Jafningjafræðsla eflir ungt flóttafólk!
Maímánuður er helgaður fjölbreytileikanum í Evrópu. Því er tilvalið að nýta tækifærið og varpa ljósi á framúrskarandi Evrópuverkefni sem fór fram hér á Íslandi á vormánuðunum. Verkefnið fól í sér að skapa tengsl milli ungra Íslendinga og ungs fólks sem hefur komið til Íslands sem flóttafólk á síðustu misserum. Unga fólkið sem hópurinn hitti voru á aldrinum 14-20 ára og voru þau frá löndum eins og Afganistan, Palestínu, Íran og Venesúela.
Hópur jafningjafræðara Hins Hússins sótti síðasta haust um samfélagsstyrk úr sjálfboðaliða- og samfélagsáætlun Evrópusambandsins, European Solidarity Corps. Samfélagsstyrkir eru styrkir fyrir innanlandsverkefnum og er hægt að lesa nánar um þá hér.
Markmið verkefnisins var að skapa vettvang þar sem fjölbreyttur hópur ungmenna gat komið saman og rætt upplifun sína af því að vera ung manneskja í dag. Þrátt fyrir ólíkan bakgrunn, kom í ljós að unga fólkið margt sameiginlegt, en með tilkomu samfélagsmiðla hefur sjaldan verið jafn auðvelt fyrir ungt fólk af ólíkum uppruna að finna sameiginlega snertifleti og nú, og jafnvel að nýta sér upplýsingatækni til tjáskipta, þvert á tungumál.
Búin var til dagskrá fyrir unga fólkið þar sem áhugaverðir staðir í miðbæ Reykjavíkur voru skoðaðir. Tilgangurinn var að skoða skemmtilega og nytsamlega staði fyrir ungt fólk. Til að byrja með hittist hópurinn á Klambratúni þar sem farið var í hópeflisleiki og svo var haldið niður í bæ með viðkomu á Hlemmi, þar sem unga fólkið fékk upplýsingar um helstu samgönguleiðir.
Í miðbænum gafst ekki einungis tími til að skoða skemmtilega staði, heldur einnig að spjalla saman og deila reynslu. European Solidarity Corps styrkurinn nýttist einnig til að veita unga fólkinu aðgang að norðurljósasýningu og íshelli í Perlunni ásamt því sem þau gátu gætt sér á ís frá Valdísi, enda tilgangurinn bæði að kynna þau fyrir landinu, sem og íslenskri ungmennamenningu.
Jafningjafræðararnir sem unnu verkefnið eru sjö talsins og eru á aldrinum 18-20 ára. Þau sátu nokkur undirbúningsnámsskeið, m.a. til að læra meira um aðstæður flóttafólks hér á landi og til að sjá á hvaða sviðum helst þurfi að veita stuðning.
Eurodesk á Íslandi kom að undirbúningsfræðslu jafningjafræðarana, en þau fengu einnig fræðslu frá verkefnunum Sprettur, Velkomin í hverfið, Mannflóran og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
Verkefnið skapaði tækifæri fyrir þessa nýju íbúa Íslands til að læra um daglegt líf ungs fólks í sínu nýja landi. Það veitti einnig ungu jafningjafræðurunum innsýn og aukna þekkingu á aðstæðum ungs flóttafólks og hvernig jafningjafræðsla getur komið til móts við þarfir þeirra. Það er von jafningjafræðarana að hægt verði að endurtaka verkefnið árlega því mikil ánægja var með framtakið hjá hópnum sem þau hittu.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.