Með framtíðina í okkar höndum

2.6.2021

  • MicrosoftTeams-image-1-
  • MicrosoftTeams-image-2-

Evrópsk ungmennavika er haldin hátíðleg annað hvert ár til að skapa vettvang fyrir málefni ungs fólks, vekja athygli á tækifærum í Evrópu og deila farsælum árangri í ungmennastarfi. Í venjulegu árferði er þetta hápunktur evrópskra ungmennaviðburða en í skugga heimsfaraldurs eru margir viðburðir í ár haldnir rafrænt. Hér á Íslandi voru sóttvarnaraðgerðir í lágmarki þannig að hægt var að framkvæma flotta viðburði í vikunni.

Í evrópsku ungmennavikunni í ár er lögð áhersla á inngildingu og fjölbreytileika, sjálfbærni og umhverfisvernd, lýðræðisþátttöku ungs fólks og andlega og líkamlega heilsu ungs fólks eftir heimsfaraldurinn.

Tíu samtök á Íslandi hlutu styrk frá Erasmus+ og Eurodesk á Íslandi til að halda viðburði í evrópsku ungmennavikunni. Viðburðirnir voru fjölbreyttir og náðu til breiðs hóps ungmenna. Má þar nefna prjónakvöld þar sem vakin var athygli á sjálfbærni, kennsla í matjurtarækt og viðgerða á fatnaði, fyrirlestur um kynþáttafordóma og kvöldstund um matarsóun. Haldin voru námskeið í leiðtogafærni, í skapandi skrifum og skrifum til breytinga auk vinnustofu í umhverfisvænni bókaútgáfu. Í vikunni var einnig sjálfstyrkingarviðburður í Háskólabíó fyrir unga ættleidda Íslendinga og í Svalbarðsstrandarhreppi var haldið námskeið í frisbígolf til að efla ungt fólk í lýðheilsu á jafningjagrundvelli.

Auk þessa verður ljósmyndasýning í Bíó Paradís um líf sjálfboðaliða hér og erlendis dagana 2.-6. júní og námskeið í sjálfstyrkingu fyrir sundíþróttafólk á Reykjanesi þann 7. júní

Þau samtök sem fengu styrk voru AIESEC in Iceland, AUS Alþjóðleg ungmennaskipti, Félagsmiðstöðin Aldan, Félagsmiðstöðin Tónabær, Íslensk ættleiðing, Prent & vinir, Sundráð ÍRB, Ungir umhverfissinnar, Ungmennafélagið Æskan og Ungmennaráð bandalags íslenskra skáta.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica