Áætlanir eins og European Solidarity Corps skapa tækifæri fyrir ungt fólk til þess að takast á við samfélagslegar áskoranir. Þann 6. apríl lagði Evrópuráðið fram tilmæli um sjálfboðastörf ungs fólks sem felur í sér að auka eigi gæði þessara starfa og gera þau meira inngildandi.
„Sjálfboðastörf verða sífellt vinsælli meðal ungs fólks sem er tilbúið að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til þess að hægt sé að gera evrópskt samfélag samheldnara og meira inngildandi. Tilmælin miða að því að auka gæði þessara starfa og fjarlægja þær hindranir sem enn eru til staðar og gera það að verkum að tækifærin til að gerast sjálfboðaliði erlendis eru ekki öllum opin. Þau munu enn frekar efla framlag ungs fólks til samstöðu á Evrópuári unga fólksins“
Mariya Gabriel, framkvæmdastjóri ESB fyrir nýsköpun, rannsóknir, menningu, menntun og æsku
Sjálfboðastörf verða oft fyrir valinu hjá ungu fólki í Evrópu á mótunarárum þess. Árið 2019 sögðust 34% ungs fólks hafa tekið þátt í skipulögðu sjálfboðastarfi á síðustu 12 mánuðum en þetta hlutfall fer stöðugt hækkandi. Rúna Vigdís Guðmarsdóttir, forstöðukona Landskrifstofu Erasmus+ og ESC á Íslandi, segir að „sjálfboðastörf eru mikilvæg stoð í okkar samfélagi og verða sífellt vinsælli meðal ungs fólks. Því fögnum við þessum tilmælum um að styrkja enn frekar sjálfboðastörf og samstöðu.“
Stuðningur við Úkraínu
Sjálfboðastörf innan European Solidarity Corps áætlunarinnar víkka sjóndeildarhring ungs fólks sem hefur orðið fyrir miklum áhrifum af faraldrinum. Einnig geta þátttakendur gefið til baka til samfélagsins með þátttöku sinni í samfélagsverkefnum. Meira en 100 sjálfboðaliðasamtök á Íslandi og í Evrópu hafa brugðist hratt og örugglega við stríðinu í Úkraínu og boðist til þess að taka á móti ungu flóttafólki með því að veita þeim stuðning og húsnæði í allt að eitt ár.
Jöfn tækifæri, umhverfisvernd og aukin viðurkenning á sjálfboðastörfum
Evrópuráðið hvetur til þess að kannaðar séu nýjar leiðir til þess að bjóða upp á sjálfboðastörf og að reynt sé að draga úr þeim hindrunum sem standa oft í vegi fyrir þátttöku ungs fólks í verkefnum á erlendri grundu. Einnig undirstrikar Evrópuráðið mikilvægi sjálfboðastarfa í þágu sjálfbærni og umhverfisverndar og vekur athygli á mikilvægi þess að staðfesta þátttöku og meta lærdómsreynslu starfanna, til dæmis með Youthpass.
Landskrifstofa Erasmus+ og European Solidarity Corps á Íslandi hóf nú nýlega þátttöku sína í samstarfsverkefni með öðrum landskrifstofum sem ber heitið „Nýjar bylgjur sjálfboðastarfa”, sem er leitt af SALTO miðstöð European Solidarity Corps. Markmiðið með samstarfinu er að styrkja evrópsk sjálfboðastörf, efla evrópskt samstarf og gera samstöðu að lykilhugtaki sjálfboðastarfsins.
„Við finnum fyrir því að það er mikil eftirspurn eftir sjálfboðastörfum á Íslandi og erlendis og að ungt fólk á Íslandi er orðið spenntara fyrir því að fara út og leggja sitt af mörkum“ segir ÓIi Örn Atlason, verkefnisstjóri æskulýðsmála hjá Landskrifstofunni.
Tilmæli Evrópuráðsins: https://europa.eu/youth/strategy/mobility_en
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.