Hvað ber framtíð Erasmus+ og European Solidarity Corps í skauti sér? Frásögn frá ráðstefnu í Brussel

27.2.2025

Nú styttist óðum í lok þessa áætlanatímabils og tímabært að líta til framtíðar. Til að undirbúa vinnu við næsta áætlanatímabil bauð framkvæmdastjórn ESB reynslumiklum þátttakendum og starfsfólki landskrifstofa að taka þátt í vinnustofum þar sem þátttakendur gátu komið hugmyndum sínum á framfæri. Þetta var fyrsta vinnustofan af mörgum þar sem boðað verður til slíkrar hugmyndavinnu. 

Framkvæmdastjórnin lagði mikla áherslu á mikilvægi áætlananna fyrir framtíð Evrópu og vilja til að hlusta á ábendingar þeirra sem vinna með áætlanirnar í daglegu starfi. Roxana Minzatu, framkvæmdastjóri á sviði færni og menntunar, vinnumarkaðsmála og félagsmála og einn af varaforsetum framkvæmdastjórnarinnar, ítrekaði áherslur á inngildingu og fjölbreytileika í áætlununum og undirstrikaði að þær væru lykillinn að framtíð ungs fólks og starfsþróun fullorðinna í Evrópu. „Erasmus+ getur verið leið til að styrkja samevrópsk gildi um fjölbreytileika, lýðræði og virðingu fyrir alþjóðalögum, og því sé mikilvægt að áætlanirnar haldi velli þrátt fyrir nýjar áskoranir á alþjóðasviðinu,“ sagði Roxana.

Allir þátttakendur ráðstefnunnar gátu valið sér tvær þematengdar vinnustofur þar sem þátttakendum var skipt í blandaða hópa. Í þeim fór fram hugarflug um úrbætur í áætluninni út frá efni hverrar vinnustofu, sem voru meðal annars inngilding og fjölbreytileiki, stefnur og áætlanir, einföldun og skýrleiki, menntun, sjálfboðaliðastörf og ungmennaskipti (hægt er að skoða nánari dagskrá hér).

Hugmyndunum var síðan safnað saman og þær verða skoðaðar af starfsfólki framkvæmdastjórnarinnar, en það er von þátttakenda að tillögurnar komi að gagni og verði nýttar í framtíðinni. Ráðstefnuna sátu Miriam Petra Ómarsdóttir Awad fyrir hönd íslensku Landskrifstofunnar og Gunnar Eysteinn Sigurbjörnsson, deildarstjóri frístundaþjónustu í sveitarfélaginu Árborg.

Framkvæmdastjórnin býður öllum að taka þátt í opnu samráði um næsta tímabil eins og sagt var frá hér á vefnum fyrr í mánuðinum og við hvetjum ykkur til þess að nýta tækifærið til að koma ábendingum ykkar á framfæri.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica