Örnámskeið um náms- og starfsráðgjöf: Fimm víddir umhverfisvænnar starfsráðgjafar

31.1.2025

Euroguidance á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum bjóða upp á röð örnámskeiða tengd náms- og starfsráðgjöf. Þann 18. febrúar 2025 kl. 14:00-15:15 að íslenskum tíma verður fjallað um fimm víddir umhverfisvænnar starfsráðgjafar.

Í ljósi aukinnar áherslu á sjálfbærni og græna þróun í atvinnulífinu bjóða Euroguidance í Danmörku og Euroguidance í Svíþjóð upp á rafrænt námskeið fyrir áhugasama um hvernig innleiða má sjálfbærni í náms- og starfsráðgjöf. Vefnámskeiðið ber yfirskriftina „Fimm víddir umhverfisvænnar starfsráðgjafar“ og fer fram á netinu þann 18. febrúar 2025 kl. 14:00-15:15 að íslenskum tíma.

Á námskeiðinu verður fjallað um mismuninn á „grænni“ og „sjálfbærri“ ráðgjöf og hvernig náms- og starfsráðgjafar geta haft áhrif á sjálfbæra þróun í gegnum sitt starf. Fjallað verður um fimm lykilvíddir umhverfisvænnar ráðgjafar og hvernig nýta má þær til að styrkja nemendur og skjólstæðinga í að taka umhverfisvænni ákvarðanir.

Miriam Dimsits, sérfræðingur á sviði starfsráðgjafar og lektor við VIA University College í Danmörku, leiðir umræðuna. Hún hefur víðtæka reynslu af náms- og starfsráðgjöf og tekur þátt í Erasmus+ verkefninu Green Guidance, sem miðar að því að tengja sjálfbærni við náms- og starfsráðgjöf.

Þetta stutta en innihaldsríka námskeið er tilvalið fyrir þá sem vilja fá innsýn í græna náms- og starfsráðgjöf og læra hvernig samþætta má sjálfbærni í ráðgjöfina.

Viðburðurinn fer fram á ensku og er skipulagður af Euroguidance Danmörku og Euroguidance Svíþjóð í samstarfi við Euroguidance á Norðurlöndunum. Síðasti dagur til að skrá sig er 7. febrúar 2025.

Skráning fer fram hér









Þetta vefsvæði byggir á Eplica