Tækifæri til að skapa áhrifaríkt og alþjóðlegt samstarf með langtímaáhrifum

21.11.2024

Frásögn af norrænni ráðstefnu um Erasmus+ hæfnismótun í Kaupmannahöfn.

Dagana 11-13. nóvember var haldin fróðleg og skemmtileg ráðstefna í Kaupmannhöfn um Erasmus+ hæfnismótunarverkefni (e. capacity building) á háskólastigi og verkmenntastigi. Ráðstefnan var sameiginlegt framtak allra norrænu Erasmus+ landsskrifstofanna. Alls tóku 65 fulltrúar frá norrænum háskólum, verkmenntaskólum og landskrifstofum þátt í ráðstefnunni auk tveggja sérfræðinga frá Úganda og Hollandi. Frá Íslandi sóttu ráðstefnuna fulltrúi frá Tækniskólanum auk tveggja fulltrúa frá Rannís. Ráðstefnan leiddi saman aðila sem hafa mikla reynslu af Erasmus+ hæfnismótunarverkefnum og aðila sem hafa áhuga á að sækja um slík verkefni í framtíðinni. Ráðstefnan var því góður vettvangur fyrir starfsfólk að skiptast á reynslu og nýjum hugmyndum.

Þátttakendur voru sammála um að ráðstefnan hafi verið gagnleg og mikilvægt væri að miðla áfram hagnýtri þekkingu um tækifæri, áskoranir og aðferðir við að sækja um og framkvæma hæfnismótunarverkefni í menntamálum.

Peter Grønnegard, stjórnandi dönsku Erasmus+ landskrifstofunnar, opnaði ráðstefnuna með því að leggja áherslu á mikilvægi Erasmus+ hæfnismótunarverkefna. Hann tók fram að umsóknum væri að fjölga og samkeppni að aukast. Því væri mikilvægt fyrir háskóla og verkmenntaskóla að þróa getu sína til að undirbúa umsóknir um slík verkefni svo að unnt sé að koma góðum hugmyndum í framkvæmd.

Adrian Veale frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fór yfir helstu markmið ESB og ytri samstarfsaðila með fjárveitingum í hæfnismótunarverkefni og helstu möguleika og skilyrði fyrir þátttöku í þeim. Verkefnunum er ætlað að styðja við lönd sem ekki eru tengd Erasmus+, við að alþjóðavæðast og takast á við áskoranir í menntakerfum þeirra, auka samstarf við evrópskar menntastofnanir og efla tengsl og skilning milli fólks. Þá kynnti Adrian helstu áherslur í hæfnismótun í Erasmus+ 2025 kallinu, en þar er meðal annars lögð rík áhersla á samstarf við stofnanir í Afríku sunnan Sahara. Hvatti hann þátttakendur til að nýta sér Erasmus+ tengiliði til að fá aðstoð við leit að samstarfsaðilum í hæfnismótunarverkefni en þá má finna á lista ESB yfir „Erasmus+ Focal Points“.

Basil Mugonola frá Gulu University í Úganda deildi reynslu sinni af því að hafa tekið þátt í nokkrum hæfnismótunarverkefnum. Þátttakan hefur leitt til gjöfuls langtímasamstarfs með aðilum innan Evrópu og Afríku og styrkt hans persónulega feril sem fræðimanns á sviði landbúnaðar. Verkefnin hafa leitt af sér nýjar námsleiðir, aukið samstarf við einkageirann og fjölmörg framhaldsverkefni milli samstarfsaðilanna. Basil benti einnig á mikilvægi þess að nýta slík verkefni í rannsóknum, þar sem niðurstöður hæfnismótunarverkefna geta einnig leitt til nýrra vísindagreina og viðskiptaþróunar.

Bas Beisiegel frá hollensku landskrifstofunni kynnti svo hagnýtar aðferðir til að styðja starfsfólk háskóla-og verkmenntaskóla í að hanna, undirbúa og sækja um sín eigin hæfnismótunarverkefni. Meðal þess sem Bas kynnti er nýtt veftól til að ná tilsettum árangri í Erasmus+ verkefnum, svo kallað „Impact tool“. Aðrir norrænir þátttakendur deildu einnig sinni reynslu af því að finna rétta samstarfsaðila í hæfnismótunarverkefni, góðum ráðum varðandi inngildingu og önnur mikilvæg siðferðileg málefni sem er meðal annars gerð góð skil í finnskum leiðarvísi sem var kynntur „Ethical Guidelines for responsible academic partnerships with the Global South“.

Þátttakendum var svo skipt upp í hópa eftir skólastigum og fengu að spreyta sig á því að undirbúa og kynna hugmyndir um hæfnismótunarverkefni og greina ytra umhverfi þeirra og hagsmunaaðila í þeim tilgangi að ná sem mestum jákvæðum áhrifum.

Landskrifstofa hvetur öll áhugasöm um að kynna sér nánar Erasmus+ hæfnismótun í nýrri Erasmus+ handbók fyrir 2025 kallið sem birt var 19 nóvember. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica