Þrjú verkefni með íslenskum samstarfsaðilum hlutu nýverið veglega Erasmus+ styrki til að framkvæma tilraunir og meta árangur af stefnumótun. Verkefnin eru EMPOWER, sem miðar að aukinni þátttöku kvenna í upplýsingatækni, BRICK, sem styrkir samstarf í fullorðinsfræðslu, og On the Move, sem eflir fagmenntun með blönduðum nemendaskiptum.
Niðurstöður hafa verið birtar úr 2024 umsóknarfresti Erasmus+ stefnumótunarverkefni (e. European Policy Experimentation) þar sem 329 umsóknir bárust og 51 verkefni hlaut styrk, eða um 16%. Fimm íslenskar stofnanir áttu aðild að fjórum umsóknum og hlutu þrjár þeirra, með fjórum íslenskum þátttakendum, brautargengi hjá matsnefndinni.
Samtals renna 347.563 evrur, sem jafngildir um 52 milljónum íslenskra króna, til Íslands til að ná markmiðum verkefnanna þriggja. Árangur meðal íslenskra þátttakenda í umsóknum er verulega góður, með árangurshlutfalli upp á 80%, langt yfir meðalhlutfalli í öðrum þátttökulöndum sem er um 20%.
Fyrsta verkefnið sem hlaut styrk ber titillinn Enhancing Mentorship and Professional Opportunities for Women through Education and Role-modeling in ICT (EMPOWER) og er menntavísindasvið Háskóla Íslands þátttakandi í verkefninu. EMPOWER verkefnið miðar að því að taka á kynjamisrétti í menntun í upplýsingatækni (UT). Markmiðið er að auka áhuga og þátttöku stúlkna í upplýsingatæknigeiranum með því að innleiða tvö lykilinngrip: þjálfun í kynjafjölbreytileika fyrir kennara og fyrirmyndakynningar undir forystu farsæla kvenkyns UT-sérfræðinga.
Annað verkefnið sem hefur verið styrkt ber titillinn Building, Re-qualifying and Innovating Public-Private Partnerships through Linguistic and Communicative Skills (BRICK) og eru Mímir-símenntun og Vinnumálastofnun samstarfsaðilar í verkefninu sem heyrir undir fullorðinsfræðslu ( e. Adult Education).
Þriðja verkefnið ber titilinn Building the Capacity of VET Actors to Create and Apply Blended Mobility Schemes (On the Move) og er Geocamp Iceland þátttakandi í verkefninu sem heyrir undir starfsmenntun (e. Vocational Education and Training (VET)). Verkefnið miðar að því að efla fagmenntun með því að auðvelda skólum að framkvæma blönduð skipti (e. blended mobility) þar sem þátttakendur fá alþjóðlega þekkingu og reynslu með samblöndu af dvöl erlendis og samtarfi í gegnum netið.
Markmið Erasmus+ stefnumótunarverkefna eru að efla stefnumótun, nýsköpun og þróun og auka gæði í mennta- og æskulýðsmálum í Evrópu. Verkefnin fela oftast í sér samvinnu milli stjórnvalda og opinberra og einkarekinna aðila og gefa tækifæri til að gera tilraunir með nýjar nálganir í málaflokknum og þannig afla gagna og meta áhrif stefnumótunar áður en hún er almennt innleidd í viðkomandi landi. Styrkir sem þessir skipta miklu máli fyrir íslenskt samfélag þar sem þeir opna dyr fyrir íslenskar stofnanir til þátttöku í alþjóðlegum stefnumótunarverkefnum og þannig efla þeir bæði menntun og atvinnulíf hérlendis í takt við þarfir framtíðarinnar.
Nánari upplýsingar um Erasmus+ stefnumótunarverkefni má finna á heimasíðu Erasmus+ en sótt er um verkefnin til Framkvæmdaskrifstofu mennta- og menningarmála í Brussel.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.