Þjóðir heims hafa skuldbundið sig til að veita nemendum menntun sem tryggir að þeir öðlist færni til að efla sjálfbæran lífstíl, alheimsvitund og virðingu fyrir menningarlegri fjölbreytni með Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Kennarar framtíðarinnar hafa hér lykilhlutverki að gegna og það er því afar mikilvægt að þeim gefist tækifæri til að læra og fá þjálfun í umhverfi sem styður þau í að víkka sjóndeildarhring sinn og efla fjölmenningarlega færni. Samt sem áður vill kennaramenntun oft verða bundin við landsteinana, og kennaranemar fara ekki í skiptinám eða starfsþjálfun erlendis í sama mæli og aðrir.
Jafnvel þótt nemendur í kennaranámi og öðrum menntavísindum séu um 12% allra háskólanema á Íslandi er hlutfall þeirra af þeim sem taka þátt í Erasmus+ aðeins um 2%, samkvæmt tölfræðilegum upplýsingum Rannís, landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi, frá 2017. Í samstarfi við EDUFI, sem rekur finnsku Erasmus+ landskrifstofuna, skipulagði Rannís ráðstefnu í Reykjavík 3.-5. desember síðastliðinn, sem leiddi saman um það bil 70 þátttakendur – alþjóðafulltrúa, nemendur og kennara – frá ólíkum Evrópulöndum með það markmið að finna sameiginlegar leiðir til að styðja við alþjóðlega reynslu í kennaranámi.
Fyrirlesarar á ráðstefnunni komu úr hópi rannsakenda á sviði alþjóðavæðingar, alheimsmenntunar og félagslegs réttlætis sem og nemenda. Hópavinna leiddi í ljós að margar þær hindranir sem verða á vegi kennaranema þegar kemur að námsdvöl erlendis eru sameiginlegar ólíkum löndum. Ræddar voru leiðir til efla þátttöku þeirra í skiptinámi og starfsþjálfun í útlöndum og má þar helst nefna öflugt kynningarstarf meðal ungmenna áður en háskólaganga þeirra hefst, tækifæri til að fara út í skemmri tíma og á sumarnámskeið og að tileinka eitt misseri í námskrá kennaranema dvöl erlendis. Áhersla var lögð á mikilvægi þess að bjóða upp á kennaranám sem er alþjóðlegt í eðli sínu – til dæmis með þátttöku erlendra nemenda og kennara og samvinnu við kennaranema í öðrum löndum með hjálp verkfæra eins og eTwinning. Þannig getur alþjóðavæðing heima fyrir stutt kennara framtíðarinnar við að veita sjálfbæra menntun fyrir alla.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.