Erasmus+ og eTwinning tóku þátt í Menntabúðum

21.3.2025

  • Menntabudir_2025

Landskrifstofur Erasmus+ og eTwinning tóku þátt í Menntabúðum um stafræna tækni og sköpun þar sem þær kynntu tækifæri til alþjóðlegs samstarfs og þróunar í skólastarfi með áherslu á upplýsingatækni, sköpun og alþjóðavæðingu.

Landskrifstofur Erasmus+ og eTwinning tóku þátt í Menntabúðum fimmtudaginn 20. mars, sem fóru fram á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við Faghóp um skapandi leikskólastarf, Mixtúru – sköpunar- og upplýsingatækniver skólakerfis Reykjavíkur og Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Menntabúðir eru óformlegur og skapandi vettvangur þar sem kennarar og annað fagfólk koma saman til að miðla hugmyndum, deila reynslu og sækja innblástur hver frá öðru. Í Menntabúðunum er samtalið í forgrunni og þátttakendur hvattir til að segja frá eigin verkefnum, þó að það sé ekki skilyrði fyrir þátttöku. Að þessu sinni var áhersla lögð á stafræna tækni og sköpun í skóla- og frístundastarfi, með sérstaka áherslu á leikskólastigið.

Á bás Landskrifstofanna fengu gestir kynningu á tækifærum sem Erasmus+ og eTwinning bjóða upp á. eTwinning er vettvangur fyrir rafrænt skólasamstarf þar sem kennarar geta unnið saman að verkefnum yfir landamæri, oft með áherslu á upplýsingatækni. Þar skapast tækifæri fyrir nýbreytni í námi og kennslu með áherslu á þátttöku nemenda og alþjóðlega vídd.

Erasmus+ styður við þróun skóla í alþjóðlegu samhengi, meðal annars með styrkjum til starfsmanna- og nemendaskipta, þjálfunar, samstarfsverkefna og faglegs samstarfs. Slíkt getur haft djúpstæð áhrif á þróun skólastarfs, fagmennsku kennara og aukið alþjóðavitund nemenda.

Við þökkum kærlega fyrir frábæran viðburð og góðar samræður við áhugasama þátttakendur!









Þetta vefsvæði byggir á Eplica