milli ólíkra sviða, búa til samstarfsnet um stafræna menntun innan hvers lands og skiptast á góðum reynslusögum.
Í flokki samstarfsverkefna er rík áhersla lögð á stafrænar aðferðir, enda er aukin stafræn kennsla talin skipta öllu máli við að gera nemendum kleift að stunda nám á netinu, aðlagast síbreytilegum aðstæðum og öðlast nýja hæfni.
Á þennan hátt leggur Erasmus+ sitt af mörkum við að efla mennta- og æskulýðssamfélög Evrópu þannig að tæknin leiði til aukinna tækifæra fyrir almenning.
Nánari upplýsingar: Digital Education Action Plan