Skilaboð frá Landskrifstofu vegna innrásar í Úkraínu
25.2.2022
Vegna stöðunnar í Úkraínu
vill Landskrifstofa Erasmus+ og European Solidarity Corps koma eftirfarandi
atriðum á framfæri.
- Landskrifstofu er ekki kunnugt um að þátttakendur á vegum íslenskra Erasmus+ og ESC verkefna séu staddir í Úkraínu eða Rússlandi í augnablikinu. Við biðjum ykkur að láta starfsfólk Landskrifstofu vita við fyrsta tækifæri ef svo er og bendum á borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins ef þörf er á aðstoð.
- Einnig hvetjum við ykkur til að hafa samband ef þátttakendur á vegum verkefna ykkar eru staddir á svæðum í nágrenni við Úkraínu þar sem öryggi er ógnað. Við munum leita allra leiða til að koma til móts við aukalegan kostnað sem hlýst af heimkomu ef við á.
- Ef úkraínskir þátttakendur eru staddir á Íslandi á vegum íslenskra Erasmus+ og ESC verkefna biðjum við ykkur sömuleiðis að láta okkur vita og kanna möguleikana á því að framlengja dvöl þeirra hér á landi.
- Ef þið stýrið verkefni sem hafði í hyggju að senda þátttakendur til Úkraínu hvetjum við ykkur til að kanna hvaða breytingar eru mögulegar. Hafið endilega samband við okkur á Landskrifstofu til að ræða hvaða kostir eru í stöðunni.
Erasmus+ og European Solidarity Corps er ætlað að efla samstöðu, lýðræði og frið í Evrópu. Hugur okkar er hjá saklausu fólki sem hefur verið sett í hættu og við fordæmum innrás Rússa í Úkraínu harðlega.