Ný umferð af DiscoverEU – ungt fólk á ferðalagi

9.3.2023

Í dag, 15. mars, byrjar DiscoverEU happdrættið á ný. 

Við sem höfum ferðast um heiminn vitum vel hvað það getur verið gott að víkka sjóndeildarhringinn og upplifa aðra menningu. Það auðgar líf okkar að standa á eigin fótum, sjá eitthvað nýtt og skapa ógleymanlegar minningar. Síðan á vormánuðum 2022 hafa íslensk ungmenni getað tekið þátt í evrópsku happdrætti um að vinna lestarpassa til að ferðast um Evrópu – nákvæmlega í þeim tilgangi að opna huga og auðga líf.

Happdrættið er ætlað ungmennum sem eru 18 ára í upphafi ferðatímabilsins, en ferðatímabilið hefst alltaf nokkrum mánuðum eftir happdrættið sjálft. Í boði eru 50 passar fyrir ungmenni búsett á Íslandi, óháð þjóðerni og geta allt að fimm sótt um saman sem ferðahópur, en einnig er hægt að sækja um sem einstaklingar. Til þess að skrá sig í happdrættið þarf fólk að svara nokkrum spurningum sem auðvelt er að leita að svörunum að á netinu, og svo er dregið út af handahófi. Rétt svör auka þó líkur á vinningum.

Þau sem dregin eru út fá afsláttarkort sem gilda á ýmsum gististöðum og veitingastöðum vítt og breitt um Evrópu, en þau sjá sjálf um að bóka sína gistingu og hvers kyns afþreyingu.

Nú þegar hafa allt að 100 íslensk ungmenni unnið lestarpassa með DiscoverEU, fyrst á vormánuðum 2022 og svo síðasta haust, en dregið er út tvisvar á ári.

Hagnýt atriði sem þarf að hafa í huga:

  • Í hverju happdrætti er gefið upp á hvaða tímabili fólk sem sækir um þarf að vera fætt, en hver þátttakandi hefur tvö tækifæri til að taka þátt í happdrættinu þar sem tímabilið færist alltaf um hálft ár í hvert skipti. Séu þau hins vegar dregin út í fyrra happdrættinu geta þau ekki sótt um aftur.

  • Þar sem engar lestarsamgöngur eru til og frá Íslandi fá íslenskir þátttakendur flugmiða til og frá meginlandinu innifalinn en bóka þarf hann í gegnum sérstaka DiscoverEU ferðaskrifstofu. Miðar sem fólk bókar sjálft eru ekki endurgreiddir. 

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar og taka þátt í happdrættinu á vefsíðu DiscoverEU









Þetta vefsvæði byggir á Eplica