OID númer er einkenniskóði sem lögaðilar og óformlegir hópar þurfa að hafa til að geta sótt um í Erasmus+ og European Solidarity Corps. Allir umsækjendur þurfa OID númer, samstarfsaðilar í öllum samstarfsverkefnum og samstarfsaðilar sumum umsóknum í nám og þjálfun.
Áður en sótt er um styrk í Erasmus+ eða European Solidarity Corps þarf að sækja OID númer fyrir lögaðilann, hafi það ekki þegar verið gert. Hægt er að sækja OID númer á Erasmus+ og ESC torginu en til að skrá sig þar inn þarf EU Login aðgang. Hver lögaðili ætti aðeins að hafa eitt OID númer. Með því að sækja OID númer verður viðkomandi tengiliður vegna þess og getur þurft að uppfæra upplýsingar á komandi árum auk þess að skila inn fylgigögnum. Það getur því verið gott að viðkomandi starfi miðlægt hjá lögaðilanum og hafi yfirsýn yfir þátttöku í alþjóðlegum verkefnum. Athugið að hægt er að búa til EU Login aðgang á netfang sem ekki er skráð á einstakling heldur t.d. á almennt netfang eins og skoli@skoli.is. Eins er hægt að veita öðrum einstaklingum aðgang að OID skráningunni.
Þú getur flett upp hvort þinn lögaðili sé með skráð OID númer. Eins getur þú leitað eftir OID númerum samstarfsaðila.
Skráðu þig inn á Organisation registration á Erasmus+ og ESC torginu með EU Login aðganginum þínum. Kannaðu hvort OID númer sé þegar til staðar fyrir þinn lögaðila, sé það ekki til færð þú upp möguleika á að sækja nýtt OID númer. Útbúnar hafa verið tæknilegar leiðbeiningar fyrir skráningarkerfið á ensku en einnig hafa verið teknar saman stuttar leiðbeiningar á íslensku í viðhenginu hér fyrir neðan. Athugið að leiðbeiningarnar miðast við lögaðila (s.s. fyrirtæki, stofnanir, samtök) en ekki óformlega hópa sem geta sótt um í ungmennaskipti og þátttökuverkefni í æskulýðsstarfi. Óformlegir hópar sækja OID númer eins og um einstakling sé að ræða. Þurfir þú aðstoð eða leiðbeiningar til að sækja OID númer fyrir óformlegan hóp hafðu þá samband við landskrifstofu.
· Leiðbeiningar á íslensku um OID skráningu.
Landskrifstofa þarf að staðfesta (NA certification) OID númer áður en skrifað er undir samninga um styrk, aðild eða gæðavottun. Haft er samband með nánari upplýsingar og leiðbeiningar þegar þörf er á að staðfesta OID númer.
Athugið að ekki þarf að skila öllum gögnunum sem hér eru listuð heldur bara þeim gögnum sem eiga við um ykkar lögaðila. Gögnunum í lið 1 og 2 hér fyrir neðan þarf að skila í öllum tilfellum, og þau sem fá styrk skila auk þess eyðublaðinu í lið 4.
Skólar, leikskólar og félagsmiðstöðvar sem ekki eru með kennitölu heldur starfa undir kennitölu sveitarfélags þurfa að auki að skila stuttri skriflegri staðfestingu á því að vera starfrækt undir stjórn sveitarfélagsins. Þessi staðfesting ætti að vera undirrituð og stimpluð af lögmætum fulltrúa sveitarfélagsins.
Vinsamlegast tryggið að undirskriftir séu til staðar og að réttur aðili skrifi undir. Öllum fylgigögnum þarf að hlaða inn þar sem OID númerið var sótt. Hafir þú aðgang að OID skráninguni getur þú nálgast hana undir „My organisations“ á Erasmus+ og ESC torginu.