Opnað fyrir íslenskar umsóknir í European Solidarity Corps

11.4.2019

Íslenskir umsækjendur geta nú sótt um í European Solidarity Corps – samstarfsáætlun Evrópusambandsins sem styrkir sjálfboðaliða og samfélagsverkefni. 

Áætluninni er ætlað að skapa ný tækifæri fyrir fólk á aldrinum 18-30 ára og mæta þeim áskorunum sem ungt fólk í Evrópu stendur frammi fyrir í dag. Viðfangsefni European Solidarity Corps byggir að miklu leyti á sjálfboðaliðahluta Erasmus+ áætlunarinnar (European Voluntary Service) sem var fluttur á milli áætlana árið 2018 en jafnframt geta íslenskir aðilar sótt um s.k. samfélagsverkefni ungs fólks (Solidarity Projects).

Næsti umsóknarfrestur er 30. apríl og síðan aftur 1. október. Landskrifstofa Erasmus+ verður jafnframt landskrifstofa fyrir European Solidarity Corps og mun hún taka við og meta þær umsóknir sem berast. Ekki liggur fyrir hversu mikið fjármagn verður til ráðstöfunar 2019, en það verður takmarkað. Þá verður ekki hægt að ganga frá samningum við íslenska aðila fyrr en tekin hefur verið formleg ákvörðun í sameiginlegu EES nefndinni – en gert er ráð fyrir að það verði fyrir mitt ár 2019 þannig að það ætti ekki að hafa nein áhrif á framkvæmd verkefna.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu áætlunarinnar og í handbók fyrir umsækjendur. Jafnframt veitir starfsfólk Landskrifstofu Erasmus+ upplýsingar. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica