Dalvíkurskóli og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hljóta Evrópuverðlaunin fyrir nýsköpun í kennslu

14.10.2021

  • Allir saman

Evrópuverðlaunin fyrir nýsköpun í kennslu, voru afhent í fyrsta sinn á Íslandi í dag við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum. 

Dalvíkurskóli og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hlutu verðlaunin að þessu sinni, en þau eru á vegum Erasmus+, mennta- og æskulýðsáætlunar ESB, og er fyrirhugað að þau verði framvegis veitt árlega í öllum 33 þátttökulöndum áætlunarinnar. Hver landskrifstofa getur veitt allt að fjórum verkefnum viðurkenningu á hverju ári, einu í hverjum eftirtalinna skólahluta; leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og starfsmenntaskóla.

Verðlaununum er ætlað að kynna og koma á framfæri nýjum og framúrskarandi kennsluháttum, bæði hér innanlands og í öðrum Evrópuríkjum, viðurkenna starf kennara og skóla sem tekið hafa þátt í evrópskum samstarfsverkefnum á undanförnum árum og bæði heiðra og fagna afrekum þeirra einstaklinga sem hafa staðið sig einstaklega vel við að innleiða nýbreytni í kennslu.

Á þessu fyrsta ári verðlaunanna hafa þær 37 landskrifstofur sem starfa innan áætlunarinnar ákveðið að veita viðurkenningu alls 104 verkefnum sem þótt hafa skarað fram úr með einhverjum hætti.

Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi hefur ákveðið að veita verðlaunin til tveggja verkefna. Í grunnskólahlutanum hlýtur Dalvíkurskóli verðlaunin fyrir verkefnið EARLY: Education Advancements through Robotics Labs for Youth og í framhaldsskólahlutanum hlýtur Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar verðlaunin fyrir verkefnið Student Voices: revitalising the school system.

Verkefni Dalvíkurskóla var samstarfsverkefni skóla og fræðslustofnana frá fimm löndum; Íslandi, Eistlandi, Finnlandi, Ítalíu og Póllandi. Markmið verkefnisins var að bæta þekkingu kennara á notkun róbóta í kennslu og þá aðallega í kóðun, stærðfræði og í öðrum vísindagreinum. Til að ná því markmiði leituðust þátttakendur við að rannsaka og greina þann tækjabúnað og kennsluefni sem þá var fyrir hendi, búa til kennslumyndbönd og setja upp sviðsmyndir í kennslu og deila síðan þekkingu sinni og uppgötvunum á vefsíðu sem er opin almenningi. Að mati Landskrifstofu er verkefni Dalvíkurskóla vel heppnað dæmi um það hvernig greina megi og miðla nýjum kennsluháttum út á við og þannig gera starf kennara og skóla enn sýnilegra, öðrum til hagsbóta.

Verkefni Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar var samstarfsverkefni grunn- og framhaldsskóla frá þremur löndum; Danmörku, Finnlandi og svo tveggja skóla frá Íslandi, Kvennaskólans í Reykjavík og Landakotsskóla og einnig tók þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða virkan þátt í verkefninu. Verkefnið miðaði að því að finna nýjar leiðir í nálgun og kennslu raungreina með því að koma á opnu samtali milli kennara og nemenda og gefa nemendum þannig rödd í eigin námi. Er hér um að ræða ferska og nýstárlega nálgun í kennsluháttum með það að markmiði að þróa nýjar náms- og kennsluaðferðir sem henta nýrri kynslóð nemenda. Að mati landskrifstofu er þetta verkefni vel heppnað dæmi um það hvernig kennarar geti tileinkað sér nýjar aðferðir og nemendur tekið virkari þátt í námi sínu og þannig tekið enn meiri ábyrgð á því.

Nánar um Evrópuverðlaunin









Þetta vefsvæði byggir á Eplica