Hefur þú nýtt þér gervigreind í kennslu og þjálfun með góðum árangri? Evrópusambandið vill heyra frá þér!

5.3.2025

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stendur fyrir könnun til 28. mars til að safna saman upplýsingum um árangursríka notkun gervigreindar í menntun og þjálfun. 

Gervigreind er að umbreyta menntun og setja mark sitt á það hvernig nemendur læra, kennarar leiðbeina og stofnanir skipuleggja starfsemi sína. Gervigreind er nýtt í síauknum mæli til að auka skilvirkni og persónumiðaðri nálgun í menntun. Hins vegar er notkun gervigreindar ólík milli skóla, menntunarstiga og landa, og ljóst að víða eru stofnanir eftir á í þeirri þróun.

Til að brúa þetta bil vill framkvæmdastjórn Evrópusambandsins bera kennsl á árangursríkar aðferðir í notkun gervigreinar í menntun og þjálfun, fá yfirsýn yfir þann stuðning sem er í boði í ríkjum álfunnar og öðlast skýra innsýn í reynslu þeirra sem hafa notað gervigreind í starfi sínu með ólíkum hætti.

Ef þú býrð yfir reynslu í þessum málaflokki hvetur Landskrifstofa Erasmus+ þig eindregið til að deila þekkingu þinni og reynslu með því að svara könnun um gervigreind í námi og þjálfun fyrir 28. mars 2025.

Könnunin er nafnlaus en þau sem vilja geta deilt netfangi sínu svo að aðstandendur könnunarinnar geti haft samband við viðkomandi til að fá nánari upplýsingar.

Könnunin er hluti af vinnu Evrópusambandsins í tengslum við aðgerðaáætlun um stafræna menntun 2021-2027, þar sem leiðbeiningar um siðferðilega notkun gervigreindar og stafrænna gagna í kennslu og námi er eitt af forgangsverkefnunum.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica