Evrópa þarf á hæfu fólki að halda til að bregðast við nýjum áskorunum og vera samkeppnishæf á alþjóðavettvangi. Þetta er grundvöllur viðamikillar stefnu frá Evrópusambandinu sem birt var í vikunni og er ætlað er að styðja við seiglu og aðlögunarhæfni í menntun og þjálfun í álfunni. Stefnan ber yfirskriftina Bandalag um færni, eða Union of skills.
Skólar og aðrar menntastofnanir í Evrópu standa frammi fyrir stórum verkefnum. Víða hefur grunnfærni nemenda farið hrakandi samkvæmt PISA mælingum og áhyggjur eru uppi um að skólakerfið sé ekki að búa ungt fólk nægilega vel undir næstu skref í námi og á vinnumarkaði. Skortur er á vinnuafli, einkum á sviðum þar sem starfsmenntunar er þörf, og ljóst er að þetta færnibil eykst á næstu árum ef ekki tekst að laða ungt fólk að starfsmenntun. Þá er nauðsynlegt að háskólar séu í stakk búnir að efla færni og nýsköpun hjá nemendum og að færni fullorðinna sé einnig efld með símenntun, ekki síst á stafræna sviðinu. Evrópusambandið hefur boðað til þess að ríki álfunnar taki höndum saman og myndi bandalag um færni til að takast á við þessar miklu áskoranir.
Í stefnu sinni um Bandalag um færni leggur Evrópusambandið áherslu á víðan skilning hugtaksins færni. Ekki sé aðeins verið að horfa til þarfa atvinnulífsins heldur yfir alla þá hæfni, færni og þekkingu sem hjálpar fólki að ná árangri í námi, starfi og daglegu lífi. Menntakerfi Evrópulanda gegna hér lykilhlutverki og mikilvægt að þau undirbúi fólk nægilega vel til að geta lifað góðu lífi á tímum stafrænna og grænna umbreytinga.
Stefnunni fylgja ýmsar áætlanir um aðgerðir í þágu menntunar og þjálfunar. Á döfinni eru tilraunaverkefni til að bæta árangur barna í grunnfærni og til að auka tækifæri fólks á vinnumarkaði í sí- og endurmenntun. Áform hafa verið kynnt sem eiga að styðja við flæði fólks og auðvelda mat á færni frá einu landi til annars. Einnig eru lagðar til aðgerðir sem eiga að laða að framúrskarandi nemendur, sérfræðinga og fræðafólk til álfunnar og gera þeim kleift að dvelja þar.
Bandalag um færni mun veita stofnunum, umsækjendum og styrkhöfum í Erasmus+ mikilvæga umgjörð á komandi árum, en áætlunin og forverar hennar hafa alla tíð verið tengd færnihugtakinu sterkum böndum. Í dag er Erasmus+ ætlað að efla mikilvæga eiginleika eins og stafræna færni, þekkingu á sjálfbærni, borgaravitund og fjölmenningarlega færni. Þá er Evrópska hæfniárið í fersku minni, en það var haldið hátíðlegt árið 2023, meðal annars með viðburðum á vegum íslensku landskrifstofunnar um gervigreind í fullorðinsfræðslu, faglegan og félagslegan ávinning af starfsþjálfun og raunfærnimat, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Nánari upplýsingar:
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.