Hvernig geta háskólar nýtt Erasmus+ starfsmannaskipti á markvissan hátt?

27.6.2024

Ávinningurinn fyrir einstaklinga sem taka þátt í Erasmus+ er vel þekktur og margþættur. Hins vegar hefur minna verið rætt um áhrifin sem þátttaka starfsfólks hefur á stofnanirnar sem það starfar við. Landskrifstofa Erasmus+ stóð nýverið fyrir ráðstefnu um hvernig háskólar geta nýtt ferðir starfsfólks út fyrir landsteinana til að ná markmiðum sínum og skapa umhverfi þar sem alþjóðlegt samstarf er sett í forgrunn.

Ráðstefnan bar yfirskriftina „Strategic approaches to Erasmus+ staff mobility“ og fór fram á Hotel Berjaya Reykjavik Natura dagana 20.–21. júní 2024. Hún leiddi saman stjórnendur og alþjóðafulltrúa háskóla á Íslandi og í Austurríki, Slóveníu, Tékklandi, Ungverjalandi og Króatíu auk fulltrúa frá ACA-samtökunum, Erasmus Student Network, ISEP Study Abroad og European University Association. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessar sex landskrifstofur taka höndum saman og vinna með málaflokkinn ásamt ACA, því nýlega gáfu þær út í sameiningu skýrsluna Driving Impact of Erasmus+ Outgoing Academic Staff Mobility: Current Landscape and Pathways for the Future.

Samstarfið hefur gefið íslensku landskrifstofunni og háskólum landsins tækifæri til að ræða helstu áskoranir í starfsmannaskiptum við evrópskt samstarfsfólk og deila reynslu og góðum aðferðum. Meðal annars beindu umræðurnar sjónum að því hvernig efla megi nýliðun í kennaraskiptum, hvernig þátttaka í Erasmus+ geti aukið gæði í námi og kennslu og hvernig betur megi standa að mati á þátttöku og dreifingu niðurstaðna. Samtalinu er langt því frá lokið því landskrifstofurnar munu standa fyrir vefstofum næsta vetur sem veita starfsfólki háskóla frekari þjálfun við að nýta Erasmus+ starfsmannaskipti bæði markvisst og árangursríkt.    









Þetta vefsvæði byggir á Eplica