We Lead: Leiðtogahæfni kvenna í ferðaþjónustu

3.2.2025

Markmið verkefnisins var að efla leiðtogahæfni kvenna í ferðaþjónustu. Oft hallar á hlut kvenna í störfum þeirra innan ferðaþjónustunnar þegar litið er til þátta eins og launa, vinnuaðstæðna og möguleikum á stöðuhækkun. Verkefnið hefur skilað góðum og áhugaverðum niðurstöðum sem eru öllum aðgengileg.

Rannsóknamiðstöð ferðamála leiddi We Lead, sem er Erasmus+ samstarfsverkefni, fyrir hönd Háskólans á Akureyri en Kennslumiðstöð HA kom einnig að verkefninu. Aðrir samstarfsaðilar verkefnisins voru Transformia (Ísland), European E-learning Institute (Danmörk), Momentum (Írland) og CDEA (Spánn).

We Lead verkefnið miðaði að því að skapa starfsumhverfi innan ferðaþjónustunnar sem stuðlar að jafnræði, jöfnuði og sem bregst við þörfum samfélagsins, ekki síst þegar kemur að þeirri helstu áskorun samtímans sem loftslagsbreytingar af mannavöldum eru. Það er vaxandi samstaða meðal hagaðila innan ferðaþjónustunnar um að seigla greinarinnar til framtíðar muni ráðast af getu hennar til að aðlaga sig að lágu kolefnisspori og draga úr losun gróðurhúsaefna um 50% fyrir árið 2030.

Í We Lead var lögð áhersla á að vinna að því að auka sýnileika, forystuhæfni og áhrifamátt kvenna í ferðaþjónustu, sérstaklega þegar kemur að því að skapa sjálfbærari framtíð greinarinnar. Sú áhersla endurspeglast í fræðsluefninu sem útbúið var í tengslum við verkefnið, en efnið er allt aðgengilegt á heimasíðu We lead í opnum aðgangi og á þremur tungumálum: íslensku, ensku og spænsku.

  • Samantektarskýrsla - konur sem leiðtogar í sjálfbærri ferðaþjónustu skapar fræðilegan grunn fyrir We Lead. Hér eru hugtök og viðfangsefni verkefnisins sett fram og skoðað hvernig þau tengjast. Í skýrslunni er settur fram rammi um hvernig megi skoða tengsl leiðtogafræða, jafnréttismála, ferðaþjónustu og loftslagsbreytinga.
  • Kvenfyrirmyndir innan ferðaþjónustunnar - níu dæmisögur er hefti sem bíður upp á dæmisögur frá sterkum kvenfyrirmyndum innan ferðaþjónustunnar. Með því að deila þessum sögum vonumst við til að bæði fræða og hvetja framtíðar kvenleiðtoga.
  • We Lead kennsluefni í sex hlutum er byggt á megin þemum fimmta heimsmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti kynjanna og er ætlað til starfsmenntunar og þjálfunar, bæði í kennslustofum og til sjálfsmenntunar.
  • Handbók fyrir leiðbeinendur og leiðtoga í ferðaþjónustunni inniheldur praktísk úrræði og ábendingar um hvernig þú getur samþætt sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í starf þitt og af hverju það sé mikilvægt.
  • Leiðarvísir We Lead um netherferðir er ætlað að veita innblástur fyrir hvernig hægt er að hrinda af stað stafrænum herferðum, hvernig slík herferð getur verið samsett og hvaða aðferðum er hægt að beita til a vekja athygli á sínum málstað og hefja samtalið.
  • Stafrænn vettvangur We Lead inniheldur efni og úrræði fyrir fólk sem vill lesa meira og tengjast öðrum, t.d. í gegnum sérstakan LinkedIn hóp.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica