Virk þátttaka

Ein helsta áskorun nútímasamfélags er dvínandi lýðræðisleg þátttaka í Evrópu. Traust, þekking og áhugi á stjórnmálum fer minnkandi og hinn stafræni heimur gerir almenningi sífellt erfiðara fyrir um að greiða úr upplýsingaóreiðu. Markmið Erasmus+ áætlunarinnar og European Solidarity Corps (ESC) er að efla almenning til þess að taka virkan þátt í lýðræðislegu samfélagi og láta í sér heyra.

Forsenda lýðræðis eru meðvitaðir og ábyrgir borgarar sem að taka virkan þátt í mótun nærsamfélags síns. Erasmus+ áætlunin hvetur til borgaravitundar og verkefna sem stuðla að þátttöku í lýðræðinu. Áætlunin leggur áherslu á að veita Evrópubúum þann stuðning sem þarf til þess að komast yfir þær hindranir sem standa í vegi fyrir virkri þátttöku. Gildi eins og samstaða, mannréttindi, og frelsi eru lögð að leiðarljósi í áætluninni og er henni ætlað að stuðla að félagslegri styrkingu, eflingu gagnrýnnar hugsunar og fjölmiðalæsis.


Áhersla á ungt fólk

Ungt fólk tekur nú í auknum mæli þátt í æskulýðshreyfingum, sjálfboðavinnu, aðgerðum og grasrótarstarfi, eins og til að mynda um loftslagsmál. Hins vegar er æskulýðssamfélagið á umbreytingaskeiði og samtök ungmennafélaga lýsa yfir áhyggjum af brotum á félaga- og málfrelsi í Evrópu.

Til þess að bregðast við þessari þróun veitir evrópska aðgerðaráætlunin Youth Participation Strategy sameiginlegan ramma og stuðning við þátttöku í Erasmus+ áætluninni til að styðja við lýðræðislega þátttöku ungs fólks. Erasmus+ og European Solidarity Corps leggja ríka áherslu á virka þátttöku ungs fólks með sérstökum verkefnum sem eru leidd af óformlegum hópum ungs fólks eða æskulýðssamtökum. Styrkt verkefni eiga að snúast um að hvetja ungt fólk til þess að hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið og vekja athygli á krafti sameiginlegra evrópskra gilda, samstöðu og fjölbreytileika. Einnig leiða þau saman ungt fólk og ráðamenn og styðja við þróun fjölmiðlalæsis ungs fólks.

Hægt er að hvetja ungt fólk til virkrar þátttöku í gegnum styrkjaflokk þátttöku ungs fólks (youth participation activities). Verkefni innan þessa styrkjaflokks geta bæði verið í samstarfi milli landa eða sem innanlandsverkefni. Þau eiga að leiða til þess að raddir ungmenna heyrist, og þá sérstaklega um stefnumótun í æskulýðsmálum. Styrkt verkefni geta til að mynda verið í formi vinnusmiðja, umræðuhópa, hlutverkaleikja, vitundarvakningar, þjálfana, viðburða eða annars konar samskipta á milli ungs fólks og ráðamanna.

Dæmi um íslensk lýðræðistengd verkefni styrkt af Erasmus+:








Þetta vefsvæði byggir á Eplica