Styrkir og tækifæri
Evrópa unga fólksins býður upp á styrki og ýmis tækifæri sem nýst geta ungu fólki til að raungera hugmyndir sína.
Styrkir fyrir viðburði
Á Evrópuári unga fólksins er sjónum beint að valdeflingu og virkri þátttöku yngri kynslóðarinnar í samfélaginu. Nú er hægt að sækja um styrki til Landskrifstofunnar til að skipuleggja viðburði, ráðstefnur eða aðrar samkomur sem leiða saman ungt fólk og fjalla um þá málaflokka sem skipta það máli. Umsóknarfrestur er 15. júní 2022.
Hvaða tækifæri eru í boði?
Hér eru upplýsingar sem gætu nýst við að finna rétta tækifærið fyrir þig!
UPPLÝSINGASTOFA UM NÁM ERLENDIS
Alhliða upplýsingaveita um nám erlendis. Á vef upplýsingaveitunnar Farabara er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar t.d. um hvað þarf að hafa í huga fyrir brottför, varðandi umsóknarferli og tungumálapróf. Á vefnum má einnig finna nokkuð góðan lista yfir styrki í boði fyrir nemendur. Hægt er að hafa samband með spurningar og Upplýsingastofan beinir fólki í rétta átt að finna svör, því að kostnaðarlausu.
Ókeypis vefur til að gera ferilskrá og kynningarbréf. Mjög meðfærilegt og flott útlit. Notendur búa til prófíl og setja inn upplýsingar um starfsreynslu, nám og aðra færni. Vefurinn býr svo til ferilskrá út frá upplýsingum sem valdar eru. Hægt er að hlaða ferilskránni niður á pdf formi eða deila henni með vefslóð. Sniðmátið er í boði á íslensku.
Eurodesk er evrópskt samstarfsnet sem veitir upplýsingar um nám, starfsþjálfun, sjálfboðaliðastörf, styrki og margt fleira í Evrópu og víðar. Við mælum með að skoða Eurodesk Opportunity Finder sem er leitarvél yfir fjölmörg tækifæri en einnig birtast tækifæri á Instagram. Eurodesk býður upp á fræðslu og námskeið í samstarfi við ýmsa aðila og svo er hægt að hafa samband og óska eftir upplýsingum um þau ólíku tækifæri sem koma fram í þessum bæklingi.
Erasmus+ skiptinám er í boði á háskólastigi og eru einungis greidd skólagjöld í heimaskólann á Íslandi. Erasmus+ felur í sér ferða- og uppihaldsstyrk en einnig er í boði að sækja um aukastyrk vegna fötlunar eða heilsufars, og fyrir fólk með börn á framfæri, Skiptinámsdvöl getur verið 3-12 mánuðir en nýlega hefur einnig verið boðið upp á styttri dvalir.
SJÁLFBOÐALIÐASTÖRF OG SAMFÉLAGSVERKEFNI
European Solidarity Corps er sjálfboðaliðaáætlun Evrópu. Með henni getur ungt fólk á aldrinum 18-30 gerst sjálfboðaliði í Evrópu í 2-12 mánuði hjá vottuðum samtökum.
Samfélagsverkefni eru styrkt frumkvæðisverkefni ungs fólks sem hafa það að markmiði að bæta samfélagið. Þetta eru fjölbreytt verkefni sem tengjast meðal annars því að aðstoða fólk við að aðlagast samfélaginu, auka lýðræðislega þátttöku, efla umhverfis- og náttúruvernd og fleira.
Í þessum styrkjaflokki er hægt að skipuleggja verkefni þar sem hópar ungs fólks frá tveimur eða fleiri Evrópulöndum hittast. Ungt fólk kynnist lífi og menningu jafningja þeirra í öðrum löndum Evrópu í verkefnum sem byggja á hugmyndafræðinni um óformlegt nám: Skipulagt nám sem er ekki endilega bók- né verknám heldur reynsla.
Geta verið bæði innanlands- eða fjölþjóðleg verkefni. Aðgerðir eða viðburðir þar sem fókusinn er á raddir ungs fólks og virka þátttöku í málefnum sem skipta þau máli - ekkert um okkur án okkar. Hópar ungs fólks, 4 eða fleiri á aldrinum 13-30 ára (líka samtök, sveitarfélög, stofnanir) Í þessum styrkjaflokki er hægt að skipuleggja aðgerðir eða viðburði sem hvetja ungt fólk til virkni og þátttöku í samfélaginu, t.d. með vitundarvakningu, þátttöku ungmenna í umræðuhópum eða samtal við ráðamenn sem taka ákvarðanir um málefni ungs fólks.
STÚDENTASKIPTI Í HÁSKÓLA Á VEGUM NORDPLUS
Háskólanemum stendur til boða að fara í skiptinám eða starfsþjálfun til Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna á vegum Nordplus. Bæði er hægt að fara í lengri og styttri dvalir, sem geta verið allt niður í fimm daga. Alþjóðaskrifstofur háskólanna veita upplýsingar og taka á móti umsóknum.
Nemendur í starfstengdu námi eða í listnámi á framhaldsskólastigi geta farið til Evrópu á Erasmus+ styrk í starfsnám. Áður en farið er út þarf að klára 1 ár af náminu heima. Gerður er skiptisamningur við skóla erlendis eða vinnustað sem tekur á móti nemandanum.
CREATIVE EUROPE - Kvikmynda- og menningaráætlun ESB
Creative Europe styrkir skapandi greinar með áherslu á menningarlega fjölbreytni og viðbrögð við þeim áskorunum sem menning og listir standa frammi fyrir. Sérstök áhersla verður lögð á stafrænar og grænar lausnir.