Samvinna og upplýsingagjöf lykillinn að inngildandi skiptinámi

24.5.2022

Dagana 7. og 8. apríl fór fram ráðstefna í Stokkhólmi undir yfirskriftinni Inclusive Mobility for Higher Education og Landskrifstofunni gafst kostur á að senda tvo fulltrúa frá Íslandi til þátttöku. Inngilding er eitt af forgangsatriðum Erasmus+ og mikilvægt að finna leiðir til að takast á við þær hindranir sem nemendur mæta varðandi þátttöku í áætluninni. 

Fyrir Íslands hönd tóku þær Hildur Friðriksdóttir frá Háskólanum á Akureyri og Svandís Ósk Símonardóttir frá Háskóla Íslands þátt í ráðstefnunni, en þær gegna báðar hlutverki alþjóðafulltrúa í skólunum sínum. Þær eru sammála um að ráðstefnan hafi verið gagnleg og fjölbreytt, bæði hvað varðar erindi og þátttakendur.

Erindin tóku fyrir mikilvægi inngildingar í samskiptum við nemendur, mikilvægi þess að vinna í sterku samstarfi við náms- og starfsráðgjafa, mismunandi aðferðir til þess að forgangsraða nemendum í skiptinám og tækifæri fyrir nemendur með fötlun að fara í undirbúningsheimsóknir til gestaskóla. Að mati Hildar hjálpuðu erindin henni að skilja að inngilding nær yfir mun víðfeðmara svið en hún hafði áður gert sér grein fyrir og að hindranir geta verið margvíslegar og gjarnan menningarbundnar. „Fyrsta skrefið í átt að inngildingu er því að reyna að átta sig á hvaða hindranir eru til staðar í okkar eigin háskólasamfélagi“, segir Hildur. „Í því samhengi er nauðsynlegt að kortleggja nemendahópa innan veggja skólans og reyna að átta sig á hvað einkenni þá nemendahópa sem ekki fara í skiptinám, því það auðveldar okkur að greina hvaða hindranir eru til staðar þ.e. hvaða aðstæður eru það sem mögulega eru að koma í veg fyrir að ákveðnir nemendahópar fara í skiptinám“. 

Svandís Ósk tekur í sama streng og minnist sérstaklega erindis sem fjallaði um mikilvægi þess að hafa fjölbreytta flóru nemenda í auglýsingum um skiptinám. „Það er að vitaskuld gríðarlega mikilvægt að nemendur með mismunandi bakgrunn séu sýnilegir enda undirstrikar það að námsdvöl erlendis er ætluð öllum. Eitt af áherslum Háskóla Íslands er fjölbreytileiki og spilar Alþjóðasvið mikilvægt hlutverk á því sviði, og því er gott að rifja reglulega upp mikilvægi sýnileika nemenda með mismunandi bakgrunn“, segir Svandís Ósk. Hún vill einnig taka fram að vefsíðan Inclusive Mobility er mjög hjálpleg í þessu samhengi, en meðal annars er þar hægt að taka könnun sem leggur mat á hversu vel stofnunin eða skrifstofan manns stendur sig í innleiðingu inngildingar með tillögum að skrefum til úrbóta.

Umræðurnar á ráðstefnunni voru ekki síður mikilvægar til að viðra þær áskoranir sem háskólar standa frammi fyrir þegar kemur að inngildingu í skiptinámi. Almennt eru háskólar meðvitaðir um mikilvægi þess að tryggja jafnt aðgengi til skiptináms en fæstir eru þó byrjaðir að taka markviss skref í þá átt með sértækum aðgerðum. Einnig þarf að huga að persónuverndarmálum en þau gera það oft að verkum að háskólar eiga erfitt með að nálgast gögn um ákveðna nemendahópa. 

En hvar er best að byrja? Hildur nefnir að eitt af því sem skólar geta strax gert er að rýna eigin heimasíður: „Eru upplýsingar um sértæk úrræði í skiptinámi sýnilegar á heimasíðunni? Er lögð sérstök áhersla á að koma á framfæri upplýsingum um viðbótarstyrki vegna þátttöku þeirra sem myndu mæta auka kostnaði umfram aðra vegna sérstakra aðstæðna? Eru upplýsingarnar aðgengilegar og auðskiljanlegar?“ Í þessu samhengi bendir Hildur á að of langur og flókinn texti geti mögulega virkað sem hindrun fyrir ákveðna hópa. Þetta eigi einnig við um sjálft umsóknarferlið: „Of flókið umsóknarferli og óskýrar og óaðgengilegar leiðbeiningar geta orðið til þess að ákveðnir nemendur veigra sér við að sækja um skiptinám. Því er mikilvægt að öll upplýsingagjöf sé sniðin á sem einfaldastan og aðgengilegastan hátt“. Hildur telur einnig að margir háskólar í Evrópu hafi skipað sérstaka inngildingarfulltrúa til að styrkja málaflokkinn enn frekar.

Lykillinn að árangursríkum og inngildandi stúdentaskiptum má finna með samvinnu. „Það er á ábyrgð alls háskólasamfélagsins að tryggja jafnan aðgang og tækifæri til skiptináms og þar þurfa allir að vinna að sama marki, hvort sem um er ræða alþjóðafulltrúa, stoðþjónustuna eða akademíska starfsmenn“, bendir Hildur á. Og Svandís Ósk hefur nú þegar byrjað að láta orðið berast: „Ég hef kynnt fyrir skrifstofunni minni þá þekkingu sem ég öðlaðist á ráðstefnunni og vonast ég til að hún muni koma til með að koma okkur að góðu gagni á komandi misserum.“

Ráðstefnan í Stokkhólmi var svokallaður TCA viðburður (Training and Cooperation Activities) og var undirbúningurinn í þessu tilfelli í höndum sænsku landsskrifstofunnar. Á hverju ári gefst Landskrifstofunni kostur á að styrkja einstaklinga úr mennta- og æskulýðssamfélaginu hér á landi til að taka þátt í fjölbreyttum TCA-viðburðum víða um Evrópu sem hjálpa þeim að efla tengslanetið sitt og framkvæma Erasmus+ verkefni á árangursríkan hátt. Við hvetjum öll þau sem vilja prófa eitthvað svipað og þær Hildur og Svandís Ósk til að kynna sér TCA-tækifæri nánar á síðunum okkar, annars vegar fyrir æskulýðsstarf og hins vegar fyrir menntahlutann.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica