Góður fundur með alþjóðafulltrúum í starfsmenntun

2.12.2022

Landskrifstofa og starfsmenntahópur Erasmus+ stóðu fyrir fundi með alþjóðafulltrúum sem starfa á sviði starfsmenntunar í framhaldsskólum og stofnunum þann 21. nóvember síðastliðinn. Fundurinn var vel sóttur og deildu þátttakendur þeirri skoðun að gott sé að hittast og ræða málið við aðra sem starfa á sama vettvangi.  

Starfsmenntahópur Erasmus+ er sérstakt verkefni innan áætlunarinnar sem hefur það markmið að efla alþjóðastarf í starfsmenntun og þátttöku í Erasmus+ verkefnum. Einnig er hugmyndin sú að veita stuðning við alþjóðafulltrúa á landsvísu þar sem áhersla er lögð á jafningjafræðslu og að skiptast á reynslu og þekkingu. Fulltrúar starfsmenntahópsins eru Ásdís Óskarsdóttir Vatnsdal, Ingibjörg Rögnvaldsdóttir og Helen Gray, allt reyndir verkefnisstjórar Erasmus+ verkefna. Helga Dagný Árnadóttir og Margrét Jóhannsdóttir starfa með hópnum sem fulltrúar Landskrifstofu.

Á fundinum var lögð áhersla á framkvæmd Erasmus+ náms- og þjálfunarverkefna. Helen og Ingibjörg deildu reynslu sinni og gáfu góð ráð varðandi stjórnun og framkvæmd og Helga Dagný kynnti tækifæri Erasmus+ áætlunarinnar. Helen kynnti líka Erasmus+ samstarfsverkefni sem hún stjórnar fyrir hönd IÐUNNAR fræðsluseturs og tengist beint gæðum og viðurkenningu til fyrirtækja sem taka á móti nemum í starfsþjálfun.

Ásdís kynnti rannsókn meðal nemenda sem fá styrk úr Erasmus+ fyrir starfsþjálfun í Evrópu. Rannsóknina gerði Menntavísindasvið Háskóla Íslands fyrir Rannís en hún skoðaði upplifun Erasmus+ nema í starfsþjálfun.

Niðurstöðurnar voru almennt mjög jákvæðar og sýna að Erasmus+ starfsþjálfun er frábært tækifæri fyrir nemendur og nýútskrifaða sem læra verknám í framhaldsskólum.

Rannsóknin leiddi í ljós að möguleikinn á að fara í starfsþjálfun í Evrópu og sækja um styrk á vegum Erasmus+ mætti vera betur kynntur fyrir nemum í starfsmenntun. Einnig er þar vakin athygli á mikilvægi þess að meta bæði faglega og félagslega hæfni sem ávinnst með námsdvöl erlendis.


[RVGR1]setja slóð á fréttina okkar um rannsóknina









Þetta vefsvæði byggir á Eplica