Sjálfbærni í brennidepli á vel heppnaðri ráðstefnu um Erasmus+

10.6.2023

Ráðstefnan Verum græn með Erasmus+ vakti athygli á grænum markmiðum evrópskra samstarfsáætlana miðvikudaginn 7. júní í Veröld, húsi Vigdísar. Um 60 gestir voru í salnum og um 100 gestir fylgdust með í streymi.

Evrópskar samstarfsáætlanir á sviði menntunar, æskulýðsmála og íþrótta, Erasmus+, eTwinning og European Solidarity Corps, hafa sjálfbærni sem forgangsatriði. Áætlanirnar hvetja styrkhafa til að nálgast alþjóðlegt samstarf á vistvænan hátt og kalla eftir verkefnum sem takast á við loftslagsbreytingar.

Rúna V. Guðmarsdóttir, forstöðukona Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi, setti ráðstefnuna og ítrekaði mikilvægi sjálfbærrar nálgunar á alþjóðasamstarf:

Við gleðjumst mjög yfir frábærri eftirspurn um ferðir til náms og þjálfunar, enda er margbúið að sýna fram á ávinninginn sem þær hafa fyrir fólkið sem ferðast, fólkið sem tekur á móti og samfélagið sem nýtur góðs af þekkingunni og víðsýninni sem skilar sér til baka. Á sama tíma er mikilvægt að við gerum það sem við getum til að láta allar þessar ferðir skipti máli. Að gæðin séu tryggð. Að reynslan sé metin. Og að einstaklingar á faraldsfæti geti látið gott af sér leiða gagnvart umhverfinu – því að við vitum jú að ferðalög milli landa hafa óhjákvæmilega í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda, ekki síst þegar eyjur eins og Ísland eiga í hlut.

Gestir hlýddu á erindi Felix Tran frá Erasmus+ SALTO GREEN stuðningsþjónustunni, sem beindi sjónum að hraðri hlýnun jarðar og þeim möguleikum sem eru fyrir hendi á að sporna við þeirri þróun gegnum Evrópusamstarf. Fjölmörg verkefni í áætlunum þremur takast á við umhverfis- og loftslagsmál á fjölbreyttan hátt og ráðstefnan lagði áherslu á þá breidd sem evrópsk tækifæri hafa upp á að bjóða. Þannig voru sýnd myndbönd frá ólíkum hlutum mennta- og æskulýðssamfélagsins hér á landi, sem hægt er að sjá hér.

Að auki leiddi ráðstefnustjórinn áhugaverðar umræður í pallborði þar sem gestir fengu að heyra af reynslu þeirra Bjarkar Þorleifsdóttur, Vilhjálms Árna Sigurðssonar, Anneyjar Ágústsdóttur, Christian Schultze, Sólrúnar Sigurðardótttur og Oscars Uscategui af grænu Evrópusamstarfi. 

Eftir vel heppnaða ráðstefnu gæddu gestir sér á veitingum við undirspil píanóleikarans Jökuls Jónssonar.

Starfsfólk Landskrifstofu færir gestum bestu þakkir fyrir þátttökuna og samtalið um þennan mikilvæga málaflokk. Það vonar að viðburðurinn hafi veitt innblástur og aukið þekkingu á þeim ótalmörgu tækifærum sem Evrópusamstarf hefur upp á að bjóða til að vinna að grænni framtíð gegnum menntun og æskulýðsstarf. Nánari upplýsingar um grænar áherslur í Erasmus+ má finna á síðunni www.erasmusplus.is ásamt upplýsingum um umsóknarfresti og starfsfólk. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica