Tilkynning til Erasmus+ styrkþega vegna WOW air

28.3.2019

Verkefnastjórar og einstaklingar sem hlotið hafa styrk úr Erasmus+ áætluninni skipuleggja sjálf sínar ferðir, hvort sem um er að ræða verkefni um nám og þjálfun eða samstarfsverkefni. 

Landskrifstofan vill hvetja þátttakendur sem eiga bókað flug með WOW air að kanna strax sína stöðu og athuga hvaða leiðir eru í boði til að ferðin geti orðið að veruleika þrátt fyrir að flugið með WOW air muni falla niður.

  • Þátttakendur eru beðnir um að gera allt sem þeir geta til að verkefnið raskist ekki og þær ferðir verði farnar sem gert er ráð fyrir í samningi. 
  • Korthafar greiðslukorta sem eiga bókað flug með WOW air eiga rétt á endurgreiðslu vegna flugferðar sem ekki verður farin. Hafið samband við viðkomandi kortafyrirtæki til að fá nánari upplýsingar.
  • Þátttakendum er bent á að kanna möguleika á að bóka flug með öðrum flugfélögum á sambærilegu verði, ef hægt er. Mögulega þarf að seinka ferðum um einhvern tíma til að halda kostnaði innan marka. 
  • Ef ekki er mögulegt að að seinka ferðum innan verkefnisins - eða ef seinkun myndi ekki verða til þess að ferðakostnaður lækki - geta þátttakendur keypt nýja miða á hærra verði og óskað eftir því að Landskrifstofa samþykki þennan viðbótarkostnað sem hluta af verkefnisstyrk. 
  • Til að Landskrifstofa geti tekið slíka beiðni til afgreiðslu er mjög mikilvægt að öllum gögnum sé haldið til haga sem sýni fram á ofangreint, þ.e. að flugmiðar hafi upphaflega verið bókaðir hjá WOW air, að ekki hafi verið unnt að fara í ferðir á ódýrara ferðatímabili og að nýi flugmiðinn hafi í för með sér viðbótarkostnað fyrir verkefnið. 
  • Verkefnisstjórar sem sjá fram á að þurfa aukinn stuðning eða sveigjanleika vegna aðstæðna WOW air eru beðnir um að hafa samband við Landskrifstofu sem fyrst. Þannig fáum við skýrari mynd af umfangi vandans og getum gefið hverjum og einum nánari upplýsingar um skrefin sem þarf að fylgja. 
  • Óafturkræfur kostnaður vegna ferða sem falla niður vegna þess að WOW air hefur hætt starfsemi og falla á Erasmus+ verkefni verður að öllu jöfnu samþykktur sem verkefniskostnaður í lokaskýrslu, jafnvel þótt ferðirnar séu ekki farnar.
  • Þátttakendum sem nú þegar eru staddir erlendis á vegum Erasmus+ er bent á vef Samgöngustofu

Verkefnisstjórar eru hvattir til að hafa samband við starfsfólk Erasmus+ á Íslandi ef spurningar vakna sem ekki fást svör við hér að ofan. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica