Gæti Evrópusamstarf nýst þinni stofnun í stefnumótun? Upplýsingafundur um Erasmus+ stefnumótandi verkefni 11. mars

27.2.2025

Frestur til að sækja um stefnumótandi verkefni í Erasmus+ er 27. maí næstkomandi og býður Framkvæmdaskrifstofa mennta- og menningarmála í Brussel öll áhugasöm velkomin á rafrænan upplýsingafund þriðjudaginn 11. mars.

Stefnumótandi verkefni í Erasmus+ hafa það markmið að styðja stofnanir í stefnumótun sinni og stuðla þannig að umbótum í menntun og þjálfun í Evrópu. Slík verkefni fela í sér samstarf um að greina, þróa, prófa og/eða meta nýstárlegar nálganir til að takast á við áskoranir á grunnskólastigi, framhaldskólastigi, í starfsmenntun, háskólanámi og í fullorðinsfræðslu. 

Framkvæmdaskrifstofa mennta- og menningarmála í Brussel mun, í samvinnu við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, halda upplýsingafund á netinu um næsta umsóknarfrest um Erasmus+ stefnumótandi verkefni þann 27. maí 2025. Upplýsingafundurinn verður haldinn þann 11. mars 2025 frá 8:30 til 11:00 að íslenskum tíma og verður aðgengilegur á netinu. Hlekk á fundinn má finna á síðu viðburðarins.

Hvað er í boði?

Næsti umsóknarfrestur um Erasmus+ stefnumótandi verkefni snýr að átta lykilviðfangsefnum:

  • Skólamenntun – efling grunnfærni: Markmiðið verkefnanna er að styðja Evrópulönd við að bæta læsi, stærðfræði- og vísindafærni með því að innleiða áhrifaríkar kennslu-, náms- og matsaðferðir, með sérstakri áherslu á fyrstu skólaárin.
  • Starfsmenntun og þjálfun - Sköpun hvetjandi og styðjandi umhverfis fyrir framúrskarandi starfsmenntun: Markmið verkefnanna er að gera stofnunum kleift að vinna saman að eflingu starfsmenntunar á landsvísu með því að byggja á reynslu og niðurstöðum Öndvegissetra starfsmenntunar.
  • Starfsmenntun og þjálfun - Þróun sameiginlegs náms og starfsmenntunarréttinda: Markmið verkefnanna er að auka alþjóðlegt samstarf og einfalda mat og viðurkenningu á starfsmenntun og þannig gera einstaklingum auðveldara að stunda nám og vinnu í öðru Evrópulandi.
  • Fullorðinsfræðsla - Efling endurmenntunar: Markmið verkefnanna er að þróa samstarf lítilla og meðalstórra fyrirtækja, bæði sín á milli og við stærri fyrirtæki, varðandi þjálfun einstaklinga. Þessu er ætlað að stuðla að útfærslu og eftirliti með skuldbindingum stofnanna samkvæmt samningi Evrópusambandsins um færniþjálfun (e. Pact for Skills).
  • Fullorðinsfræðsla - Bætt starfsráðgjöf til að efla þátttöku fullorðinna í þjálfun: Markmið verkefnanna er að bjóða þjónustu, t.a.m. með aðstoð gervigreindar, sem metur færni starfsfólks og beinir því í sérsniðna þjálfun og aðstoðar jafnframt vinnuveitendur í mati á þörfum vinnustaðar fyrir nýja færni í því skyni að gera þeim kleift að styðja starfsfólk sitt til endurmenntunar.
  • Stafræn menntun - Mat á stafrænni færni og hæfni: Markmið verkefnanna er að kanna og þróa leiðir til að meti stafræna færni nemenda á grunn- og/eða framhaldsskólastigi, þar með talið í starfsmenntun, á heildrænan og áreiðanlegan máta.
  • Stafræn menntun - Siðferðileg og árangursrík notkun skapandi gervigreindar í menntun: Markmið verkefnanna er undirbúa menntastofnanir og efla getu þeirra til notkunar gervigreindar í kennslu, námi og mati. Verkefnin styðja stofnanirnar í að búa til leiðbeiningar og þróa tillögur um notkun sem nýta má í áframhaldandi stefnumótun í málaflokknum. 


Misjafnt er milli málaflokka hver getur sótt um. Hverri umsókn er ætlað að takast á við einn málaflokk og eitt áhersluatriði undir þeim málaflokki. Ef umsækjendur vilja sækja um á fleiri sviðum þarf að senda inn fleiri en eina umsókn.

Nálgast má örkynningar á hverju viðfangsefni á síðu upplýsingarfundarins og á umsóknargátt framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins. Um er að ræða miðstýrðan verkefnaflokk, en það þýðir að umsjón með honum er ekki í höndum landskrifstofa heldur Framkvæmdaskrifstofa mennta- og menningarmála í Brussel.

Spurningar tengdar umsóknarferlinu má senda til EACEA-POLICY-SUPPORT@ec.europa.eu









Þetta vefsvæði byggir á Eplica