Í lok síðasta árs úthlutaði Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi styrkjum til átta nýrra samstarfsverkefna sem sóttu um í seinni umsóknarfrest ársins auk þess að veita sjö styrki til umsókna á biðlista. Landskrifstofan bauð nýjum verkefnastjórum til fundar á Nauthóli þann 19. febrúar til að fagna góðum árangri og fara yfir helstu atriði við framkvæmd verkefna.
Um er að ræða eitt verkefni í starfsmenntahluta, fimm verkefni í fullorðinsfræðslu, þrjú verkefni í skólahluta og sex verkefni í æskulýðshluta. Alls hlutu þau um 1,6 milljón evra eða um 227 milljónir íslenskra króna. Samstarfsverkefnum er ætlað að styðja mennta- og æskulýðsvettvanginn við að auka gæði, deila aðferðum og innleiða nýjungar. Þau veita stofnunum og samtökum frábært tækifæri til að starfa þvert á landamæri og vinna með forgangsatriði Erasmus+ áætlunarinnar, inngildingu, grænar áherslur, stafræna væðingu og virka þátttöku í samfélaginu. Nánari upplýsingar um styrkt verkefni má finna á yfirlitssíðu Erasmus+ yfir styrkúthlutanir.
Í ávarpi sínu óskaði Rúna Vigdís Guðmarsdóttir, forstöðukona Landskrifstofunnar, styrkhöfum innilega til hamingju með árangurinn, enda fer samkeppnin um styrktækifærin í Erasmus+ vaxandi og auknar kröfur eru gerðar til gæða í umsóknum. Þær umsóknir sem fengu styrk að þessu sinni voru taldar ríma sérlega vel við áherslur Erasmus+ og hafa mikla möguleika á að efla mennta- og æskulýðsstarf gegnum samvinnu milli landa.
Forgangsatriðin fjögur voru tekin fyrir í öllum umsóknum en sérstaklega bar á áherslunni á stafræna væðingu og færni, til dæmis í tengslum við andlega heilsu og gegnum samtal milli kynslóða sem og útikennslu. Það er gleðiefni að sjá svo nýstárlegar leiðir til að efla þessa mikilvægu færni í nútímasamfélagi á árinu 2025, því Evrópuráðið hefur einmitt helgað árið stafrænni borgaravitund. Árinu verður fagnað með ýmsum hætti hjá Landskrifstofunni og fjallað um leiðir til að efla ábyrg, örugg og virðingarrík samskipti á netinu með stuðningi frá Erasmus+ og eTwinning.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á upphafsfundinum þann 19. febrúar af tengiliðum verkefnanna og starfsfólki Landskrifstofu. Við óskum öllum styrkhöfum góðs gengis og hlökkum til að sjá áform þeirra verða að veruleika, íslensku og evrópsku samfélagi til heilla.
Styrkhafar í starfsmenntahluta: Eva Jóhanna Óskarsdóttir, fulltrúi Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, ásamt starfsfólki Landskrifstofu: Rúnu forstöðukonu, Júlíönu verkefnisstjóra fjármála og Margréti verkefnisstjóra starfsmenntahluta
Styrkhafar í fullorðinsfræðslu: Freymar Gauti Marinósson frá Traustum Kjarna, Kamila Walijewska, Katarzyna Grzegorczyk og Tomasz Chrapek frá Circa og Anna Valdís Kro frá Ós Pressunni ásamt starfsfólki Landskrifstofu: Rúnu forstöðukonu, Júlíönu verkefnisstjóra fjármála og Jóni Svani verkefnisstjóra fullorðinsfræðslu
Styrkhafar í leik-, grunn- og framhaldsskólahluta: Elías Gunnar Þorbjörnsson frá Giljaskóla og Eva S. Káradóttir frá Grunnskólanum í Þorlákshöfn ásamt starfsfólki Landskrifstofu: Jóni Svani verkefnisstjóra skólahluta, Júlíönu verkefnisstjóra fjármála og Rúnu forstöðukonu
Styrkhafar í æskulýðshluta: Jóhann Ragnarsson fulltrúi Rafíþróttasambands Íslands, Salóme Júlíusdóttir fulltrúi Hafnar.haus, Ellen Calmon fulltrúi Píeta samtakanna, Bjarki Melsted fulltrúi Klutz Esports, ásamt starfsfólki Landskrifstofu: Rúnu forstöðukonu, Júlíönu verkefnisstjóra fjármála og Emblu verkefnisstjóra æskulýðshluta.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.