Evrópsk háskólanet: Ný skýrsla sýnir jákvæð áhrif á háskólanám í Evrópu

27.1.2025

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur birt nýja skýrslu sem fjallar um þann árangur sem evrópsk háskólanet hafa náð í að auka samþættingu, samkeppnishæfni og inngildingu í háskólanámi og þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir.

© European Union, 2023

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur frá 2019 styrkt svokölluð evrópsk háskólanet (e. European Universities alliances) í því skyni að efla alþjóðlegt samstarf, gæði, nýsköpun og inngildingu í háskólanámi í Evrópu. Netin eru nú 65 talsins með 570 háskólastofnunum frá 35 löndum í Evrópu, þar á meðal fjórum háskólum frá Íslandi. Hvert net hefur fengið ríflega 2 milljarða íslenskra króna úr Erasmus+. Nánari upplýsingar um íslenska háskóla í evrópskum háskólanetum má finna hér.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú birt ítarlega skýrslu um árangur og hugsanleg áhrif evrópskra háskólaneta á framtíð háskóla í Evrópu. Skýrslan byggir á framvinduskýrslum háskólanetanna um verkefni þeirra sem eru styrkt af Erasmus+ auk kannanna, akademískra rannsókna og stöðupappíra frá ráðuneytum og öðrum hagsmunaaðilum um áhrif netanna.

Niðurstöðurnar sýna að nemendur í háskólum í evrópskum háskólanetum njóta góðs af auknum sveigjanleika í námi, fjölbreyttari tækifærum til að fá alþjóðlega reynslu og þekkingu í námi sínu og þróa mikilvæga framtíðarfærni á borð við nýsköpun og frumkvöðlafærni, stafrænt læsi og fjölmenningarvitund. Þá nýtur starfsfólk háskóla góðs af tækifærum til dýpra samstarfs við erlenda háskóla, nýjum möguleikum til starfsþróunar og hreyfanleika í starfi. Evrópsku háskólanetin hafa til þessa skapað yfir 600 sameiginlegar námsleiðir og 430 örnám , sem eru styttri námsleiðir sem gera háskólum kleift að mæta betur kröfum atvinnulífs og einstaklinga um hæfniþróun og endurmenntun. Netin veita einnig háskólunum samkeppnisforskot með því að sameina sérfræðiþekkingu, innviði og aðra styrkleika.

Þá sýnir skýrslan að evrópsk háskólanet mæta enn verulegum áskorunum í samstarfi sínu. Meðal þeirra eru stjórnsýslu- og lagalegar hindranir sem gera sameiginlegt nám flókið í framkvæmd, erfiðleikar við að virkja fleira starfsfólk til þátttöku og ófullnægjandi fjárstuðningur til að ná langtímamarkmiðum. Skýrslan mun nýtast í þeirri stefnumótun sem nú stendur yfir varðandi framtíðarfjármögnun netanna af Erasmus+ og stjórnvalda í löndum Evrópu.

Nánari upplýsingar og yfirlit yfir evrópsku háskólanetin má finna á vef Erasmus+.










Þetta vefsvæði byggir á Eplica