Verkefninu Recognition of Prior Learning in Practice lauk nú í apríl. Um er að ræða Erasmus+ verkefni sem leiddi saman stjórnvöld menntamála í ólíkum löndum auk annarra stofnanna sem vinna að raunfærnimati. Verkefnisstjórn var í höndum Universitets- och högskolerådet í Svíþjóð.
Markmið verkefnisins var að styðja við framkvæmd raunfærnimats á háskólastigi í þátttökulöndunum og brúa þannig bilið milli stefnu og aðgerða í málaflokknum, sem oft er umtalsvert. Á verkefnistímabilinu lærðu þátttakendur hver af öðrum, skipulögðu vefstofur, framkvæmdu könnun meðal háskóla og þróuðu gögn til sjálfsmats. Aðlaga þurfti flesta vinnupakka verkefnisins að breyttum aðstæðum sökum heimsfaraldursins en þrátt fyrir það var hægt að ljúka þeim öllum með góðum árangri. Gögnin má öll finna á sérstakri vefsíðu um lokaráðstefnu verkefnisins, þar sem einnig má nálgast lokaskýrslu verkefnisins og upptökur frá ráðstefnunni.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Rannís tóku þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd, ásamt fulltrúum frá Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands, þar sem tilraunaverkefni um raunfærnimat fara í gang á komandi skólaári. Það er almennt mat þeirra sem að verkefninu komu að þátttakan hafi fært raunfærnimat í íslenskum háskólum nær veruleika. Meðal annars eykur raunfærnimat tengslin milli háskóla og atvinnulífs, eykur sveigjanleika og aðgengi að háskólum og kemur í veg fyrir að sami einstaklingur sé látinn læra sama hlutinn tvisvar. Verkefnavinnan hefur auk þess stutt við þróun íslensks ramma fyrir raunfærnimat samhliða tilraunaverkefnunum í háskólunum tveimur, sem og endurskoðun Viðmiða um æðri menntun og prófgráður. Að lokum má nefna aukið tengslanet á sviði raunfærnimats sem stóran ávinning af verkefninu, en það er samdóma álit þátttakenda að það sé afar dýrmætt að geta leitað út fyrir landsteinana í reynslubanka þeirra sem eru lengra komin í viðurkenningu á færni – ekki síst fyrir lítið land eins og Ísland.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.