Íslenskir nemendur líklegri til að halda sig innan Norðurlandanna í Erasmus+ skiptinámi en aðrir norrænir háskólanemar samkvæmt nýrri samanburðarrannsókn

2.12.2022

Niðurstöður norrænnar rannsóknar benda til að það er ýmislegt ólíkt á milli háskólanema á Norðurlöndunum sem fara í Erasmus+ skiptinám. Borið var saman hvaða ástæður liggja að baki ákvörðun þeirra að taka þátt í Erasmus+ og hvernig þau upplifðu þátttöku sína. Meðan sum taka þátt í Erasmus+ til þess að upplifa nýtt land, nýja menningu og nýtt tungumál eru önnur sem velja að fara í skiptinám vegna akademískra ástæðna og líta á þátttöku sína í Erasmus+ sem tækifæri til þess að efla sig í námi og starfi. Síðarnefndi hópurinn virðist vera ánægðari með dvöl sína en þau sem völdu að fara vegna menningarlegra ástæðna.

Rannsóknin var framkvæmd af SIHE við Uppsala Universitet í Svíþjóð og unnin í samstarfi við landskrifstofur Erasmus+ í öllum fimm Norðurlöndunum. Gefin var út skýrsla um rannsóknina sem hægt er að nálgast hér.

Áhugavert er að sjá hvernig háskólanemar á Íslandi skáru sig úr hóp samnemenda sinna á Norðurlöndunum. Til dæmis voru nemendur á Íslandi mun líklegri en aðrir til að velja Norðurlönd sem áfangastað sinn í skiptinámi meðan hinir norrænu nemendurnir leituðu oftar út fyrir þennan hluta álfunnar. Einnig var meiri akademískur fókus hjá íslensku nemendunum sem tóku þátt í Erasmus+ en nemendur annarra landa höfðu meiri tilhneigingu til að velja skiptinám vegna menningarlegra ástæðna. Þess má geta að meðalaldur háskólanema á Íslandi er almennt hærri en gengur og gerist á Norðurlöndunum og getur það mögulega verið ein ástæðan fyrir þessum mun.

Niðurstöður þessarar rannsóknar veita innsýn í reynslu norræna Erasmus+ skiptinema og hvað það er sem hvetur þau til þess að fara í skiptinám. Skýrslan mun nýtast vel í kynningarmálum fyrir Erasmus+ landskrifstofur og háskóla í kynningarmálum og til að tryggja að þátttökulöndin fullnýti þau tækifæri sem Erasmus+ hefur upp á að bjóða.

Þau sem stóðu fyrir rannsókninni héldu kynningarfund þann 2. nóvember þar sem 75 þátttakendur frá Norðurlöndunum komu saman á netinu og fengu kynningu á helstu niðurstöðum rannsóknarinnar. Kynningin var tekin upp og öll sem hafa áhuga geta nálgast upptökuna hér.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica