Stoðverkefnið Eurodesk skipulagði heimsókn til Grundarfjarðar á dögunum og kynnti tækifæri erlendis fyrir ungt fólk á staðnum. Kynningarnar voru gerðar í samstarfi við Alicju Chajewsku sem býr á Grundarfirði og voru því í boði á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku.
Þann 6. desember heimsótti Eurodesk á Íslandi Grundarfjörð og hélt kynningar í bænum. Heimsóknin var liður í að sækja landsbyggðina heim á virkari hátt og bjóða upp á persónulegt spjall við starfsfólk Landskrifstofunnar. Einnig var lögð sérstök áhersla á að ná til innflytjenda og því var heimsóknin skipulögð í samvinnu við pólskan European Solidarity Corps (ESC) þjálfara að nafni Alicja Chajewska, sem nú býr á Grundarfirði. Alicja hefur mikinn áhuga og þekkingu á Erasmus+ og ESC og aðstoðaði við að koma viðburðinum á framfæri gegnum tengslanet sitt.
Tvenns konar kynning fór fram í Fjölbrautaskóla Snæfellinga, ein á íslensku og önnur á pólsku, og þrítyngt Erasmus+ kaffi á kaffihúsi í bænum síðdegis. Í stað hefðbundinnar kynningar fyrir nemendur á sal skólans var sett upp huggulegt kynningarsvæði við sófa í miðrými skólans og þannig var hægt að bjóða nemendum upp á samtal um þá hluta áætlananna sem þau höfðu áhuga á. Nemendurnir voru virkilega ánægð með að fá óformlegar umræður frekar en glærukynningu. 14 íslenskumælandi og fjórir pólskumælandi nemendur tóku þátt í samtalinu.
Kynningarteymið leit við í grunnskólanum og bókasafninu áður en opna húsið um Erasmus+ hófst á Valería kaffi. Þangað mættu 12 manns með fjölbreyttan bakgrunn – svo sem flóttafólk frá Úkraínu, pólskumælandi foreldri með áhuga á tækifærum fyrir börnin sín, og fulltrúar frá Félagsmiðstöð Grundarfjarðar og Ungmennaráði Snæfellsbæjar. Þau fögnuðu tækifærinu til að heyra um möguleikana í Evrópusamstarfi, taka þátt í hugarflugi með starfsfólki Landskrifstofunnar og fá heimsókn í heimabyggð.
Við þökkum Grundfirðingum og öðrum gestum viðburðanna kærlega fyrir áhugaverðar umræður og frábærar móttökur. Sérstakar þakkir fær Alicja fyrir árangursríkt samstarf.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.