Evrópa á ferð og flugi

28.11.2023

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur mótað stefnu um framtíð náms og þjálfunar erlendis: Evrópu á ferð og flugi eða „Europe on the Move“. Hún snýr að því að auka til muna fjölda þeirra nemenda sem læra eða hljóta þjálfun í öðru Evrópulandi.

Nám og þjálfun erlendis gefur fólki einstakt tækifæri til að öðlast þekkingu og færni sem nýtist því bæði persónulega og faglega auk þess að efla lýðræðislega þátttöku og félagslega inngildingu. Þetta lagði forseti Evrópusambandsins áherslu á við birtingu stefnunnar:

"Ég er staðráðin í að gera evrópskt menntasvæði að veruleika fyrir árið 2025. Við þurfum að fjarlægja hindranir að námi og tryggja aðgengi og gæði menntunar. Við þurfum að gera nemendum kleift að færa sig á milli ólíkra menntastiga í ólíkum löndum á einfaldan hátt. Og við þurfum að breyta hugarfari þannig að menntun sé ævinám sem auðgar líf okkar allra." 

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins

Á næstu sjö árum er markið sett á að fjórðungur háskólanema hafi nýtt sér námstækifæri utan landsteinanna, 15% nema í starfsmenntun og að lágmarki 20% þeirra nemenda sem mæta hindrunum í samfélaginu á einhvern hátt.

Tillagan nær til fjölbreytts hóps nemenda í háskólum, starfsmenntaskólum, grunn- og framhaldsskólum, en einnig til fullorðinsfræðslu, ungmennaskipta og kennaraskipta. Unnið verður að því að gera skiptin aðgengileg og einföld og aukin áhersla er lögð á tungumálanám, að námsárangur fáist viðurkenndur og að aðlögun að vinnumarkaði sé bætt. Þá er lögð áhersla á stafræna tækni og hvernig ferðast má á umhverfisvænan hátt.

Stefna framkvæmdastjórnarinnar byggir á víðtæku samráði sem fór fram fyrr á árinu um stefnumótun um nám og þjálfun erlendis.

Nánar um stefnuna á síðu Evrópusambandsins









Þetta vefsvæði byggir á Eplica