Skref í átt að inngildandi alþjóðavæðingu á háskólastiginu (e. Moving closer to inclusive internationalization in Higher Education) var titill ráðstefnu sem fimm þátttakendur frá Íslandi tóku þátt í dagana 8.-10. nóvember 2023. Ráðstefnan var afurð samstarfs landskrifstofa undir yfirheitinu Inngilding á háskólastigi (e. Social Inclusion in Higher Education) sem hefur síðastliðin þrjú ár unnið að málefnum sem snúa að inngildingu innan Erasmus+ á háskólastigi.
Mannfræðingurinn Cassandra Ellerbe setti tóninn fyrir ráðstefnuna með stuttu erindi sem veitti þátttakendum innblástur við að taka saman höndum til að gera samfélagið okkar jafnara og meira inngildandi fyrir öll. Cassandra benti á mikilvægi sýnileika allra og undirstrikaði sérstaklega mikilvægi þess að framsetning kynningarefnis og auglýsinga háskóla og landskrifstofa endurspegli þann fjölbreytta hóp sem samfélagið okkar samanstendur af.
Í kjölfarið fóru af stað innihaldsríkar pallborðsumræður meðal sérfræðings í fjölbreytileika og þriggja aðila frá mismunandi háskólum, sem öll vinna með inngildingu á einhvern hátt. Eitt af þeim mörgu atriðum sem komu fram við pallborðsumræðurnar var hvernig allt samfélagið hagnast á því að hugað sé að fjölbreytileika og inngildingarmálum. Rafknúnu hurðirnar sem hafa verið settar víða upp fyrir fólk sem getur ekki opnað dyr voru teknar sem dæmi og bent á hvernig rafknúnu hurðirnar komu svo öllum að góðum notum á tímum Covid-19 þegar fólki var ráðlagt að taka ekki í hurðarhúna. Að tryggja inngildingu allra á öllum stigum samfélagsins er því ekki aðeins í hag markhópsins, heldur alls samfélagsins.
Í einum dagskrárlið ráðstefnunnar skiptist hópurinn upp í mismunandi vinnustofur, sem allar snerust á einn eða annan máta um inngildingu og Erasmus+ á háskólastigi. Fulltrúi íslensku Landskrifstofunnar tók þátt í að skipuleggja vinnustofuna „Að ná til markhópsins“ (e. Addressing target groups) þar sem skoðað var hvernig hægt er að auka inngildingu í samskiptum við nemendur. Þar var þátttakendum meðal annars bent á leiðarvísi í inngildandi samskiptum sem gerður var af Erasmus Student Network og fengu þátttakendurnir einnig tækifæri að ræða sína reynslu af bæði áhrifamiklum og -litlum aðferðum til að eiga í inngildandi samskiptum við nemendur.
Ráðstefnunni lauk með sýningu á heimildarmyndinni Ég slapp til framtíðar minnar (e. I escaped to my future) sem gerð var af ungu flóttafólki um reynslu ungs flóttafólks, sem og pallborðsumræðum í kjölfarið. Heimildarmyndin og pallborðsumræðurnar snertu við mörgum og tók Hrafnhildur Ylfa Magnúsardóttir, verkefnastjóri alþjóðaskrifstofu HR, fram að þessi dagskrárliður hafi staðið upp úr. Hrafnhildur fór nánar út í málið: „Frásögnin var mjög áhrifarík og gerði manni grein fyrir erfiðleikunum sem fylgja því að vera flóttamaður. Ein stelpan í myndinni, sem svo mætti í „Q&A“ eftir sýninguna sagði: „there is no place like home. But when home doesn‘t feel like home, you have no other option then go““. Rúnar Gunnarsson, forstöðumaður miðstöðvar alþjóðasamskipta HA, var einnig snortinn af heimildarmyndinni: „Þessir einstaklingar eiga sér drauma um menntun og betra líf en oft á tíðum eru hindranir í kerfinu það miklar að þau eru einfaldlega stopp í lífinu. Ég held að við á Íslandi þurfum að gera betur þegar kemur að því að styðja við og vinna með flóttafólki svo þau hafi möguleika á að sækja sér menntun“. Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi tekur undir þessu orð og þó að nemendur með stöðu flóttafólks eigi nú tækifæri á hærri styrk fyrir stúdentaskipti en áður, þá þarfnast samfélagið í allri sinni mynd heildrænni nálgun þegar kemur að inngildingu flóttafólks og hælisleitenda.
Í frásögnum frá íslensku þátttakendunum kom fram að ráðstefnan hafi verið gagnleg, lærdómsrík, vel skipulögð og hafi veitt innblástur. Hrafnhildur skrifaði meðal annars: “Þau gögn og upplýsingar sem við fengum á vinnustofunni munu vafalaust koma sér vel í starfi mínu sem verkefnastjóri á alþjóðaskrifstofu og ýta undir að vilja gera betur varðandi reglur er varðar inngildingu“. Rúnar tók fram að vinnustofurnar og matar- og kaffihléin hafi verið dýrmæt þar sem þá hafi verið hægt að fara í dýpri samtöl um efnið. Björg Stefánsdóttir, forstöðumaður alþjóðaskrifstofu LHÍ, var á sama máli um mikilvægi þess að hitta annað háskólastarfsfólk: „Sérstaklega áhugavert og mikill lærdómur að sjá hvernig aðrir háskólar á meginlandinu hafa verið að vinna í málaflokkinum síðustu 20 árin og eru komin töluvert lengra en við hérna uppi á Íslandi. Þarna voru sterkar fyrirmyndir til að skoða í okkar vinnu með inngildingu og stefnumótun og mikið af verkfærum og verkfærakistum til að leita í og notast við eins og t.d. https://inclusivemobilityframework.eu síðan sem var kynnt vel á fundinum“.
Ráðstefnan í Berlín var svokallaður TCA viðburður (Training and Cooperation Activities) og var undirbúningurinn í þessu tilfelli að mestu leyti í höndum þýsku landsskrifstofunnar. Á hverju ári gefst Landskrifstofunni kostur á að styrkja einstaklinga úr mennta- og æskulýðssamfélaginu hér á landi til að taka þátt í fjölbreyttum TCA-viðburðum víða um Evrópu sem hjálpa þeim að efla tengslanetið sitt og framkvæma Erasmus+ verkefni á árangursríkan hátt. Við þökkum okkar þátttakendum kærlega fyrir virka þátttöku á þessari ráðstefnu og við hvetjum öll þau sem vilja kynna sér TCA-tækifæri nánar að skoða upplýsingar á síðunum okkar, annars vegar fyrir æskulýðsstarf og hins vegar fyrir menntahlutann.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.