Verkefni í Erasmus+ og European Solidarity Corps hafa verið styrkt um 9 milljónir evra það sem af er ári

23.5.2024

Landskrifstofa hefur lokið afgreiðslu umsókna sem bárust fyrir fyrsta frest ársins, þann 20. febrúar, og ættu margir umsækjendur að hafa glaðst yfir svarbréfum sem send voru út á dögunum. Sífellt fjölgar í hópi þeirra sem hafa fengið aðild sína að Erasmus+ áætluninni samþykkta en einnig eru nýliðar í hópi umsækjenda og landfræðileg dreifing góð. 

Aðildin er hugsuð fyrir þau samtök og stofnanir sem hafa gert nám og þjálfun erlendis að reglubundnum þætti og leyfir þeim að sækja um styrki á einfaldaðan hátt. Hlutfall styrkhafa með aðild hefur aldrei verið jafn hátt og í ár. Í þetta sinn veitti Landskrifstofa átta slíka styrki í fullorðinsfræðslu fyrir um 250 þúsund evrur, 17 styrki í starfsmenntun fyrir rúmlega tvær milljónir evra, 41 styrk í til leik-, grunn- og framhaldsskóla fyrir um 1,3 milljónir evra og 13 styrki í æskulýðshluta fyrir um 1,1 milljónir evra.

Ekki er nauðsynlegt að hafa hlotið aðild að Erasmus+ til að sækja um styrki til náms og þjálfunar, þótt umsóknir án aðildar séu óalgengari nú en áður. Landskrifstofa gleðst yfir því að hafa fengið umsóknir frá samtökum og stofnunum sem eru að stíga sín fyrstu skref í áætluninni og koma frá ólíkum landshlutum. Í fullorðinsfræðslu voru þrjár umsóknir um svokölluð skammtímaverkefni samþykkt fyrir um 117 þúsund evrur. Í skólahluta hlutu fjórar umsóknir styrki fyrir 90 þúsund evrur.

Í æskulýðshluta var níu styrkjum veitt til ungmennaskiptaverkefna, sem alls hlutu tæplega 500 þúsund evrur. Þá voru fjórir styrkir veittir til náms og þjálfunar æskulýðsstarfsfólks fyrir rúmlega 80 þúsund evrur og einn styrkur til þátttökuverkefnis, sem nam rúmlega 50 þúsund evrum. Í æskulýðshluta vekur sérstaka athygli að um 40% umsókna sneri að inngildandi verkefnum og af þeim 787 þátttakendum sem sótt var um styrk fyrir flokkast 260 sem þátttakendur með færri tækifæri.

Annað árið í röð var nú hægt að sækja um styrki til náms og þjálfunar í íþróttum, en þessi tækifæri eru ætluð starfsfólki, þjálfurum og sjálfboðaliðum sem geta tekið þátt í starfsspeglun eða þjálfun erlendis og þannig stutt við uppbyggingu íþróttafélaga í grasrótarstarfi. Að þessu sinni var Landskrifstofu unnt að styrkja þrjár umsóknir um rúmlega 26 þúsund evrur.

Stærstur hluti styrkja til náms og þjálfunar rann til nemenda, kennara og starfsfólks háskóla. Allir sjö háskólar landsins fengu umsóknir sínar um stúdenta- og starfsmannaskipti í Evrópu samþykktar og var 3,2 milljónum evra samtals veitt til þessara verkefna. Að auki hlutu þrír háskólar samtals 102 þúsund evrur fyrir samstarf á sviði náms og þjálfunar við lönd utan Evrópu.

Síðast en ekki síst ber að nefna úthlutun í European Solidarity Corps áætluninni, sem átti sér stað samhliða afgreiðslu umsókna í Erasmus+. Fimm sjálfboðaliðaverkefni fengu styrk að þessu sinni, samtals að upphæð 465 þúsund evrur. Þá hlutu tvö samfélagsverkefni samtals 33 þúsund evrur úr áætluninni.

Það er ljóst að fjölbreytt og spennandi verkefni munu hefja göngu sína á næstu mánuðum og Landskrifstofa er þegar byrjuð að senda styrkhöfum samninga til undirritunar. 

Sjá nánari upplýsingar um úthlutanir ársins .









Þetta vefsvæði byggir á Eplica